11.11.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í B-deild Alþingistíðinda. (454)

347. mál, flugstöð á Keflavíkurflugvelli

Fyrirspyrjandi (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Vegna ummæla hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar vil ég segja það, að ég tel aldeilis fráleitt að hugsa sér staðsetningu nýs flugvallar hér í nágrenni Reykjavikur. Eðlilegt er að innanlandsflugið verði flutt til Keflavíkurflugvallar þegar þar að kemur, og það kostar ekki færri milljarða að byggja nýjan flugvöll en nýja flugstöð.

Mig langar til að vita hvort sú aths. er rétt hjá hæstv. utanrrh., að hæstv. fjmrh. hafi orðið mismæli áðan. Það væri mjög fróðlegt að fá að vita það vegna framgangs málsins.

Í öðru lagi tel ég rétt að það komi fram varðandi olíuhöfnina, að hjá Suðurnesjamönnum er þetta fyrst og fremst spurning um mengunarmál, spurning um það, hvort vatnsbólin mengast á Suðurnesjum eða ekki, hvort hægt verður að halda eðlilegri byggð þar inni í miðjum bænum eins og þarf að vera. Ég vil upplýsa það hér, að skipulagsnefnd Keflavíkur og Njarðvíkur hefur einmitt fjallað um þetta svæði, sem er mjög þýðingarmikið svæði, og hefur í hyggju að gera tillögu um að þar verði nýr miðbær Keflavíkur og Njarðvíkur, sameinaðs byggðarlags, og ef svo verður hefur náðst þýðingarmikill þáttur í sameiningu þeirra byggðarlaga. Að endingu spyr ég enn á ný: Eru þessi mál að mati fjmrh. í höndum utanrrh. eða Alþb., og þá á ég við bæði hvað varðar olíustöðina og flugstöðvarbygginguna?