15.05.1981
Sameinað þing: 83. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4440 í B-deild Alþingistíðinda. (4491)

154. mál, vararaforka

Frsm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Á þskj. 746 hefur atvmn. gefið frá sér nál. um þáltill. um vararaforku sem fyrr í vetur var flutt af þeim hv. alþm. Davíð Aðalsteinssyni, Guðmundi Bjarnasyni og Stefáni Guðmundssyni. Till. er afar stutt. Hún er á þessa leið, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um að gerð verði áætlun um magn og nýtingu vararaforku í landinu í neyðartilvikum vegna orkuskorts.“

Þessi till. var rædd ítarlega í nefndinni. Hún var send til umsagnar Orkustofnunar, Orkubús Vestfjarða, Rafmagnsveitna ríkisins og Landsvirkjunar, en það voru Rafmagnsveitur ríkisins og Landsvirkjun sem sendu nefndinni umsagnir og voru þær báðar jákvæðar. Nefndin er því sammála um afgreiðslu málsins og leggur til að ályktunartill. verði samþykkt, en þó hefur hv. þm. Garðar Sigurðsson fyrirvara.

Sérstaklega telur nefndin að í áætluninni eigi að gera ráð fyrir nýtingu skipa- og dísilrafstöðva, sem til eru í eigu landsmanna í þessu skyni. Í því sambandi ber að leggja áherslu á textabrot úr grg. þáltill. um þetta efni, en þar segir svo, með leyfi forseta:

„Þegar talað er um vararaforku er átt við orku sem hægt er að grípa til í neyðartilfellum. Hér verður ekki reynt að meta, hversu mikil vararaforka þarf að vera fyrir hendi, svo að lágmarksöryggis sé gætt, enda gerir till. ráð fyrir slíku mati. Fyrir eru í landinu allnokkrar olíurafstöðvar, sem ekki eru notaðar tengur eða munu verða lagðar af til daglegrar notkunar. Í fljótu bragði virðist sjálfsagt að halda þessum stöðvum við, halda þeim í því horfi, að þær verði tilbúnar til gangsetningar ef á þarf að halda.

Í því skyni að nýta til hins ítrasta alla vararaforku, sem fyrir er í landinu, verður ekki lítið fram hjá þeim möguleikum sem felast í nýtingu skipastólsins í því sambandi. Tekið skal fram, að raforkuframleiðsla er mjög mismunandi eftir skipum og nýrri skipin eru með 380 volta kerfi. Heildarorkuframleiðsla allra togara og vöruflutningaskipa samanlagt er um 60-70 mw. Eitt skip er þó rétt að nefna sérstaklega, en það er rannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson, sem getur framleitt um 1400 kw. Mörg áðurnefndra skipa eru með sérstakan landtengibúnað til þess að nýta raforku úr landi.“

Lengra les ég ekki úr grg. þáltill., en það var á þessu atriði sem nefndin vildi sérstaklega að lögð yrði áhersla í fyrirhugaðri áætlun um magn og nýtingu vararaforku í landinu.

Það skal tekið fram, að í umsögnunum kom fram að gerð hefur verið athugun á raforkunotkun frá skipum í Þorlákshöfn og tengingu þeirra við kerfi Rafmagnsveitna ríkisins. Nefndin telur því, eins og ég sagði áður, eðlilegt, að þetta mál fái afgreiðslu þingsins, og mælir með samþykkt ályktunartillögunnar.