11.11.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 618 í B-deild Alþingistíðinda. (460)

352. mál, úrvinnsla skattframtala vegna ákvörðunar um búmark

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur beint til mín fsp. í fimm liðum um úrvinnslu skattframtala vegna ákvörðunar um búmark. Fsp. þessar voru sendar ríkisskattstjóraembættinu til umsagnar og svörin við spurningunum eru fyrst og fremst byggð á aths. sem þaðan bárust.

1. Spurningin er: „Hvernig var háttað úrvinnslu úr skattaframtölum bænda vegna ákvörðunar um framleiðslukvóta?“

Svar: Samkv. 2. mgr. b-liðar 1. gr. laga nr. 15/1979 skulu skattstjórar fyrir 1. júní ár hvert ókeypis og ótilkvaddir gefa Framleiðsluráði upp, í því formi sem það ákveður, afurðamagn og bústofn á hverju lögbýli og hjá öðrum framteljendum sem hafa meiri hluta tekna sinna af landbúnaði. Einnig er þeim skylt að veita aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar eru í þessu sambandi að kröfu Framleiðsluráðs. Þessar upplýsingar voru veittar með því að gefa Framleiðsluráði ljósrit af bls. 1, 2 og 4 í skattframtölum bænda og bls. 1 og 2 í landbúnaðarskýrslum. Upplýsingar á framtölum, sem voru Framleiðsluráði óviðkomandi, voru strikaðar út eftir því sem hægt var. Í nefndum lögum og í reglugerð nr. 348 frá 1979 voru skattyfirvöldum ekki ætluð önnur afskipti af ákvörðun framleiðslukvóta eða kjarnfóðurgjalds, en þau verkefni fyrst og fremst falin Framleiðsluráði. Skattyfirvöldum er því ókunnugt um nánari úrvinnslu er fram kann að hafa farið vegna upplýsinga úr skattgögnum.

2. spurning: „Voru einhverjar breytingar gerðar í því sambandi á upplýsingum, framsetningu, úrvinnsluatriðum, álagningarstofnum eða niðurstöðum framtalanna, og þá hverjar?“

Svar: Af svari við 1. spurningunni leiðir að skattyfirvöld geta ekki veitt svar við þessari spurningu.

3. spurning: „Voru skattayfirvöld höfð með í ráðum um úrvinnslu framtalanna, ef ekki, þá hvers vegna?“ Svar: Skattyfirvöld voru ekki höfð með í ráðum um úrvinnslu framtalsgagna í þessu sambandi, enda öðrum aðilum falin sú úrvinnsla, eins og fyrr er vikið að, og ekki gert ráð fyrir því í lögum, að skattyfirvöld hafi þar nokkuð með úrvinnslu þeirra að gera.

4, spurning: Hefur „skattayfirvöldum verið gert viðvart um niðurstöður úrvinnslunnar og þær breytingar eða lagfæringar sem kunna að hafa verið gerðar á atriðum í skattaframtölum í því sambandi?“

Svar: Hvorki fjmrn. né ríkisskattstjóraembættinu er kunnugt um að skattstjórum hafi verið gert viðvart um neinar breytingar eða lagfæringar sem kunna að hafa verið gerðar af Framleiðsluráði á atriðum í skattframtölum.

5. spurning: „Hafi það verið gert“ — væntanlega það sem felst í 4. spurningu — „liggur þá fyrir mat ríkisskattstjóra á því, hvort umræddar breytingar — ef gerðar hafa verið — kunni að geta haft áhrif á álagningu opinberra gjalda á viðkomandi framteljendur?“

Ríkisskattstjóri — raunar vararíkisskattstjóri í þessu tilviki vegna þess að ríkisskattstjóri var í leyfi þegar þessari spurningu var svarað — svarar þessari spurningu einfaldlega með því að vísa í svarið við 4. spurningunni.

Ég vil svo að lokum taka það fram, að þar sem lög þessi voru sett áður en ég kom í fjmrn. eða 18. apríl 1979 og ég hef því ekki haft nein afskipti af þessu máli er ég ekki persónulega kunnugur því að öðru leyti, en verð að láta þessi svör nægja.