15.05.1981
Sameinað þing: 83. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4480 í B-deild Alþingistíðinda. (4510)

388. mál, utanríkismál 1981

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég þakka þeim, sem tekið hafa þátt í þessum umr. Tómlæti gagnvart utanríkismálum er ákaflega neikvætt að mínum dómi. Ég er hjartanlega sammála hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni um að þessi umr. er heldur seint á ferðinni og fer fram á óheppilegum tíma, en þar er ekki við mig að sakast, ég lagði þessa skýrslu fram um mánaðamótin mars-apríl.

Ég get verið algerlega sammála hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni um að utanríkismál eru annað og meira en málefni Keflavíkurflugvallar, sem ég geri þó á engan hátt lítið úr. Við Íslendingar þurfum vissulega að fara að venja okkur af þeim eyjarskeggjahugsunarhætti, sem við höfum verið allt of mikið haldnir, að eiginlega kæmi okkur ekkert við sem væri utan við landsteinana, enda er það svo, að við tökum þátt í fjölmörgu alþjóðlegu samstarfi, sendum fulltrúa á margs konar ráðstefnur. Það knýr á um að við tökum afstöðu í þeim málum, sem þar er fjallað um, og að við kunnum skil á þeim.

Hins vegar er ég honum ekki sammála um það sem var í framhaldi ræðunnar, en auðvitað er þess enginn kostur að fara hér að ræða um það. En ég vil aðeins segja það, að á flest þau atriði, sem hann minntist þar á, má vissulega líta frá öðru sjónarhorni en hann gerði og hægt að fá skýringar á ýmsum þeim atriðum, sem hann nefndi, og upplýsingar um þau efni. En það væri efni í langan lestur — og er sjálfsagt rétt að geyma umr. um það þangað til skýrsla öryggismálanefndar kemur út, sem vonandi verður innan tíðar.

Það má segja að það þjóni litlum tilgangi að vera að lengja þessar umr., eins og tíma er nú háttað, en til mín hefur verið beint örfáum spurningum og þeim vildi ég gjarnan reyna að svara.

Í fyrsta lagi beindu bæði hv. þm. Geir Hallgrímsson og hv. þm. Eiður Guðnason þeirri spurningu til mín, hvort það hefði ekki verið fjallað um aðild Íslands að Alþjóðaorkustofnuninni í ríkisstj. Svarið er: Málið er þar til umfjöllunar. Viðskrh. hefur tekið það mál upp þar og hefur gert það að till. sinni, að Ísland gerðist aðili að Alþjóðaorkustofnuninni. Ég vil í því sambandi segja að það er áreiðanlega umhugsunarvert öryggisatriði hve olíubirgðir eru litlar í landinu, og þá á ég auðvitað ekki við olíubirgðir varnarliðsins, heldur olíubirgðir þær sem Íslendingar eiga eða eru hjá olíufélögunum.

Það var athyglisvert, sem kom fram í ræðu hv. þm. Benedikts Gröndals, að Aðalverktakar ættu að verja nokkru af sínum varasjóði í það að kaupa húsnæði suður á Keflavíkurvelli eða þar í grennd. Ég held að mér sé óhætt að segja að Aðalverktakar hafa haft í huga nú um skeið að reisa byggingu suður í Keflavík eða einhvers staðar þar í grennd, og tel ég það vel farið þar sem þeir hafa byggt allmiklar byggingar í Reykjavík.

Eins og vænta mátti var sú ræða, sem hæstv. félmrh., Svavar Gestsson, flutti dálítið í öðrum dúr en ræður annarra og þarf það ekki að koma neinum á óvart. Fyrri hluti ræðunnar var sögulegur róman sem er utan og ofan við skýrslu þá um utanríkismál sem hér liggur fyrir, og ég ætla alveg að leiða það hjá mér. En ég hlýt að mótmæla því, að það hafi orðið eðlisbreyting á varnarstöðinni. Það liggur í augum uppi að búnaður slíkrar stöðvar hlýtur að taka ýmsum breytingum og það eru örar framfarir á þessu sviði ekki síður en öðrum. Það væri auðvitað lítið gagn að því að hafa varnarstöð hér ef ekki væri fylgst þar með að því leyti að þó væri sæmilegur búnaður þar fyrir hendi. Það þýðir lítið að hafa þar búnað sem væri algerlega orðinn úreltur, hefði kannske verið í samræmi við kröfur tímans fyrir 30 árum. Að því leyti til hljóta alltaf að verða nokkrar breytingar á varnarstöðinni. En eðlið er það sama og það hefur alltaf verið: að gegna eftirlitsog varnarhlutverki. Þannig er það um allt herlið og allt sem lýtur að vörnum á öllum Norðurlöndum. Það er allt gert í varnarskyni. Það er um varnarviðleitni að ræða. Það vita auðvitað Sovétríkin. Það veit Varsjárbandalagið og því dettur ekki annað í hug. Því dettur ekki í hug að þær stöðvar, sem eru í þessum löndum, hvort sem það eru erlendar herstöðvar eða NATO-æfingastöðvar má kannske kalla það, verði notaðar til árásar.

