16.10.1980
Sameinað þing: 4. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í B-deild Alþingistíðinda. (47)

Beiðni um umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Já, herra forseti. Ég fagna því, að frumkvæði Sjálfstfl. í þessu máli, krafa okkar um að málið yrði tekið til umræðu utan dagskrár hér á þinginu í dag, skuli hafa breytt allri efnismeðferð þannig að ríkisstj. sjái sér nú ekki annað fært en að reyna að koma sér saman um einhverjar aðgerðir í málínu, því að það var sannarlega tími til kominn, eins og þetta mál hefur verið látið danka síðustu vikurnar. Ég verð að segja það, að sú hugsun hefur orðið æ þrálátari í mínum huga, bæði út af þessu máli, sem hefur stórkostlega skaðað bæði hagsmuni Flugleiða og Íslendinga erlendis og dregið úr virðingu manna erlendis á okkar ráðamönnum og þeim orðum sem þeir láta sér um munn fara, því að þar er náttúrlega ekki einu orði treystandi, hvort ekki sé nauðsynlegt að gera þá breytingu á þingsköpum, að nefndir þingsins starfi allt árið ekki aðeins á þingum, heldur einnig milli þinga, og þeim verði gefið vald til þess að kalla fyrir sig einstaka ráðherra og spyrja þá um málsmeðferð á því sem þeir eru að fjalla um, svo að þingið hafi einhverja vörn gagnvart því þegar ónýtir ráðherrar sitja í ráðherrastólunum og blaðra eitt og annað, en koma engu í verk, eins og verið hefur í þessu máli. Við skulum ekki gleyma því, að örlög fjölda fólks, hundraða, kannske þúsunda hér á landi, eru undir því komin, hvernig tekst um þetta mál. Fjöldauppsagnir hafa farið fram, og fólk hefur hikað við og ekki vitað hvort það ætti að leita sér að störfum annars staðar. Það er þess vegna algjör lágmarkskrafa gagnvart þessu fólki og einnig gagnvart hagsmunum Flugleiða og um leið hagsmunum Íslendinga, að þetta mál verði tekið föstum tökum og undinn bráður bugur að því að einhver niðurstaða fáist, því það getur ekki gengið, að verið sé að valsa með mál eins og þetta allt eftir því hver sé ráðherra í það og það sinnið. Við verðum að hafa samræmda og heilbrigða stefnu í okkar atvinnumálum, hvort sem í hlut eiga flugrekstrarmál, landbúnaðarmál eða annað.

Ég vil leggja áherslu á það, að framkvæmd þessa máls er með þvílíkum endemum, að þingið hlýtur að endurskoða starfshætti sína með það fyrir augum að það geti einnig yfir sumartímann haft eftirlit með ríkisstj., að hún á hverjum tíma spilli ekki málum eins og hér hefur gerst.

Ég vil jafnframt láta í ljós undrun mína yfir því, að hv. 4. þm. Reykv. skuli telja ástæðulaust að tala um þetta mál hér í dag. Ég man ekki betur en þessi hv. þm. hafi fyrir tæpum tveimur árum kvatt sér hljóðs utan dagskrár í desembermánuði, þegar annir þingsins voru sem mestar til þess að lesa hér á hinu háa Alþingi upp fundarsamþykkt Alþfl. og fékk til þess orðið utan dagskrár. Ekki man ég betur. Má vera að í hans huga eigi þvílíkt efni frekar erindi hingað inn heldur en málefni Flugleiða, eins og allt er í pottinn búið. Nær hefði verið fyrir þennan hv. þm. að þakka okkur sjálfstæðismönnum fyrir það, að við höfum með okkar frumkvæði knúið fram yfirlýsingu frá ríkisstj. um það, að skýrsla um málefni Flugleiða skuli lögð fram skriflega þegar á mánudaginn, og knúið það fram, að ríkisstj. sá sér ekki annað fært á þessum morgni en að reyna, þó seint sé, að taka einhverja afstöðu í málinu og samræma skoðanir sínar.

Ég vil nú spyrja hæstv. fjmrh., sem er hissa á því að stjórnarandstæðingar skuli ekki vera sammála: Hvernig hefur samkomulag hans og sessunautar hans verið í þessu máli? Hvernig hefur það verið? Er það eitthvað til að hrósa? Það hefur verið skrifuð bók um ástir samlyndra hjóna. Ég held að þær séu eitthvað svipaðar því, ástirnar milli þessara tveggja þingmanna. (Gripið fram í: Samt eru báðir framsóknarmenn.) Samt eru báðir framsóknarmenn. Voru ekki fimm framsóknarmenn kjörnir í þessu kjördæmi síðast?

Ég verð nú að segja um fsp. hv. 4. þm. Norðurl. e., Stefáns Jónssonar, að mér finnst Flugleiðamálið ekki til þess að hafa í flimtingum. (Gripið fram i) Hvað var hv. þm. að segja? (Gripið fram í.) Ég hélt, að hæstv. forseti ætti að reyna að halda uppi röð og reglu í þinginu. (Gripið fram í.) Það hefur nú eitthvað mistekist. — Ég vil einnig ítreka að hæstv. fjmrh, var búinn að gefa þá yfirlýsingu í blöðum, að frv. um þessi efni yrði lagt fram í þinginu í dag. Það eitt, að ekki skyldi hafa orðið úr því, undirstrikar enn frekar nauðsyn þess að athygli væri vakin á þessu máli hér í dag, eins og gert hefur verið.

Ég skal ekki fara út í efnisumræður um þetta mál, eins og við höfum búist við að hér gæfist tækifæri til. En ég vil að lokum aðeins láta í ljós undrun mína á því, að hæstv. forseti skyldi ekki hafa séð sér fært að verða við svo eðlilegri beiðni sem hér var borin fram. Ég vonast til þess, að í framtíðinni muni hann verða sveigjanlegri í þessum efnum og gefa nokkurn gaum að mikilvægi mála áður en hann hafnar eðlilegri beiðni um umræður í þinginu.

Og loks varðandi það atriði, að beðið hafi verið um skýrslu með þinglegum hætti. Ég man nú ekki betur en annarri skýrslu, sem Alþfl. bað um fyrir nokkrum misserum, hafi tekið alllangan tíma að skila inn á hið há Alþingi. Beiðni um skýrslu út af fyrir sig tryggir því ekki umræður um mál, frekar en maður geti búist við því, ef lögð er fram skrifleg fsp. í þinginu, að svar við henni berist eftir tvo eða þrjá daga. Slíkur dugnaður eins og ríkisstj. sýnir í þessu máli, að senda skýrslu inn á þingið nú, er einungis því að þakka, að hún óttast umræður um þetta mál á þinginu í dag og vill fá frest fram yfir helgi til þess að reyna að samræma sjónarmið sín þannig að hægt sé að leggja málið fyrir Alþingi eftir helgina.