15.05.1981
Neðri deild: 96. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4509 í B-deild Alþingistíðinda. (4595)

275. mál, atvinnuleysistryggingar

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins út af þeim umr., sem hafa farið hér fram, segja fáein orð um tvö atriði.

Það er þá fyrst um taxtaviðmiðun varðandi greiðslu til Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Þegar um þessi mál var fjallað í viðræðunefnd ríkisstj. og aðila vinnumarkaðarins á sínum tíma var gengið frá yfirlýsingu þess efnis, að iðgjald til sjóðsins yrði ekki hækkað frá því sem verið hafði. Með þessari yfirlýsingu, sem ég lét koma fram munnlega og kom einnig fram skriflega gagnvart atvinnurekendum, vorum við í raun og veru að hafna þeirri kröfu ASÍ að iðgjaldsprósentan yrði á þessu stigi hækkuð. Hins vegar var í þeim viðræðum aldrei fjallað um taxta sérstaklega, hvort það ætti að miða við 8. taxta A byrjunarlaun, 8. taxta A eftir eitt ár eða 8. taxta A eftir fjögur ár. Niðurstaða málsins varð sú í ríkisstj., að hún flutti till. um 8. taxta A eftir fjögur ár, eins og þeir eru samkvæmt samningum Verkamannasambands Íslands. Hins vegar komu fram ábendingar síðar frá Vinnuveitendasambandinu og fleiri aðilum þar sem þeir létu það skýrt í ljós, að þeir teldu að yfirlýsing ríkisstj. hefði átt að þýða það að í breytingum á lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð mætti ekki felast neinn kostnaðarauki fyrir atvinnurekendur og atvinnuveitendur. Ég sagði framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins það sem mína skoðun, að í meðferð málsins af okkar hálfu hefði í rauninni aldrei verið átt við neitt annað en iðgjaldaprósentuna, en ekki taxtann sem slíkan.

Eftir að þessi mát komu hér til meðferðar á Alþingi varð hins vegar samkomulag um það í hv. heilbr.- og trn., þar sem áttu sæti fulltrúar allra flokka, að miða þetta við 8. taxta byrjunarlaun. Nefndin flytur samhljóða till. í þeim efnum og mun ég að sjálfsögðu taka þátt í því samkomulagi af minni hálfu og vænti þess, að svo verði um þingheim allan.

Varðandi stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs að öðru leyti mætti hins vegar margt segja. Það er mál sem verður að taka upp á síðari stigum. Ég er þeirrar skoðunar að það sé óhjákvæmilegt í tengslum við kjarasamninga eða með öðrum hætti á næstu mánuðum og misserum að taka það upp, með hvaða móti er unnt að tryggja Atvinnuleysistryggingasjóði hærri tekjur en hann hefur nú. Ég ætla ekki að ræða almennt um málefni Atvinnuleysistryggingasjóðs frekar að sinni.

Varðandi aftur brtt. þá, sem hv. þm. Friðrik Sophusson og Steinþór Gestsson hafa flutt, tel ég að það sé eðlilegt í þessu tilviki að vísa til þess, að það kom fram mjög eindregin ósk um að gildistökunni yrði flýtt. Sú ósk trúi ég að hafi komið frá verkalýðssamtökunum, a. m. k. einstökum talsmönnum þeirra. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar, að það sé skynsamlegt að flýta þessari gildistöku, og ég fagna till. n. í þeim efnum. Ég tel því í rauninni enga ástæðu til þess að verða við óskum sjóðsstjórnarinnar að því er þetta atriði varðar.

Ég vona að tími verði nægur, þó knappur sé, til þess að koma fram breytingum þeim sem hér er gert ráð fyrir. Þessum aths., herra forseti, vildi ég koma á framfæri af minni hálfu á þessu stigi umræðnanna.