16.05.1981
Neðri deild: 97. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4539 í B-deild Alþingistíðinda. (4666)

138. mál, tollskrá

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Það er ekki létt að hlaupa í skarðið fyrir formann fjh.- og viðskn. Nd. Þó er þetta svo einfalt og skýrt mál að ég held að um það þurfi ekki að verða neinar umr. og enginn ágreiningur sé um eitt eða neitt.

Nefndinni barst á sínum tíma frv. frá hv. þm. Albert Guðmundssyni, 138. mál, þskj. 165, sem fjallar um niðurfellingu tolla á ungbarnamat, nánast fæðu sérstaklega tilreiddri fyrir ungbörn og sjúka. Það kemur í ljós að í þeirri torskildu skrá, sem heitir tollskrá og er flestum óskiljanleg, er barnamatur og sérstaklega tilreidd fæða fyrir sjúka tolluð víða í 70%, en innflutt gæludýrafóður fyrir hunda og ketti er án nokkurra tolla.

Nefndin leitaði umsagnar fjmrn. og það féllst á skoðun n., sem var einróma að fella niður tolla af þeim vörum sem nefndar eru á þskj. 827: Fæða sérstaklega tilreidd fyrir ungbörn og sjúka. Þar verði tollur felldur niður með öllu. Fæða sérstaklega tilreidd fyrir ungbörn. Sömuleiðis. Neyðarmatvæli í auðkenndum umbúðum svo og fæðutegundir sérstaklega tilreiddar sem fæða fyrir ungbörn og sjúka. Þetta verði allt saman fellt niður. Í 2. lið eru nefnd sérstök tollnúmer og lagt til að verði felldir niður tollar af þeim.

Nefndin er einróma í því — og tekur þar samstöðu með fjmrn. — að breyta þessu í samræmi við tillögu Alberts Guðmundssonar um að fella niður tolla á þessu sérstaka fæði fyrir ungbörn og sjúka, ég tala nú ekki um ósköpin þegar innflutt fæða fyrir hunda og ketti er tollfrjáls. Brtt. er á þskj. 827 og er einróma af nefndinni lagt til að hún verði samþykkt.