11.11.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í B-deild Alþingistíðinda. (451)

347. mál, flugstöð á Keflavíkurflugvelli

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Aronskan er nú komin hér á dagskrá og með mjög sérkennilegum hætti. Það veit hver einasti landsmaður, að formaður Sjálfstfl., Geir Hallgrímsson, skar upp herör gegn þeim hugsunarhætti þegar hann kom fram. Hann hefur orðið fyrir ádeilum og árásum úr öllum flokkum fyrir það að kveða þann draug niður meir og betur en nokkur maður annar.

Því miður eru menn í öllum íslenskum stjórnmálaflokkum sem aðhyllast aronskuna, en Geir Hallgrímsson hefur aldrei verið talinn í þeirra hópi. Það veit hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson mætavel og kemur þess vegna upp með hrein ósannindi.

Hann talaði um að það ætti að ríkja hreinskilni í þessum umr. hér og umr. yfirleitt. Ég er sammála honum um það. Þess vegna leyfi ég mér nú að spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann ætli að liggja undir því, að formaður þingflokks kommúnista komi hér upp í ræðupúlt og segi hann fara með ósatt mál. Þegar hæstv. utanrrh. segir réttilega að það sé ákvörðunarvald utanrrh., hvort olíugeymarnir verði byggðir, þá kemur formaður þingflokks kommúnistaflokksins upp og segir hann fara með rangt mál, það verði engin samþykkt gerð og engin ákvörðun tekin nema ríkisstj. taki hana og jafnvel Alþingi. (ÓRG: Hv. þm., ég vék ekki að þessu einu orði.) Fylgstu með. — Sem sagt, ákvörðunarvaldið er í höndum utanrrh. En formaður — varaformaður Alþb., ég biðst afsökunar(Gripið frsm í: Það er líka rangt.) Það var hann sem þetta sagði, hann kom strax upp. (ÓRG: Það var fjmrh.) Hæstv, fjmrh. þá. Jú, það er alltaf verið að hafa hlutverkaskipti, maður veit ekki hvorum megin hryggjar þeir eru hverju sinni. Hann kom þá upp og bar upp á — (Forseti hringir.) — ég fæ örlitla stund vegna þess að það eru stöðug framígrip — og bar það upp á utanrrh. að hann færi með atrangt mal. Ég skora á hæstv. utanrrh. að segja það hér og aftur skýrt og greinilega, svo að þjóðin fái að vita, að ákvörðunarvaldið sé hans, en ekki Alþb.

Ekki vegna þess að mér sé ekki sama hvort hann persónulega láti niðurlægja sig með þessum hætti, það er hans mál — en það er mál yfirgnæfandi meiri hluta þjóðarinnar að fá að vita það, að utanríkis- og varnarmál séu í traustum höndum og þau verði ekki látin úr höndum manns sem láti ekki hrekja sig undan. Ég treysti hæstv. utanrrh. í þessu efni, en þjóðin á heimtingu á að fá skýr svör hans þegar hinu gagnstæða er haldið fram hér á hinu háa Alþingi.