15.05.1981
Neðri deild: 96. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4507 í B-deild Alþingistíðinda. (4592)

275. mál, atvinnuleysistryggingar

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Eins og frsm. heilbr.- og trn. gat um þá skrifa sex nm. undir þetta nál., þ. e. þeir nm. sem starfa í n., með þeim breytingum sem frsm. gat um. Ég tel að þær brtt. séu allar til bóta. En ég lýsti því yfir í n., að ég væri mjög í vafa um síðustu brtt., um gildistöku laganna, að það væri nægilegur undirbúningur frá því að frv. yrði samþykkt hér á Alþingi, enda er meiri hluti stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, þeir Jón Ingimarsson, Eðvarð Sigurðsson, Daði Ólafsson, Guðmundur Þ. Jónsson og Hermann Guðmundsson, þeirrar skoðunar, að gildistaka laganna verði miðuð við n. k. áramót vegna hins umfangsmikla og tímafreka undirbúnings sem þarf fyrir jafnmiklar kerfisbreytingar og hér er gert ráð fyrir, auk þess sem tekjur yfirstandandi árs eru reiknaðar samkv. gildandi lögum og því verður ekki breytt þótt útgjöld yrðu samkv. nýjum reglum. Á þetta leggur sjóðsstjórnin áherslu, en þó að þetta frv. verði afgreitt á þessu þingi.

Ég get að vissu leyti tekið undir þessa skoðun meiri hluta stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs. Ég held að með þeirri gildistöku, sem er í brtt., sé of skammur tími til undirbúnings. Hins vegar vil ég taka fullt tillit til þeirra eindregnu óska sem fram hafa komið frá mörgum aðilum innan verkalýðshreyfingarinnar um að gildistaka þessa frv., ef að lögum verður, dragist ekki til næstu áramóta. En þarna finnst mér að megi vera nokkurt bil á milli, enda eru sumarmánuðirnir í raun og veru ekki hættulegir. Hins vegar er von að verkalýðshreyfingin hafi nokkrar áhyggjur ef gildistakan dregst til áramóta, en mundi vafalítið sætta sig við haustdaga.

Þá er annað atriði. Það er 2. brtt., um 1. málslið 10. gr. um iðgjöld atvinnurekenda til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Ég er samþykkur þeirri till. og mun greiða henni atkvæði því að ég tel að þar sé um veigamiklar breytingar að ræða frá frv. með skírskotun til samnings sem gerður var að milligöngu fulltrúa ríkisstj. við gerð kjarasamninga, og mér finnst rétt að sú yfirlýsing, sem fulltrúar ríkisstj. gáfu við gerð kjarasamninganna, sé gerð heyrinkunn hv. þdm. En sú yfirlýsing hljóðar svo:

Við undirritaðir fulltrúar ríkisstj. vegna samninga aðila vinnumarkaðarins viljum taka fram eftirfarandi í tilefni yfirlýsingar ríkisstj., dags. 27. okt. 1980.

1. Gert er ráð fyrir að lífeyristrygging og iðgjöld atvinnurekenda verði 2% af launum í stað 14% kostnaðarhlutfalls lífeyristrygginga. Iðgjaldið greiðist með sama hætti og nú er.

2. Gert er ráð fyrir að iðgjöld atvinnurekenda til Atvinnuleysistryggingasjóðs verði óbreytt.

3. Gert er ráð fyrir að núverandi ákvæði kjarasamninga aðildarfélaga VSÍ um fæðingarorlof falli niður, nema þeir kveði á um meiri rétt en fram kemur í yfirlýsingu ríkisstj.

Þessi yfirlýsing er dagsett 27. okt. og undir hana rita Þröstur Ólafsson, Halldór Ásgrímsson, Þórður Friðjónsson og Arnmundur Bachman: Vinnuveitendasambandið vitnar í bréfi til n. í þessa yfirlýsingu og segir að við hana sé ekki staðið í sambandi við framlagningu frv. og ekki heldur í sambandi við þá brtt. sem n. flytur á sérstöku þskj. og frsm. hefur skýrt frá. Hér er því deila á milli ríkisstj. og VSÍ um þetta atriði. Sú deila er ekki leyst þó að það sé auðvitað gerð veigamikil breyting með brtt. í þessa átt þannig að miklu minna ber á milli.

Ég tel mig ekki aðila að þeirri yfirlýsingu sem fulltrúar ríkisstj. gefa við gerð kjarasamninga, en skemmtilegra er að menn skilji á einn veg skýlausar yfirlýsingar í þessum efnum sem öðrum og ekki þurfi að koma til leiðinda út af því. Hinu er ég á, að það er nauðsyn á því að afgreiða þetta frv. á þessu þingi, og því vildi ég ekki á nokkurn hátt bregða fæti fyrir afgreiðslu þess þó að ég hefði að mörgu leyti talið æskilegt og nauðsynlegt að gera töluvert fleiri breytingar á lögunum um atvinnuleysistryggingar en gert er. En þær breytingar hefðu kostað tafir á framgangi málsins og því vil ég láta mínar hugmyndir í þeim efnum bíða síðari tíma.

Mér finnst undarleg brtt. sem hefur verið dreift hér á þskj. 839. Þar er lögð fram brtt. við brtt. þess efnis, að brtt. falli niður. Ég held að ég verði að segja við flm. þessarar till. að ég dáist að mörgu leyti að hugmyndaflugi flm. með þessum tillöguflutningi. Ég minnist þess ekki þau 20 þing, sem ég senn hef setið, að hafa séð svona smíði. Ég greiði eðlilega atkv. á móti þessari till. því að ekki yrði málið betra viðureignar ef þessi veigamesta brtt. n. yrði felld. Þá held ég að það mundu vera talin skýlaus svik ríkisstj. við gerð kjarasamninga og gæti dregið dilk á eftir sér.

Ég skal svo að síðustu aðeins segja það og endurtaka, að ég greiði atkv. með þessum brtt. sem fyrir liggja, nema ég áskil mér rétt til að fylgja brtt. sem fram kunna að koma, eins og kemur fram í nál. En ég harma að ekki skuli hafa verið þannig um hnútana búið að ekki þyrfti að koma til þessa ágreinings um skilning á yfirlýsingu ríkisstj. til vinnuveitenda sem ég gerði að umtalsefni.