16.05.1981
Efri deild: 105. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4545 í B-deild Alþingistíðinda. (4690)

315. mál, Bjargráðasjóður

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. gaf hér upplýsingar um að þetta frv. varðaði ekki breyt. á lögum um Bjargráðasjóð. Ég verð að segja að mér finnst óþarfi að gefa slíkar upplýsingar ef hæstv. ráðh. gengur út frá því að við getum lesið það sem fyrir okkur er lagt. Ég geti mér fullkomlega grein fyrir því, hvað eru lög um Bjargráðasjóð. En einmitt vegna þess að hér er ekki um að ræða frv. til l. um breyt. á lögum um Bjargráðasjóð, heldur frv. um sérstaka lánsútvegun, þykir mér liggja beinast við að bera fram brtt. við þetta frv. til að tryggja að þessu sérstaka fjármagni verði varið á þann veg sem ég nefndi áðan, þ. e. að um það fari eftir almennum reglum um ráðstöfun fjár Bjargráðasjóðs, að það geti verið hvort tveggja eða annað hvort: lán eða óafturkræf framlög. Það hindrar ekkert í þessu efni þó að hér sé um að ræða lánsfé til Bjargráðasjóðs. Ef því er ráðstafað að einhverju leyti sem óafturkræfum framlögum eru ýmis ráð til þess að bæta Bjargráðasjóði upp vaxtatapið. Aðalatriðið er að sú ráðstöfun, sem nú er verið að gera, komi að raunverulegum notum og svari þeim þörfum sem eru fyrir hendi vegna óveðursins í febrúar s. l.

Hæstv. félmrh. fór að tala um að það væri óþarfi að tefja þetta mál með því að bera fram brtt. Ég vísa algerlega á bug ráðleggingum til þessarar hv. deildar um hvort hér eru bornar fram brtt. við lagafrv., hvort heldur það eru stjfrv. eða önnur frv. Auðvitað þarf þetta ekki að tefja málið á þann veg að það nái ekki fram að ganga. Ég mundi ætla að mál, sem er ekki veigameira en þetta mál og er í síðari deild, hafi alla möguleika til að ná fram á þessu þingi, þó að brtt. væri samþykkt, þegar það er haft í huga að stærstu mál ríkisstj., sem ætlunin er að ljúka á þinginu, eru enn þá við 1. eða 2. umr. í fyrri deild.

Ég sagði ekki í ræðu minni áðan að ég ætlaði að bera fram brtt. við þetta frv. Allt og sumt sem ég sagði og gaf hæstv. félmrh. tilefni til hans ræðu var það, að ég ætlaði að athuga það.