15.05.1981
Sameinað þing: 83. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4435 í B-deild Alþingistíðinda. (4476)

137. mál, kennsla í útvegsfræðum

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft til umfjöllunar till. til þál. um kennslu í útvegsfræðum við Háskóla Íslands. N. hafði sent till. til umsagnar og fengið umsagnir frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands. Báðir þessir aðilar gefa jákvæðar umsagnir. Í umsögn Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins er því m. a. lýst, að í smáum stíl sé komin á kennsla í útvegsfræðum við Háskóla Íslands og með hverjum hætti væri hægt að auka þar við. Er tekið undir þessa till. af Rannsóknastofnuninni. Farmanna- og fiskimannasamband Íslands gefur till. einnig mjög jákvæða umsögn og styður fram komna till. um aukna menntun í útvegsfræðum. Allshn. taldi þó rétt að víkja aðeins við orðalagi í tillgr. og er sú breyting á þskj. 684. Þar er, eins og þar segir, lagt til að greinin orðist svo:

„Alþingi ályktar að fela menntmrh. að skipa nefnd, sem undirbúi og skipuleggi kennslu í útvegsfræðum við Háskóla Íslands.“

Þetta var fyrst og fremst vegna þess að það virtist hafa fallið niður í upphaflegri gerð till. að ákveða hver ætti að skipa nefnd til að fjalla um þessi mál.

Nefndin varð sammála um það öll að mæla með því, að tillagan yrði samþykkt í þessu formi. Guðmundur G. Þórarinsson var fjarverandi þegar nefndin afgreiddi málið.