15.05.1981
Sameinað þing: 83. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4437 í B-deild Alþingistíðinda. (4484)

108. mál, samkeppnisstaða íslendinga

Frsm. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Þessi till., sem hér er til umr., flutt af hv. þm. Guðmundi Karlssyni, fjallar um að það fari fram ítarleg athugun á samkeppnisaðstöðu Íslendinga. Í grg. till. er aðeins tæpt á höfuðatriðum málsins, en hún er ákaflega stutt og þetta mál þyrfti auðvitað miklu frekari útskýringa við en þar koma fram. Hv. flm. gerði þó allítarlega grein fyrir máli sínu þegar till. var til umr.

Nefndin leitaði umsagna um þetta mál og voru þær yfirleitt jákvæðar. Það kom fram í einni umsögninni að þegar lægju fyrir allmiklar upplýsingar um samkeppnisaðstöðu á fiskmörkuðum og ýmislegt um hvernig staðið er að þeim efnum í ýmsum samkeppnislöndum okkar. Upplýsingar af því tagi liggja nú jafnaðarlega fyrir í fagtímaritum, breskum m. a., aðgengilegar upplýsingar, og var okkur bent á slíkar upplýsingar í umsögnum um málið.

Í einni þeirra umsagna, sem bárust nefndinni varðandi þessa till., var þess getið, að æskilegt væri að láta fara fram ekki síður ítarlega athugun á samkeppnisaðstöðu Íslendinga varðandi iðnaðarvörur, bæði varðandi útflutning íslenskra iðnaðarvara og samkeppnisaðstöðu útlendinga hér. Ég vil koma þessu á framfæri um leið og þetta mál kemur til þessarar umr. þó að hvergi sé minnst á það sem við köllum í daglegu tali iðnað í þessari till., en auðvitað er fiskvinnslan og framleiðsla á sjávarafurðum iðnaður, fiskiðnaður, og það væri óeðlilegt ef lagt væri í slíka athugun á vegum ríkisins að nefndarinnar dómi ef ekki yrði gert svipað varðandi íslenska iðnaðarframleiðslu.

Við tókum ekki þann kostinn að breyta þessari till. þannig að við létum iðnaðinn fljóta þarna með, heldur var það mál nm. að miklu betur færi á því að það yrði ekki gert samhliða þessu, heldur með annarri sjálfstæðri athugun, því að málin eru þar, eins og við vitum, að allmiklu leyti öðruvísi.

Það fer auðvitað ekki milli mála, að útflutningsvörur okkar í sjávarútvegi hafa mætt mjög harðnandi samkeppni á erlendum mörkuðum og sú samkeppni er með ýmsum hætti. Bæði höfum við orðið fyrir mikilli samkeppni frá Kanadamönnum, t. d. á Bandaríkjamarkaði, og svo höfum við afar sterkan samkeppnisaðila þar sem eru Norðmenn, sem kallaðir ern frændur okkar og vinir, en enginn er annars bróðir í leik í þessum efnum. Þeir hafa keppt við okkur á erlendum mörkuðum býsna óvægið og hafa skapað sér sína samkeppnisaðstöðu með óvægilegum aðferðum og með þeim hætti sem ekki samræmist vel samþjóð okkar í viðskiptabandalagi. Við, sem erum farnir að hugsa stórt í þessum efnum sem samkomulagsaðilar við stærstu fríverslunarbandalög heimsins, lítum þetta mjög alvarlegum augum. Norðmenn styrkja sinn sjávarútveg, eins og við vitum, með opinberum framlögum, mjög miklum fjárframlögum af opinberri hálfu. Þeir hafa efni á því. Þeir standa ekki í þessum efnum eins og við. Sjávarútvegur er nánast orðinn aukagrein í Noregi meðan hún er eini undirstöðuatvinnuvegurinn í þessu landi.

Í þessari tillögu er lagt til að þessi mál verði athuguð gaumgæfilega. Við þekkjum auðvitað mjög margt í þessari grein þegar og höfum fylgst með, en höfum lítið að gert, en með því að svona skipulögð ítarleg athugun fari fram skeður það í minnsta lagi að öllum upplýsingum varðandi þessi mál verði safnað saman á einn stað og þá auðveldara að gera sér grein fyrir vandanum, og ef við gerum ráð fyrir eðlilegum vinnubrögðum á rökrænum grundvelli af hálfu þessarar ríkisstj. væri henni vafalaust hagur í því að hafa allar upplýsingar tiltækar.

Herra forseti. Atvmn. Sþ. leggur einhuga til að þessi þáltill. verði samþykkt.