15.05.1981
Neðri deild: 96. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4500 í B-deild Alþingistíðinda. (4559)

290. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það hefur auðvitað verið talað áður við hv. þm. Halldór Blöndal af þessu tilefni, en ég tel að eins og lögin eru og eðli málsins samkvæmt eigi landmenn á netabátum ekki rétt á að fá hvorki sjómannafrádrátt né fiskimannafrádrátt. Lögin tala býsna skýrt í þessum efnum og reglugerðum, sem á að vera til útskýringar á lögunum og segja hvernig eigi að framkvæma þau. Þau tala aðeins um beitningamenn á línubát. (Gripið fram í.) En það er stundum talað um að það eigi ekki síður að reyna að gera sér grein fyrir anda laganna ef einhver vafi er á því sem þar stendur. Það er nú einu sinni þannig, að þessi frádráttur heitir sjómannafrádráttur og fiskimannafrádráttur. Það er tvenns konar frádráttur sem hér er um að tala.

Fiskimannafrádrátturinn er sá frádráttur sem gefur mönnum heimild til þess að draga 10% af beinum tekjum sínum, þ. e. ef hlutaðeigandi hefur verið sjómaður og hefur haft þessar tekjur af fiskveiðum á íslenskum fiskiskipum. Svo kemur að vísu viðbót þar sem segir: „Þessi ákvæði eiga einnig við um hlutaráðna landmenn.“ Ég er ekki mjög kunnugur í verstöðvum norðanlands, það skal viðurkennt, ekki öðruvísi en svo að ég hef oft komið þangað og verið þar um stuttan tíma, á mjög mörgum stöðum að vísu. En í þeirri verstöð þar sem ég er upp alinn hafa hlutaráðnir menn aldrei verið aðrir en þeir, sem voru á bátunum sjálfum, og þeir, sem beittu línuna í landi. Línuveiðar eru þannig eðli sínu samkvæmt að það þarf mannskap til þess að beita línuna og svo mannskap til þess að leggja hana og draga, og venjan, var sú og aðalreglan, að þeir, sem beittu í landi, stunduðu síðan sjó á netavertíðinni sem á eftir fylgdi. Þess vegna voru línubeitningamennirnir taldir sjómenn nákvæmlega til jafns við hina og fengu þá sama rétt í öllum tilfellum.

Nú hefur þetta breyst. Það hafa ekki fengist nægilega margir menn til þess að beita línuna og þess vegna hafa aðrir verið fengnir til þess í landi. Hér í höfuðverstöðvunum eru ráðnir menn til þess upp á fasta greiðslu fyrir hvert bjóð. Þeir njóta ekki þessara skattfríðinda, hvorki sjómannafrádráttar né fiskimannafrádráttar, vegna þess að það er ekki lítið svo á að þeir séu sjómenn, eins og áður var gert af þessum ástæðum við beitningamenn.

Þetta tel ég vera anda þessara laga. Þarna er verið að láta þá línubeitningamenn njóta þessara fríðindi sem fara síðan á sjóð og fara alltaf öðru hvoru á sjó; eins og menn vita, en þessi regla gildir ekki um akkorðsmenn. Um netamenn í landi, það hefur verið rætt um það, en ég er ekki alveg viss um að það sé nákvæmlega það eina sem hv. þm. Halldór Blöndal á við. (Gripið fram í.) Það eru til menn sem kallaðir eru netamenn, ekki satt. Þeir eru raunar bæði á sjó og landi. En þegar menn tala um netamenn sem eru á sjó, þá eru það auðvitað hásetar og netamenn á togskipum. Það er auðvitað allt annað mál sem ég á við. Það er þar sem eru landmenn á netabátum. Þeir annast sjálfsagt ýmiss konar störf, ég efast ekki um það, og ef þeir annast t. d. um viðhald á netum og fellingu og annað þess konar, sem gerir bátinn veiðihæfan á ný, þá sinna þeir störfum sem almenn netaverkstæði hafa með höndum eða netamenn sem fengnir eru frá fyrirtækjum til þess að annast þetta, eða þá að þeir eru að sinna hluta af fiskverkun. Jafnvel þó þeir fái hlut úr því að lokum, þá eru þeir þar í því hlutverki að sinna störfum, sem falla undir störf fiskvinnslufólks í landi. Ekkert af þessu fólki hefur sjómannafrádrátt, en það er einmitt það sem hv. þm. Halldór Blöndal er að fara fram á, að mér skilst.

Til þess að þessir menn geti fengið þessi réttindi þarf að tala um þetta allt öðruvísi í lögunum og reglugerðinni en gert er og allt öðruvísi en brtt. hv. þm. hljóðar um. Hún var um það, að reglugerðin mætti ekki þrengja lagaákvæði, sem auðvitað er óheimilt.

Ég vil ekki vera að eyða í þetta löngum tíma eða þvarga um þetta af neinni illsku. Auðvitað er það svo, að sérstaklega getur staðið á um menn sem stunda sjómennsku með einhverjum öðrum hætti en þeim hefðbundna. En mér leiðist ergelsi og útúrsnúningar eins og koma fram hjá hv. þm. Halldóri Blöndal og er þá ekki von að menn vilji standa með honum þegar hann er ekkert nema hortugheitin og meira að segja líka þegar menn eru að ræða um þetta rólega á faglegum grundvelli. Ég skal þó ekkert vera að erfa þetta meira við Halldór, hv. þm. En það gæti hugsanlega staðið þannig á, eins og ég segi, ef á vissum stöðum væri um sérstakar aðstæður að ræða sem eru öðruvísi en gengur og gerist í verstöðvum yfirleitt, að þá þurfi að skoða hvort þessi réttur gæti einnig náð til þessara manna. En eins og málin eru sett fram hér nú treysti ég mér ekki til að samþykkja málflutning hv. þm. Halldórs Blöndals.