15.05.1981
Sameinað þing: 83. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4432 í B-deild Alþingistíðinda. (4470)

280. mál, stóriðjumál

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Örfá orð í tilefni þessarar þáltill. Það voru kannske sérstaklega orð hv. 6. þm. Reykv. um að undrunar og vaxandi áhyggju gætti hjá honum og ýmsum öðrum þm. vegna aðgerðaleysis iðnrh. og ríkisstj. í þessum málum sem valda því að mig langar að segja örfá orð, ef ég gæti eitthvað létt af þeim áhyggjum sem svo þungt hvíla á honum.

Ríkisstj. skipaði á sínum tíma orkustefnunefnd. Skipunarbréf hennar er fskj. með því frv. sem nú liggur fyrir þingi um raforkuver. Þar sjá menn greinilega hvert starfssvið hennar er. Þessi orkustefnunefnd átti og á að marka stefnu ríkisstj. í orkumálum, vinna að þeirri stefnumörkun og undirbúa hana. Þess vegna var ekki talið eðlilegt að í henni ættu sæti fulltrúar stjórnarandstöðu. Eitt af meginverkefnum orkustefnunefndar er einmitt að fjalla um orkunýtingu. Núna er orkustefnunefnd sérstaklega að vinna að því að fara yfir álit fjölmargra starfshópa sem unnið hafa að athugun á afmörkuðum verkefnum einmitt varðandi orkufrekan iðnað. Ég vísa því á bug, að ekkert hafi í þeim málum verið unnið sérstaklega, vegna þess að ég tel að iðnrh. eigi heiður skilinn fyrir hvernig hann hefur að þessum málum staðið. Þarna er verið að vinna að og fyrir liggja skýrslur um þætti eins og magnesíumvinnslu á Íslandi, natríumklóratvinnslu, kísilmálm og kísiljárn, pappírsverksmiðju, olíuhreinsun o. s. frv. Mér dettur ekki í hug að segja að þessar skýrslur séu endanleg gögn eða gallalausar, langt frá því. Hins vegar eru þær tilraun til að draga saman upplýsingar og þekkingu um þá þætti sem þarna er um að ræða — þá þætti sem álitlegastir kunna að vera fyrir Íslendinga að fara inn á í orkufrekum iðnaði.

Ég vil sérstaklega leggja áherslu á að það er mjög mikilvægt áður en Íslendingar ganga til samvinnu við útlendinga eða samstarfs um markaðsmál eða tæknileg mál á þessu sviði að þeir hafi sjálfir myndað sér eins sterkan grunn og fært er í þessum málum til þess einmitt að verða samningahæfir. Ég er ekki sérstaklega ánægður með þá samninga sem Íslendingar hafa gert hingað til. Ég ætla ekki að gera þá að umræðuefni, en ef ég man rétt greiða Íslendingar t. a. m. Elkem líklega 3% af framleiðsluverði kísiljárnsins hreinlega fyrir þá þekkingu sem þeir leggja til málsins. Eftir á veit ég ekki hversu mikils menn vilja meta þá þekkingu, en ég er alveg viss um að ef til kísilmálmverksmiðju kæmi hér nú, eftirþá athugun sem þegar hefur verið unnin og er verið að vinna í því máli, mundu menn meta þá þætti á annan veg, þakkað veri því starfi sem þegar hefur verið unnið.

Menn tala mikið um markaðsöflun og markaðsmál og nauðsyn þess að ræða þau við útlendinga. Þetta má vel vera rétt. En hingað til hafa markaðsmál orkufreks iðnaðar á Íslandi aðallega snúist um það annaðhvort að fá útlendinga til að byggja hér verksmiðju, reka hana og sjá um markaðsmálin eða að vera hér meðeigendur í orkufrekum iðnaði og sjá algerlega um markaðsmálin. Nú ríður einmitt á því, að Íslendingar kynni sér markaðsmálin sjálfir eins vel og unnt er og kanni að hve miklu leyti þeir geti tekið þau í sínar hendur. Ég held að menn eigi ekki að vera of vantrúaðir á sjálfa sig í því sambandi.

Hv. 6. þm. Reykv., Birgir Ísl. Gunnarsson, flutti hér mikla ræðu og fróðlega varnarræðu um álverið. Ég held að við bætum okkur ekkert á því að vera að deila um liðna tíð í því sambandi. Ég er honum alveg sammála um það sem hann sagði, að við þurfum að endurskoða þann samning og reyna að fá orkuverðið hækkað. Ég held að við gætum staðið saman að því að fá einhverja lagfæringu á þessu.

En meginástæða þess, að ég kem hér upp, er að mig langar sérstaklega að geta þess, að þm. hafa fengið í hendur skýrslu um kísilmálm sem unnin hefur verið á vegum iðnrh. Í framhaldi af þeirri skýrslu er annar starfshópur nú að vinna. Orkustefnunefnd hefur starfað með þeim starfshóp og hyggst vinna að því máli nánar í sumar. Það virðist vera að miklir möguleikar séu fyrir Íslendinga að reisa kísilmálmverksmiðju hér á landi. Staðarvalsnefnd hefur líka fjallað um málið og komist að þeirri niðurstöðu að slík verksmiðja gæti mjög vel og heppilega risið t. a. m. við Reyðarfjörð. Það, sem menn tala um í þessu sambandi, er 30 þús. tonna kísilmálmverksmiðja sem mundi nýta einhvers staðar í kringum 450 gwst. á ári eða 50–60 mw.

