15.05.1981
Efri deild: 103. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4523 í B-deild Alþingistíðinda. (4618)

290. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég hafði tæplega ætlað mér að taka hér til máls, en ræða hæstv. fjmrh. gefur tilefni til þess að segja hér fáein orð.

Það er eitt út af fyrir sig, að hæstv. fjmrh. skuli enn halda fram þeim ósannindum, að með þessu frv. sé verið að lækka skattana frá fyrra ári, þegar það er vitað að svo er ekki og liggja fyrir opinber gögn um það. Auðvitað er um að ræða lækkun frá þeirri hækkun skatta sem áður hafði verið ákveðin og í slíkum orðhengilshætti geta menn kannske lengi hangið. En það, sem var merkilegast við ræðu hæstv. fjmrh., var auðvitað að hann eyddi meginhlutanum af ræðutíma sínum í að segja frá frvgr. sem þegar eru fallnar og hann hafði gert að sínum till. á sínum tíma. Það lá við að menn gætu ályktað sem svo, að hæstv. ráðh. væri að mæla með því við deildina, að hún breytti frv. aftur í hið fyrra horf, eins og það var upphaflega. Ég skil ekki hvert hæstv. ráðh. er að fara með þessum hætti. Mér fannst að hann væri frekar að mæla með því frv., sem hann flutti hér einu sinni, heldur en að hann væri í raun og sannleika að mæla með samþykkt þess frv. sem hann telst þó vera að mæla fyrir. Þetta verða að teljast dálítil öfugmæli. En aðstæður eru náttúrlega mjög einstakar núna. Ég hugsa að það sé mjög óvenjulegt, ef ekki einstakt, að fjmrh. fái samþykkta á sig frvgr. varðandi álagningu á tekjusköttum, sem hann er sjálfur andvígur, með atkvæðum þorra stjórnarsinna. Ég held að allt þetta sanni kannske fyrst og fremst hver uppákoma er hér í íslenskum stjórnmálum.

Ég ætla ekki, herra forseti, að fjalla um efnisatriði þessa máls, tefja tímann með því á þessari stundu, en mun gera það við 2. umr. málsins.