11.11.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í B-deild Alþingistíðinda. (449)

347. mál, flugstöð á Keflavíkurflugvelli

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Við skulum hafa hreinskilni til að segja það hreint út, um hvað þessi ágreiningur snýst. Áhugamenn um byggingu flugstöðvar hér eru það fyrst og fremst vegna þess, að þeir vilja að Bandaríkin borgi hana að hluta. Það eru þessir talsmenn aronskunnar með hv. þm. Geir Hallgrímsson í broddi fylkingar sem hér í þingsölum hafa sett fram þá kröfu, að Bandaríkjamenn borgi millilandamannvirki fyrir Íslendinga sjálfa. Þetta er höfuðkjarninn í ágreiningnum. Ágreiningurinn snýst ekki um það, hvort á að byggja flugstöð eða ekki. Hann getur að einhverju leyti snúist um það, hvenær eigi að byggja hana, hvað hún eigi að vera stór og jafnvel hvar hún eigi að vera. Ágreiningurinn snýst um það, að hv. þm. Geir Hallgrímsson og stuðningsmenn hans í Sjálfstfl. og Alþfl. reka núna á eftir þessari flugstöðvarbyggingu vegna þess að það liggur fyrir að Bandaríkjaþing er reiðubúið að borga. Það er um þetta sem ágreiningurinn snýst. Við hinir, sem höfum andmælt þessari sókn aronskunnar inn í þingsali hér á Íslandi, höfum sagt: Þessi þjóð er ekki sjálfstæð þjóð ef hún hefur ekki efni á að byggja eigin flugstöð. En hv. þm. Geir Hallgrímsson og aðrir hafa sagt: Við viljum ganga með betlistaf til Bandaríkjastórnar og þiggja af henni fé til þess að byggja þetta mikilvæga mannvirki. Við hinir viljum vera sjálfstæðir menn í sjálfstæðu landi, en ekki betlarar gagnvart stórveldi.