11.11.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í B-deild Alþingistíðinda. (455)

347. mál, flugstöð á Keflavíkurflugvelli

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Þetta eru ákaflega einkennilegar umr. og ég verð að svara hér einkennilegri spurningu, sem sagt þeirri, hvort mér hafi orðið mismæli áðan. Auðvitað svara ég þeirri spurningu neitandi, mér urðu engin mismæli áðan. (EKJ: Lýgur þá utanrrh.?) En út af þeim vangaveltum, sem hér hafa farið fram um ákvörðunarvald utanrrh. hverju sinni, þá geta menn auðvitað verið með bollaleggingar af því lagi, og ekki ætla ég að hafa neitt á móti því, að menn stilli málum á þann veg, að hvert svið stjórnmála heyri undir ákveðinn ráðh. og ákveðið rn. En ég sagði bara hér áðan, og það stangast ekkert á við hitt, að ég hefði enga trú á því, að ákvörðun yrði tekin um þessi mál tvö án þess að það sé vilji ríkisstj. og Alþingis, og það stend ég við.

Ég vil ítreka það sem ég sagði hér áðan vegna fsp. frá hv. þm. Árna Gunnarssyni, að ég tel einsýnt að það hljóti að rísa ný flugstöð á Keflavíkurflugvelli fyrr eða síðar, og ég hélt ekki að ég væri að segja hv. þm. nein stórtíðindi með því að lýsa yfir stuðningi mínum við byggingu nýrrar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli fyrr eða síðar. En spurningin snýst auðvitað um það, hversu stór flugstöðin á að vera, og hverjir eiga að kosta hana, hvenær á að byggja hana og með hvaða hætti. Þar koma auðvitað upp mörg vafamál, og ég held að það sé alveg augljóst, að við verðum að fá gott svigrúm og gott tækifæri til þess að ræða þær hliðar málanna áður en ákvarðanir verða teknar.