15.05.1981
Sameinað þing: 83. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4438 í B-deild Alþingistíðinda. (4485)

108. mál, samkeppnisstaða íslendinga

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að mæla á móti því, að þáltill. á þskj. 120 verði samþykkt. En ég vil undirstrika að harðasta samkeppnin í útflutningi á okkar afurðum kemur innan frá. Hún er ekki við útlendinga, hún er við einstaklinga innanlands sem hafa sambönd og geta skapað markaði, en vegna einokunaraðstöðu samtaka hér innanlands er frjálsum einstaklingum gert ókleift, hreint og beint ókleift, að afla nýrra markaða.

Ég vil gera þá fsp. til frsm. þeirrar hv. n. sem nú leggur þetta mál fyrir deildina, hvort það geti verið rétt, sem flýgur á milli manna, að íslenskar sjávarafurðir hafi verið seldar á tiltölulega lágu verði til Noregs til að Norðmenn gætu fyllt upp í sölukvóta sinn á markaði þar sem þeir eru í samkeppni við Íslendinga og undirbjóða íslenska markaðinn. Ef svo er held ég að það sé ljóst að vandamál okkar og samkeppnin kemur innan frá, en ekki utan frá.