15.05.1981
Efri deild: 102. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4486 í B-deild Alþingistíðinda. (4522)

262. mál, lagmetisiðnaður

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 853 brtt. við frv. til l. um lagmetisiðnað og Þróunarsjóð lagmetisiðnaðarins. Brtt. orðast svo:

„b-liður 2. gr. orðist svo:

annast sölu á niðursoðnum og niðurlögðum sjávarafurðum til landa þar sem ríkisstofnun, ríkið sjálft eða aðili fyrir þess hönd er aðalkaupandinn. Sölustofnun lagmetis hefur einkarétt til sölu og útflutnings á lagmeti til þeirra landa sem þetta ákvæði nær til.“

Hér er sem sagt verið að leitast við að óbreytt lög gildi að þessu leyti og gilt hafa að mati bæði prófessora við Háskólann og líka lögmanns Sölustofnunar lagmetis, að einkaréttur sé á sölu á lagmeti hjá Sölustofnun lagmetis á þessa tilteknu markaði.

Þetta mál hefur lítillega verið rætt í þessari hv. deild. Ég býst við að það hafi verið rætt í hv. iðnn. Ég hef, eins og hv. dm. er kunnugt, reynslu af starfi þessarar stofnunar og sölustarfi á þessum mörkuðum að þessu leyti og tel að það sé óyggjandi að íslenskum hagsmunum sé betur borgið með þessari lagagrein eins og hún hefur verið túlkuð af lögmanni stofnunarinnar og prófessorum við Háskólann, eins og lögin eru nú.

Ástæðan fyrir því, að ég tel eðlilegt að það sé einkaleyfi til sölu lagmetis á þessum mörkuðum, er einfaldlega sú, að þar sem ein ríkisstofnun ræður öllu varðandi innkaup er það ekki í þágu þeirra sem selja, að margir bjóði þar sömu vöruna, þar sem einn kaupandi er og ræður verðinu. Þetta finnst mér vera svo einfalt og auðskilið mál, að ég er satt að segja undrandi á því að menn skuli ekki vera einhuga um þetta. Það má auðvitað deila hvort slíkt á að binda í lög, ég skal fallast á það, en við höfum farið þessa leið í sölu okkar afurða á þessu mörkuðum. Við vitum að t. d. frystar afurðir eru undantekningarlaust seldar á þessum mörkuðum þannig að stærstu fyrirtæki okkar eða einu fyrirtækin, sem selja þá vöru, vinna mjög náið saman og kemur aldrei fyrir að þau bjóði sitt í hvoru lagi vörur á þessa markaði. Enn fremur er það svo í öðrum löndum að til þessa ráðs er gripið þar sem um algera einokun er að ræða á innkaupum.

Í Noregi ætla menn að fara að ganga það langt að lögskylda alla, sem flytja út lagmeti á alla markaði, að vera saman í einum samtökum. Ég tel að slíkt fyrirkomulag sé fráleitt og ég hef beitt mér fyrir því, á meðan ég var formaður stjórnar Sölustofnunar lagmetis, að það væru teknir upp miklu frjálslegri hættir í sölu á hina frjálsu markaði þar sem margir kaupendur eru. Stundum er það svo að stofnun sem þessi nær þá kannske ekki bestu viðskiptasamböndunum. En jafneinsýnt er að það sé íslenskum hagsmunum fyrir bestu, að það séu ein samtök sem bjóði á þá markaði þar sem ríki eða ríkisstofnun er eini kaupandinn.

Ég skal ekki, herra forseti, fjölyrða frekar um þetta. Ég vil aðeins skýra frá þeirri skoðun minni, að ég held í sambandi við þetta frv. að það sé visst öryggi í því fyrir stofnun sem Sölustofnun lagmetis að hafa lagagrunn. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé til stuðnings að ákveðin lög gildi um slíka starfsemi. Mér finnst það í rauninni það minnsta sem hið opinbera getur gert, ef framleiðendur í slíkum samtökum sem samtökum framleiðenda lagmetis óska eftir lagagrunni án þess að ríkið leggi fram fé, — þá sé það það minnsta, sem hið opinbera getur gert, að setja í samráði við þá ákveðna rammalöggjöf um slíka starfsemi. Slíkur er háttur um ýmsa aðra sölustarfsemi, t. d. starfsemi síldarútvegsnefndar.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að fjölyrða meira um þetta mál, en ég vænti þess, að þessari till. verði vel tekið.