15.05.1981
Neðri deild: 96. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4516 í B-deild Alþingistíðinda. (4605)

315. mál, Bjargráðasjóður

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að tefja ekki neitt verulega fyrir afgreiðslu málsins því ég hef áhuga á að ráðin sé bót á þeim vanda sem við er að fást og þessi lög eru gerð til þess að leysa eða ættu að vera gerð til þess að leysa.

Við 1. umr. málsins í þessari hv. deild gerði ég grein fyrir því, að við sjálfstæðismenn hefðum fyrr á þessu þingi gert um það till. að ríkissjóður tæki lán á árinu 1981 til þess að veita Bjargráðasjóði það fjármagn til ráðstöfunar, samkv. 8. gr. laga um Bjargráðasjóð, vegna þeirra foktjóna sem urðu á s. l. vetri.

Að beiðni hæstv. félmrh. drógum við, sem fluttum þessa till., hana til baka af því sérstaklega að við óskuðum eftir því, að almenn samstaða gæti myndast um afgreiðslu þessa máls, en hún virtist ekki vera fyrir hendi þegar við fluttum till. okkar um 25 millj. kr. lánsheimild ríkissjóðs. Hæstv. félmrh. bar því við, að hann gerði ráð fyrir að þetta tjón yrði miklu meira en við höfðum áætlað, og gat ég að sjálfsögðu ekki á því stigi fullyrt neitt um það efni þó að ég hefði um það nokkuð ákveðnar umsagnir frá framkvæmdastjóra Bjargráðasjóðs, að sú upphæð, sem við settum í till., væri fullnóg.

Ég vil taka það fram nú, að vitaskuld hefði mér og okkur félögum aldrei dottið í hug að draga þessa till. til baka ef við hefðum átt von á því, að flutt yrði frv. í allt öðru formi en við höfðum gert ráðstafanir eða áætlanir um.

Hæstv. félmrh. hafði um það ráðagerðir að semja nýtt frv. og flytja það hér á þingi, og hann bauð mér að fylgjast með því starfi sem ég var honum þakklátur fyrir. Ég skal ekki um það segja hvort það er hans sök eða ekki, en frv. er ekki lagt fram af honum sem félmrh., heldur af fjmrh. og er kannske þar að leita að því misræmi sem er á milli þess sem ég tel að hæstv. félmrh. hafi lofað þegar hann fór fram á að ég drægi till. okkar félaga til baka. Eins og ég sagði áðan gefur þau auga leið að við hefðum ekki sætt okkur við að draga till. til baka ef við hefðum átt vona á að það yrði komið fram með frv. sem væri í raun og veru ekki hægt að tala um sem neina sérstaka björg í þessum bráða vanda þeirra sem fyrir tjóni urðu, því það mun vera almennt álit manna nú að ekki sé verulega erfitt að fá lán með venjulegum vaxtakjörum. Það hefur verið sagt að bankarnir séu svo fullir peningum að það muni ekki vera mjög erfitt, en það er erfitt fyrir þá, sem verða bæði fyrir eignatjóni og afurðatjóni, að standa undir slíkum lánum sem eru með sömu kjörum og gert er ráð fyrir að ríkið og Bjargráðasjóður verði að sæta í lántökunni.

Ég sagði við 1. umr. að frv. væri í allt annarri veru en við hefðum átt von á. Eins og ég hef tekið fram gerðu tillögumenn ráð fyrir því, að veitt yrði heimild fyrir ríkissjóð að taka lán og veita Bjargráðasjóði það fjármagn til ráðstöfunar. Á þessu er reginmunur og því sem fram kemur í því frv. sem hér er til umr., og ég vil beina því til hæstv. félmrh., að hann taki það á sig, vegna þess sem á undan er gengið, að hlutast til um og gefa um það yfirlýsingu, að fyrirgreiðsla í formi styrkja og lána verði með betri kjörum en gert er ráð fyrir í þessu frv. eins og það liggur hér fyrir.