16.05.1981
Neðri deild: 97. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4533 í B-deild Alþingistíðinda. (4656)

262. mál, lagmetisiðnaður

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir máli á þskj. 518 um lagmetisiðnað og Þróunarsjóð lagmetisiðnaðarins, eins og heiti frv. er eins og það kemur frá hv. Ed. Frv. þetta var lagt fram fyrir alllöngu hér í þinginu og hefur fengið athugun í Ed. Iðnn. þeirrar hv. deildar hefur gert á því nokkrar breytingar, sem fyrir liggja á þskj. 863, og m. a. breytt heiti frv. og gert nokkrar breytingar er varða Þróunarsjóð lagmetisiðnaðarins, stjórn hans. Gera breytingar, sem samþ. voru í Ed. á frv., ráð fyrir að I. kafli laganna um Sölustofnun lagmetis eða um lagmetisiðnað, eins og hann heitir nú, hafi takmarkaðan gildistíma eða til ársloka 1982.

Efni þessa frv. ætla ég ekki að fara hér út í í einstökum atriðum. Hv. alþm. hafa eflaust kynnt sér það. En meginbreytingarnar frá gildandi lögum eru raktar í sjö liðum á bls. 4 í athugasemdum við lagafrv. á þskj. 518.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. iðnn. þessarar deildar.