15.05.1981
Neðri deild: 96. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4517 í B-deild Alþingistíðinda. (4607)

315. mál, Bjargráðasjóður

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv., sem afgreitt er úr fjh.- og viðskn., er eingöngu um heimild fyrir fjmrh. til að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán sem Bjargráðasjóður tekur. Ég vil vísa í þessu sambandi til orða hv. 2. þm. Suðurl., að ég varð fyrir vonbrigðum þegar þetta frv. var lagt fram, að hvergi var stafur um hvernig ætti að ráðstafa þessu fjármagni, með hvaða kjörum eða hver ætti að greiða mismun á láni, sem væri tekið, og á útlánum, ef það væri með þeim hætti. Hins vegar er ég sammála því sem frv. gerir ráð fyrir: heimild fyrir fjmrh. að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán sem Bjargráðasjóður tekur.

Nefndin segir í nál. að hún telji eðlilegt að lán þessi verði með sömu kjörum og lán Byggðasjóðs, lánstími verði fimm ár og ríkissjóður standi straum af væntanlegum mun á fjármagnskostnaði. Þetta er álit allra nm. í fjh.- og viðskn. Því vil ég spyrja hæstv. ráðh. og þá fyrst og fremst fjmrh., sem kemur til með að ábyrgjast þetta lán, hvort hann sé sammála því sem kemur fram á nál.? Ég tel nauðsynlegt að um það séu hreinar línur, að það verði ekki árekstur síðar hvað þetta snertir. Nóg er víst samt sem er ekki ákveðið enn þá í sambandi við þessi lán.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, en vísa aftur til þess sem 2. þm. Suðurl. sagði um málið.