Hæstv. félmrh. lét í ljós að það vantaði sitthvað í þessa skýrslu um utanríkismál. Það má auðvitað til sanns vegar færa. Hún verður seint svo úr garði gerð að ekki megi finna eitthvað sem þar mætti vera. Það yrði að vera heil bók ef gera ætti tæmandi skýrslu um alþjóðamál og utanríkismálin. En ég vil í því sambandi minna á að einn þáttur skýrslunnar er skýrsla um störf á þingi Sameinuðu þjóðanna sem menn verða líka að lesa. Það er líka kannske heldur fljótt yfir sögu farið í þessari skýrslu að því er t. d. varðar Evrópuráðið, en úr því hefur verið bætt sérstaklega með þeirri ágætu skýrslu sem er á þskj. 672, ef ég man rétt, og fulltrúar á þingi Evrópuráðsins hafa lagt fram. Þar er ítarlega sagt frá starfsemi Evrópuráðsins, m. a, vikið að því viðkvæma spursmáli sem er þátttaka Tyrklands í ráðinu. Að þessum atriðum vék hv. þm. Þorvaldur Garðar Kristjánsson ítarlega í sinni ræðu þegar þetta var síðast til umr. og vék einmitt að þessu viðkvæma máli, sem var spurningin um hvort Tyrkir ættu að eiga þarna aðild. Þetta leystist í vetur þannig, að fjórir fulltrúar mættu, þeir höfðu kjörbréf, sem áður höfðu verið samþykkt, og þeir voru látnir sitja, en hins vegar var tekið fram að þetta yrði að taka til meðferðar á þeim fundi sem er nýlega lokið. Þar varð niðurstaðan sú, að Tyrkjunum var vísað á bug. Auðvitað er þetta viðkvæmt mál. Menn geta sagt sem svo: Hvað kemur okkur Íslendingum þetta við? En þetta er einmitt dæmigert um það sem við þurfum og verðum að láta okkur varða og taka afstöðu til og er utanríkismál.

Eins og ég sagði má til sanns vegar færa að sitthvað vanti í þessa skýrslu. Hæstv. félmrh. benti sérstaklega á að ekki væri greinargerð um varnarstöðina á Keflavíkurvelli, það væri ekki greinargerð um starfsemi Aðalverktaka — hv. þm. Eiður Guðnason vék að því sama — og ekki heldur greinargerð um framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli eða í varnarstöðinni. Um þetta verð ég að segja, og er best að hafa þá formúlu á, að þetta verður tekið til athugunar framvegis, en ég vil þó benda á að það er aðeins vikið í skýrslunni að vellinum og því sem þar fer fram. Það er að finna á bls. 14 í skýrslunni. Þar er nokkuð tekið fram hvaða starfsemi fer fram á vegum íslenskra aðila þar, hvaða arður er o. s. frv. af þeirri starfsemi sem fer þar fram, tekið fram hve margir starfsmenn vinna á vellinum og hve margir af þeim vinna hjá varnarliðinu o. s. frv. Það er hins vegar ekki tekið þar fram um framkvæmdir. Það má vel hugsa sér að gerð sé grein fyrir því og það sé tekið upp í skýrslu framvegis. En ég vil í þessu sambandi geta þess, að ég hef skýrt bæði ríkisstj. og utanrmn. frá því, hvaða framkvæmdir eru samþykktar á þessu ári, og það hefur ekki verið deilt um það, nema þá um flugskýlin svokölluðu.

Hæstv. félmrh. vék að þeim fiskveiðisamningum, sem fyrir hendi eru við aðrar þjóðir, og lýsti yfir að það væri stefna Alþb. að aðeins væri um skammtímasamning að ræða sem ætti ekki að standa um alla eilífð. Ég hygg að allir geti tekið undir það. Samningurinn við Færeyinga, sem er langstærstur af þessum samningum, er gerður alltaf til eins árs í senn, og samningarnir við Belga og Norðmenn eru þannig úr garði gerðir að hægt er að segja þeim upp með sex mánaða fyrirvara. Samningurinn við Belga er auk þess þess eðlis, að hann gengur smám saman sér til húðar vegna þess að skipin eldast og týna tölunni. Ég hygg því að ekki sé neinn ágreining þarna að finna.

