16.05.1981
Efri deild: 105. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4544 í B-deild Alþingistíðinda. (4689)

315. mál, Bjargráðasjóður

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það væri að sjálfsögðu algerlega óeðlilegt að fara að flytja brtt. við þetta frv. um útlánakjör Bjargráðasjóðs. Hér er ekki á ferðinni frv. til l. um Bjargráðasjóð, heldur frv. um heimild til lánsfjáröflunar fyrir Bjargráðasjóð. Þess vegna er þetta frv. hér flutt af fjmrh., en ekki félmrh., sem annars fer með málefni Bjargráðasjóðs.

Kjörin á lánum Bjargráðasjóðs á s. l. ári vegna þess áfalls, sem varð 1979, voru þau sömu og verið er að tala um hér. Svokölluð „hafíslán“ voru með Byggðasjóðsvöxtum til fimm ára. Ef miðað er við 40% verðbólgu í fimm ár á greiðslutíma slíkra lána og 22% vexti eða þá vexti, sem hafa verið í Byggðasjóði, yrði endurgreiddar aftur fyrir þessi lán 4500 millj. kr. — þar af greiðir ríkissjóður helminginn. Að því leytinu til er vitaskuld um óafturkræft framlag að ræða. Bjargráðasjóður hefur aldrei úthlutað því fé, sem hann hefur tekið að láni, þannig að um væri að ræða óafturkræf framlög, á annan hátt en þennan. Það fé, sem Bjargráðasjóður fær sem framlög úr ríkissjóði og framlög frá bændasamtökunum, hefur verið látið af hendi rakna án vaxta og iðulega jafnvel sem bein framlög.

Ég vil því biðja menn um að vera ekki að tefja framgang þessa frv. með því að vera að flytja brtt. við lög sem ekki eru í rauninni hér á dagskrá. Hér er einungis verið að tala um lánsfjárheimildaröflun og ekkert annað.