Þessi athugun er komin þó nokkuð langt. Hún er glettilega vel á vegi stödd. Þegar hafa verið gerðar jarðvegsrannsóknir á hugsanlegu stæði verksmiðjunnar á milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar í landi jarðarinnar Sómastaðagerðis. Ég hygg að þeir Íslendingar, sem mest hafa unnið við kísiljárnverksmiðjuna, séu þeirrar skoðunar að Íslendingar geti sjálfir mjög vel staðið að tæknilegri uppbyggingu kísilmálmverksmiðju. Með því að nýta þá þekkingu, sem verkfræðingar okkar við kísiljárnverksmiðjuna hafa, og ef við fengjum þjálfað starfslið, ofnmenn frá kísiljárnverksmiðjunni, gætum við tæknilega vel reist og rekið kísilmálmverksmiðju.

Áætlanir um kostnað slíkrar verksmiðju benda til að hún mundi ekki kosta nema um 480 millj. nýkr., og að mínu mati er það ekki ofætlun fyrir Íslendinga að ráða við slíka verksmiðju sjálfir. Það hefur fæðst í mínum huga, án þess að ég hafi rætt það við neinn, að engan veginn væri óeðlilegt að t. a. m. íslenska samvinnuhreyfingin væri verulegur aðili að því að byggja slíka verksmiðju hér á Íslandi. Slík verksmiðja mundi taka um 120 manns í vinnu. Sannleikurinn er sá, að þeir, sem mest hafa fylgst með markaði fyrir kísilmálm, spá því að aukning á notkun kísilmálms mundi geta verið um 9% á ári á næstu árum.

Fréttir hafa þegar borist utan úr heimi um að Íslendingar séu að kanna möguleika á byggingu kísilmálmverksmiðju, og það hefur orðið til þess, að jafnvel í erlendum málmtímaritum er þess getið. Ég vil sérstaklega leggja áherslu á að í mínum huga er þetta mjög mikilvægt. Þetta hefur aftur orðið til þess að erlendir aðilar hafa spurst fyrir um möguleikana á því að fá keyptan hér á Íslandi kísilmálm.

Þær athuganir, sem gerðar hafa verið á kísilmálmverksmiðju, benda til að íslensk kísilmálmverksmiðja, hugsanlega og væntanlega staðsett við Reyðarfjörð, gæti tekið til starfa árið 1985 ef af fullum krafti væri staðið að þeim undirbúningi. Staðsetningin er mikilvæg vegna þess að afgangsvarmi mundi nýtast til upphitunar á bæði Reyðarfirði og Eskifirði, en áætlað er að afgangsvarmi frá verksmiðju af þessari stærð mundi geta hitað upp 5–10 þús. manna byggð. Þarna hafa farið fram athuganir á hafnaraðstöðu, athuganir á jarðvegsundirstöðum, athuganir á fáanlegu fyllingarefni, steypuefni, vatnsöflun o. s. frv. Miðað við þær vatnaveitur, sem ákveðið er að ráðast í á Þjórsársvæðinu, er ljóst að 450–500 gwst. gætu vel verið aflögu til byggingar orkufreks iðnaðar einmitt á þessum tíma.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að íslensk stjórnvöld kynni það opinberlega og í heyranda hljóði fyrir framan þær þjóðir, sem mest hugsa um þessi mál, að hér sé verið að skoða þann möguleika að byggja kísilmálmverksmiðju, að hugsanleg kísilmálmverksmiðja á Íslandi gæti risið árið 1985, vegna þess að nú eru þegar margir að hugsa um hvort þeir eigi að ráðast í slíka verksmiðjubyggingu. Yfirlýsing frá Íslendingum í þessa átt mundi hafa mikil áhrif og væntanlega bægja mörgum öðrum frá vegna þess að menn vita af hinum miklu orkulindum Íslendinga. Því er mikilvægt að Íslendingar kynni það sem fyrst að þeir séu að vinna að þessari athugun og að þessum ráðagerðum. Eins og fram kemur í frv. um byggingu raforkuvera, sem liggur fyrir þinginu, er mjög líklegt að Íslendingar gætu haft um 2900 gwst. á ári aflögu til uppbyggingar orkufreks iðnaðar innan 12 ára. Hér er því um aldeilis feiknalega möguleika að ræða.

Aðeins þessi orð til að létta áhyggjum af hv. 6. þm. Reykv., segja honum af því, að að þessu er mikið unnið. Það er engan veginn rétt að halda því fram, að stjórnarandstaðan fái ekki að fylgjast með þessum málum. Hún fær skýrslur í hendur jafnóðum og þær hafa verið unnar og á von á fleiri gögnum um þessi mál. Ég er þeirrar skoðunar, að það hljóti að koma til athugunar með haustinu og þegar lengra líður að kynna þessi mál og þessa vinnu fyrir stjórnarandstöðunni miklu ítarlegar, t. a. m. í iðnaðarnefndum þingsins.