Þá var hæstv. félmrh. með spurningu varðandi EFTA og Efnahagsbandalag, sem reyndar heyrir fremur undir viðskrh. að svara en mig. Hún var um að það hafi verið gert mikið úr þeim tollaívilnunum sem við hefðum, en hitt væri fróðlegt að vita, hvaða tollalækkanir væri um að ræða gagnvart EFTA og EBE. Þetta á í raun og veru að liggja nokkuð ljóst fyrir þar sem það er í sjálfri tollskránni. Það eru tveir dálkar þar. Annars vegar eru tollar gagnvart EFTA og hins vegar gagnvart öðrum löndum. Þar má því sjá hver munur er á. Þetta er aðeins um iðnaðarvörur. Hugsunin á bak við EFTA-samninginn er að þar sé gagnkvæmni, en það er auðvitað engin gagnkvæmni gagnvart okkur ef þetta á einungis að standa og gilda um iðnaðarvörurnar. Þess vegna hafa verið gerðir sérstakir samningar við Efnahagsbandalagið þar sem við njótum sérstakra fríðinda, tollaívilnana, lækkana á fiskafurðum. Um þetta get ég í raun og veru ekki gefið nánari skýringu en að þessar upplýsingar ætti að vera auðvelt að fá og sjá og reikna út af því sem í tollskránni stendur, hverjar tollalækkanir er þarna um að ræða.

Hæstv. félmrh. minntist á þróunaraðstoðina og drap á það, hafi ég ekki misskilið hann, að það væri ekki öll sagan sögð með því að gera aðeins grein fyrir hinni almennu þróunaraðstoð, heldur væri um að ræða framlög í þessu skyni til ýmissa stofnana. Þetta er alveg rétt. Það er birt skrá í skýrslunni um utanríkismál einmitt um þetta. Þar eru framlögin greind í a. Langtíma þróunaraðstoð, þar sem aðstoð Íslands við þróunarlöndin er m. a. undir, og er svo Önnur aðstoð, reglubundin framlög sem sum hver eru hálfgert veitt í neyðarskyni, eins og til Rauða kross eða í einhverjum flóttamannatilfellum. Þetta er allt lagt saman í þessari skýrslu á bls. 24. Sú prósentheildartala, sem vitnað er í og talað er um í skýrslunni, er allt það samanlagt sem Ísland hefur lagt til með þessum hætti. Þar í er t. d. það sem hann minntist, held ég, aðeins á, framlagið til Hinnar alþjóðlegu framfarastofnunar, IDA. Það er alveg rétt, að Ísland leggur þar til talsvert mikinn hlut og það er talsverður hlutur í þessu framlagi sem Ísland innir af hendi. En þess er að geta, að þar var stofnframlagið mjög aukið á þessu ári samkv. sérstökum tilmælum frá viðskrn. og Seðlabankanum sem hafa með þessa stofnun að gera, en ekki utanrrn., þó að framlagið sé svo sett á þess reikning.

Um þessa alþjóðlegu framfarastofnun, IDA, er það að segja, að það eru framlög sem ríkari þjóðir leggja af mörkum og veitt eru fátækari þjóðum. Það er kannske gleðileg staðreynd, að það þótti koma fram einmitt á síðasta ári að Ísland var hækkað í flokki, ef svo má segja, og þess vegna talið eðlilegt að það greiddi hærra stofnframlag en áður var. Um það skal ég ekki fara fleiri orðum.

Að sjálfsögðu voru, eins og eðlilegt er, mörg atriði annars í ræðu hæstv. félmrh. sem ég var ósammála. Það er ósköp eðlilegt varðandi varnar- og öryggismál þar sem við erum þar alveg á öndverðum meiði. En ég held þrátt fyrir það, að mér þyki dálítið vænt um þessa ræðu, og mér þykja koma þar fram mjög merkileg ummæli. Ég vil mega lesa hér upp, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir félmrh.:

„Ég vil þó aðeins í þessu sambandi undirstrika alveg sérstaklega að í núv. ríkisstj. er ástandið þannig, að einn stjórnarflokkurinn, þ. e. Alþb., er andvígur aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og er andvígur bandarísku hersetunni á Íslandi. Þetta skapar sérkennilegar aðstæður í ríkisstj. og innan hennar á að vera af þessum ástæðum samkomulag um að hér verði óbreytt ástand í herstöðinni.“

Þetta er mjög „diplómatískt“ orðalag, mjög hnitmiðað orðalag, mjög rétt orðalag, því að vitaskuld er það eðlilegt frá sjónarmiði þeirra, að þeir beri þá ósk í brjósti að ástandið verði að öllu óbreytt þarna, þ. e. að hvor aðill sem er hafi neitunarvald gagnvart framkvæmdum. En hæstv. félmrh. segir ekki: það er samkomulag innan ríkisstj. Hann segir, eins og ég las: „og innan hennar á að vera af þessum ástæðum samkomulag“. Þetta segir allt um þetta svonefnda neitunarvald sem segja þarf. Um það þarf ekki að hafa nein fleiri orð eða leiða frekar nein vitni í því sambandi.

Svo ætla ég, herra forseti, að láta máli mínu lokið að sinni og sjálfsagt þá um þessa skýrslu því að ég geri ráð fyrir að umr. um hana verði lokið þó að æskilegt hefði verið að fleiri hefðu verið viðstaddir og getað sinnt þessum umr.