16.05.1981
Efri deild: 105. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4540 í B-deild Alþingistíðinda. (4679)

190. mál, almannatryggingar

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, fjallar um svokallað sjúkratryggingagjald. Frv. gerir ráð fyrir að það sjúkratryggingagjald, sem var 1.5%, verði fellt niður þannig að laun upp að 6 millj. 750 þús. gkr. á síðasta ári verði án sjúkratryggingagjalds, en 2% sjúkratryggingagjald verði á launum þar fyrir ofan. Hér er um að ræða mjög verulega lækkun á sjúkratryggingagjaldi frá því sem verið hefur.

Frv. þetta — þó það sé breyting á lögum um almannatryggingar — fjallar í raun og veru um skattamál. Hér er um að ræða skattlagningu. Í meðferð málsins í hv. Nd. var ákveðið að vísa þessu frv. til fjh.- og viðskn. og ég geri það að tillögu minni, að hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar fái þetta mál til meðferðar og því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. Hér er um að ræða hluta af skattamálum og ekkert annað — hluta af þeim skattamálum sem rædd hafa verið að undanförnu — og ber að meðhöndla málið þannig að mínu mati. Mér skilst að fjh.- og viðskn. beggja deilda hafi starfað saman að þessum skattamálum. Ég legg sem sagt til, herra forseti, að þessu máli verði vísað til fjh.- og viðskn.