11.11.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í B-deild Alþingistíðinda. (453)

347. mál, flugstöð á Keflavíkurflugvelli

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð vegna þess sem kom fram hjá hæstv. fjmrh. áðan. Ég tók skýrt fram að það væri óviðunandi fyrir Íslendinga að fara um varnarsvæði til þess að komast til og frá sínu landi. Það er óviðunandi aðstaða í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Þessi tvö atriði renna stoðum undir það, að smíði nýrrar flugstöðvar er nauðsyn, auk þess sem það er brýn nauðsyn að aðskilja almennt farþegaflug í heild og hernaðarumsvif á Keflavíkurflugvelli. Og ég hefði haldið, hæstv. fjmrh., að sú andúð, sem Alþb. hefur sýnt á varnarliðnu á Keflavíkurflugvelli, ætti að ýta undir að Alþb. styddi þá hugmynd, að hraðað yrði flugstöðvarbyggingu. Þess vegna skil ég ekki það tregðulögmál sem ríkir innan Alþb. gagnvart þessu máli.

Ég vil líka vekja á því sérstaka athygli, að hæstv. fjmrh. lýsti stuðningi við smíði flugstöðvarbyggingar á Keflavíkurflugvelli, og ég vil að því verði ekki gleymt.