16.05.1981
Neðri deild: 97. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4537 í B-deild Alþingistíðinda. (4663)

325. mál, loðdýrarækt

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. landbn. fyrir hvað skjótt og drengilega hún hefur brugðist við að flytja þetta mál og koma því hér til 2. umr. Eins og fram kemur er frv. flutt af nefndinni að minni beiðni, aðallega vegna þess hve það var seint tilbúið og samið af þeirri nefnd sem greint hefur verið hér frá.

Ég vil geta þess, að í grg. frv. hefur fallið niður nafn eins nm. og bið ég velvirðingar á því fyrir hönd þeirra sem settu saman þessa grg., en það er nafn Einars E. Gíslasonar ráðunautar frá Skörðugili, sem tók þátt í þessu starfi.

Frv. er flutt til að færa lög um loðdýrarækt nokkuð til samræmis við þá þróun sem nú er stefnt að í þessum málum, þ. e. að gera það mögulegt að loðdýrabú geti orðið búgrein meðal bænda almennt, sem er nokkuð annað en stefnt var að í upphafi þegar þessi lög voru sett, en þá var gert ráð fyrir fáum og stórum búum á landinu. Að öðru leyti ætla ég ekki að taka tíma til að ræða frv. efnislega. Það hefur verið gert af hv. formanni landbn.

Ég vil gjarnan taka undir þau varnaðarorð sem fram komu frá hv. þm. Arna Gunnarssyni. Ég tel að það sé mikil ástæða til að fara ekki allt of hratt í þessum efnum og hafa nokkurn vara á sér. Við ráðum ekki markaði og verðsveiflur eru nokkuð tíðar á skinnamörkuðum heimsins. Ég vil taka það fram, að þótt umsóknir hafi borist, eins og hann gat um, frá allt að 90 aðilum víðs vegar um landið verður ekki á þessu ári unnt að samþykkja allar þær umsóknir eða verða við þeim — a. m. k. ekki á þann máta að tryggt verði fjármagn þar til aðstoðar.

Ég tel einnig að það sé nauðsynlegt að byggja þessa starfsemi upp með nokkru skipulagi þannig að þessi loðdýrabú eða t. d. refabúin byggist upp í nánd við fóðurmiðstöðvar. Hefur þegar verið byrjað á því að byggja þessa starfsemi upp í grennd þeirra fóðurmiðstöðva sem eru til, t. a. m. á Sauðárkróki, í Grenivík og á Dalvík. Einnig hefur verið hafinn undirbúningur að fóðurstöð í Vestur-Barðastrandarsýslu. Fóðurstöð er grundvallaratriði í þessum rekstri. A þessu ári verður væntanlega unnið að undirbúningi slíkra fóðurstöðva á Austurlandi og væntanlega einnig á Suðurlandi. Er ástæða til að ítreka að það er grundvallaratriði til að þessi búgrein geti þrifist hjá bændum að þeir hafi aðgang að slíkum stöðvum.

Ég vil þó ekki slá neina varnagla umfram það að taka undir það sem fram kom hjá hv. þm. Árna Gunnarssyni, að fara þarf með nokkurri gát í þessum efnum eins og annarri nýrri starfsemi sem við erum að byggja upp á landinu. Hann taldi að uppbygging fiskeldisstöðva eða fiskræktarmálin hefðu farið úr böndunum. Það má e. t. v. segja, ef þetta er rétt, að væntanlega hefði þurft að flytja lagafrv. til að geta komið í veg fyrir að byggðar væru fiskeldisstöðvar. Ég hef ekki talið það unnt. Hins vegar hefur verið ráðstafað fé til fiskeldisstöðva af sérstöku fjármagni sem landbrn. hefur haft yfir að ráða, einungis að því marki að þar væri um stöðvar að tefla sem að meginhluta væru í eigu bænda og samtaka bænda og tengdust landbúnaðinum í sinni starfsemi með ótvíræðum hætti. Það, sem einstaklingar og stór hlutafélög hafa unnið án atbeina landbrn. í þessum efnum, hefur ekki verið talið fært að hindra með sérstakri löggjöf. Ég vænti þess, að þetta sé skýrt og ef þau sjónarmið eru uppi, að ástæða þyki til að setja slíka löggjöf, komi slíkar ábendingar eða frumvörp fram á næsta Alþingi.

Um aðra þætti í sambandi við aukningu atvinnulífs í sveitum skal ég ekki fjalla. Ég þekki hins vegar enga prjónastofu sem ekki hefur prjónað. Yfirleitt hafa þær prjónastofur, sem ég þekki, orðið til verulegrar styrktar og hafa gengið sæmilega vel sem betur fer.

Til að tefja ekki tíma vil ég ljúka þessu með því að gera tilraun til að svara hv. 1. þm. Vestf., sem spurði í fyrsta lagi hvort landbrh. hefði oft þurft að skera úr því, hvort tiltekin dýrategund teldist til loðdýra eða ekki. Ég get því einu svarað um þennan þátt í máli hv. þm., að síðan ég kom í rn. hef ég ekki þurft að skera úr neinu slíku vafaatriði, en til þess getur auðvitað komið. Það er rétt hjá honum, að það getur verið bæði loðið og teygjanlegt hvort eitthvert dýr telst loðdýr eða ekki. Það er hins vegar sýnilegt að sú nefnd, sem hefur sett saman þetta frv., treystir fyllilega landbrh., bæði mér og öðrum, til að fella slíkan úrskurð. Ég mun auðvitað ekki undan því skorast í minni tíð ef til þess kemur.

Ég vil segja það að lokum um þetta efni, að ég hygg að ég muni geta stuðst við skilgreiningu fyrrverandi þm. Mér er sagt að hann hafi löngu fyrir mína þingmannstíð flutt frv. um loðdýrarækt og talað fyrir því í löngu máli, en í þeirri framsöguræðu kom m. a. fyrir þessi setning:

„Loðdýr er í eðli sínu spendýr, sem er loðið, og snúa hárin venjulega út.“