15.05.1981
Neðri deild: 96. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4512 í B-deild Alþingistíðinda. (4596)

275. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Vegna síðustu orða hv. þm. Karvels Pálmasonar vil ég aðeins upplýsa hann um þær staðreyndir sem nefndin stóð frammi fyrir. Fyrir nefndinni lágu tvær skriflegar yfirlýsingar, önnur sem ég las hér áðan, milli fulltrúa ríkisstj. og aðila vinnumarkaðatins um að gert sé ráð fyrir að iðgjald atvinnurekenda til Atvinnuleysistryggingasjóðs verði óbreytt. Sú yfirlýsing kann að vera túlkunaratriði. Yfirlýsingin hins vegar við verkalýðshreyfinguna er alveg ótvíræð. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. Karvel Pálmason hafi séð hana. Hún fjallar um að á þessu ári verði sett ný löggjöf um Atvinnuleysistryggingasjóð. Þar er lofað rýmkun bótaréttar, hækkuðum bótum, að tekjur maka hafi ekki áhrif á bótarétt og nokkur önnur atriði sem ég leyfi mér að fullyrða að eru öll í þessum lagabálki. Þannig er algjör fjarstæða að segja að ekki sé staðið við það sem lofað var verkalýðshreyfingunni. Við það, sem liggur bókfast fyrir nefndinni um samninga við verkalýðshreyfinguna, er staðið. Yfirlýsingin, sem liggur fyrir, milli ríkisstj. og aðila vinnumarkaðarins er orðuð eins og ég er búin að lesa hér a. m. k. tvisvar sinnum. Um það má sjálfsagt deila hvað átti að standa í því plaggi. Þar stendur hins vegar það sem ég hef lesið, og ég lái ekki þeim aðilum, þó að ég sé vitaskuld ekki talsmaður þeirra hér í Alþingi, að þeir kunni að draga í efa að við þeirra samning sé staðið. Það verður að beita þeirri sanngirni sem maður á til gagnvart öllum aðilum sem um er að ræða.

En ég vísa því algjörlega frá, að ekki sé staðið við það sem verkalýðshreyfingunni var lofað. Ég tel að hér séu svo veigamiklar bætur verkalýðshreyfingunni til handa að það sé verulega til vansa hinu háa Alþingi ef þetta frv. nær ekki fram að ganga af þessum sökum.