15.05.1981
Sameinað þing: 83. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4431 í B-deild Alþingistíðinda. (4469)

280. mál, stóriðjumál

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Við erum ekki hér að tala um neitt smámál. Við erum að tala um eina helstu undirstöðu hagsældar í þessu landi á næstu árum og áratugum. Hvernig lífskjör þróast í framtíðinni fer eftir því öðru fremur hvernig okkur tekst til með uppbyggingu orkufreks iðnaðar í þessu landi.

Ég verð að segja að mér finnst minni hl. hv. allshn. vera hógværir menn og lítillátir fyrir hönd Alþingis. Þeir telja að Alþingi þurfi hvergi nálægt þessum málum að koma nema til að greiða atkv., til að setja stimpilinn á það sem ríkisstj. — eða réttara sagt hæstv. iðnrh. — hefur áður gert. Þeim líkar það vel, hv. þm. í minni hl. allshn., að hæstv. iðnrh. skipi flokksbræður sína í nefndir og starfshópa, í þessu tilviki orkustefnunefnd, eins og hún er kölluð, og e. t. v. fái aðrir aðilar ríkisstj. fyrir náð að fljóta með í nefndirnar. Þessi mál koma stjórnarandstöðunni ekki við, að dómi þessara ágætu manna, og það sem meira er: þau koma Alþingi ekki heldur við ef tekið er mið af nál. minni hl. allshn. á þskj. 780. Þeim líkar vel að fjölmargir starfshópar hæstv. iðnrh. gangi frá öllum málum og síðan fái hv. Alþingi af náð að sjá framan í flókin frumvörp 1–2 vikum fyrir áætlaðar þinglausnir. Svo er þess krafist að Alþingi afgreiði þessi flóknu mál á örfáum dögum án þess að hafa nokkur viðhlítandi tækifæri til að skoða þau. Þetta er gott að áliti hv. þm. í minni hl. allshn. Svona skal það vera. Mér finnst þetta yfirgengileg lítilsvirðing á hinu háa Alþingi og skora á alþm. að taka rækilega í taumana og það snarlega.