11.11.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í B-deild Alþingistíðinda. (464)

352. mál, úrvinnsla skattframtala vegna ákvörðunar um búmark

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Vegna þessarar aths. hv. þm. vil ég taka það fram, að í lögunum, sem samþ. voru hér 18. apríl 1979, segir einfaldlega:

„Skattstjórar skulu fyrir 1. júní ár hvert ókeypis og ótilkvaddir gefa Framleiðsluráði upp í því formi, sem það ákveður afurðamagn og bústofn á hverju lögbýli og hjá öðrum framteljendum, sem hafa meiri hluta tekna sinna af landbúnaði“ o.s.frv.

Hlutverk fjmrn. og yfirleitt ríkisstj. í þessu máli er bara að afhenda upplýsingar. Það er ekki ríkisstjórnarinnar að svara til um hvað sá aðili, þriðji aðili í þessu tilviki, sem fær gögnin í hendur, hefur gert við gögnin eða hvort hann hefur gert einhverjar breytingar á upplýsingum, framsetningu, úrvinnsluatriðum, álagningarstofnum eða niðurstöðum framtalanna. Það þýðir ekki að spyrja fjmrn. um það, vegna þess að það hefur ekki svör við þessari spurningu og þessi spurning er skattyfirvöldum algerlega óviðkomandi. Ef ætlunin er að óska eftir að ríkisstj. útvegi þessar upplýsingar frá Framleiðsluráði landbúnaðarins er eðlilegt að spyrja á þann veg. Ég efast ekkert um að ef landbrh. hefði verið formlega beðinn um að útvega upplýsingar um það frá þriðja aðila, Framleiðsluráði landbúnaðarins, hvort það hefði gert einhverjar tilteknar breytingar á þessum upplýsingum og gögnum, sem það fékk í hendur, þá hefði landbrh. auðvitað svarað þeirri spurningu tafarlaust og útvegað allar upplýsingar. En það var ósköp einfaldlega ekki spurt á þennan veg og þar af leiðandi getur svarið ekki orðið öðruvísi en hér liggur fyrir.