11.11.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í B-deild Alþingistíðinda. (447)

347. mál, flugstöð á Keflavíkurflugvelli

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það er algerlega rangt eftir mér haft, að ég hafi lýst hér yfir andstöðu við byggingu flugstöðvar á Keflavíkurvelli. Ég veit ekki hvernig hv. þm. hefur farið að því að heyra það sem enginn annar hér í salnum heyrði mig segja. Ég hef ekki minnst einu einasta orði á það. En ég vildi bara ítreka það sem ég hef áður sagt um þetta mál, að þegar ákvörðun verður tekin um byggingu flugstöðvar á Keflavíkurvelli, þá verður auðvitað að taka tillit til þess, hvað við erum að gera annað í samgöngumálum og hvað við erum að gera annað í orkumálum og á öðrum þeim sviðum þar sem þörf er á erlendu lánsfé. Og ég neita því ekki, að ég tel auðvitað að það verði að taka ákvörðun um byggingu flugstöðvar þegar komið er að henni í þeirri röð framkvæmda sem við verðum að setja upp á hverjum tíma. Er það brýnasta fjárfestingarmálið hjá þjóðinni í dag að eyða 15–20 milljörðum í að byggja nýja flugstöð, eða eru önnur mál brýnni, t.d. uppbygging vega í landinu, lagning varanlegs slitlags, sem við erum eiginlega allir sammála um að þyrfti að vera í miklu ríkari mæli hér á landi en verið hefur nú um skeið? Við þyrftum kannske að auka þær framkvæmdir um eina 10 milljarða á ári ef vel ætti að vera. Ellegar öryggistæki og aðbúnaður á flugvöllum víðs vegar um land sem er í hinu versta standi? Á þeim sviðum er þörf á mikilli fjárfestingu. Flugstöðvarmál hér í Reykjavík eru ekki í sérlega góðu standi, það vitum við líka. Auðvitað verðum við að taka ákvörðun um byggingu flugstöðvar í ljósi þess, hvað við höfum ráð á að taka mikið fé að láni erlendis frá og hvað annað telst vera mikilvægt. Sem sagt, röðin kemur að flugstöðvarbyggingu þegar Alþingi og ríkisstj. telja að lengur megi ekki draga að verja í þá byggingu verulega stórum fjárhæðum.

Ég hef síður en svo lýst því yfir, að allt sé í besta lagi með flugstöðina á Keflavíkurvelli eða það fyrirkomulag sem þar er. Ég held að ég geti verið innilega sammála mörgum hv. þm. um það, m.a. fyrirspyrjanda, að æskilegt væri að gera þar ýmsar breytingar. En ég vil fá ráðrúm og svigrúm til þess að meta þörfina á þessari fjárfestingu í samanburði við þörfina á fjárfestingu á öðrum sviðum. Og ég vil ekki að erlend lán séu tekin úr hófi fram á hverju ári. En það gegnir víst öðru máli um hv. fyrirspyrjanda, sem virðist vera alveg sama hvort erlendar lántökur fara úr hófi fram eða ekki.