16.05.1981
Neðri deild: 97. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4535 í B-deild Alþingistíðinda. (4661)

325. mál, loðdýrarækt

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð.

Það segir hér að 1. gr. þessa frv. sé óbreytt frá gildandi lögum. Það væri fróðlegt að fá að heyra hvort oft hafi til þess þurft að koma að landbrh. skæri úr ágreiningi um hvort dýrategund skyldi teljast til loðdýra eða ekki. Sömuleiðis þætti mér gaman að heyra frá formanni nefndarinnar og frsm., hvort hann telji að það sé hægt að leggja á hvaða landbrh. sem er að skera úr um hvort ákveðin dýrategund teljist til loðdýra eða ekki, hvort þeir almennt hafi þekkingu á þessu. Ég veit að núv. landbrh. hefur mjög víðtæka þekkingu á þessu sviði, en það er ekki víst að hann verði hér um alla framtíð. Þá gæti kannske verið nauðsynlegt að breyta lögunum ef það kæmi annar sem hefði ekki vit á þessu og gæti ekki kveðið upp úrskurð um hvort viðkomandi dýrategund skuli teljast til loðdýra eða ekki.

Í öðru sambandi var sagt um annað að það væri teygjanlegt hugtak og loðið. Það getur verið erfitt að kveða upp slíkan úrskurð. Við skulum t. d. segja að allt í einu yrði það í tísku að kattaskinn væru verðmæt og sóst eftir þeim. Væri t. d. núv. landbrh. tilbúinn að úrskurða ketti loðdýr ef menn vildu fara að rækta þessar skepnur?

Ég spyr vegna fákunnáttu minnar í þessum málum, af því að vitrir menn ræða þessi mál og hafa fjallað um frv. og brtt. En ef þetta er kjánalega spurt bið ég menn að taka viljann fyrir verkið því að menn vilja alltaf reyna að fræðast eitthvað um það sem þeir vita lítið um.