18.05.1981
Efri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4554 í B-deild Alþingistíðinda. (4707)

312. mál, sjóefnavinnsla á Reykjanesi

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. frsm. n. hefur gert grein fyrir áliti n. um þetta frv. þar voru allir sammála og samhljóða álit er frá n. Því stend ég nú ekki hér upp til að gera neinn ágreining um það sem hv. 3. þm. Vesturl. sagði þegar hann mælti fyrir nál. Ég get líka tekið undir það sem hv. 2. þm. Reykn. sagði um þetta mál. Ég skal því ekki gerast langorður við þessa umr. Ég vék líka að því við 1. umr, og lýsti þá yfir, að við sjálfstæðismenn mundum varast að gera nokkuð sem tefði málið og vinnslu þess í n., vegna þess að hér væri um merkilegt mál að ræða og við mundum gera okkar besta þó að málið væri komið óeðlilega seint fram hér á Alþingi. Það er einmitt þetta sem n. í heild hefur gert. Það hefur verið hið ágætasta samstarf í n. og við formann sérstaklega sem ég vil hér þakka.

Það er svo, eins og hér hefur komið fram, að mál þetta á langan aðdraganda og alllanga sögu. En við getum verið sammála um að fyrst kom verulegur skriður á þetta mál þegar stofnað var Undirbúningsfélag saltverksmiðju á Reykjanesi hf. árið 1978. Það gerðist í stjórnartíð Geirs Hallgrímssonar, en undir forustu núv. hæstv. forsrh. Gunnars Thoroddsens, sem þá var iðnrh., þannig að ég held að við getum allir verið sammála um að þetta mál sé sérlega vel ættað.

Það, sem þetta frv. fjallar um, er eðlilegt framhald af því sem hefur gerst í þessum málum fram að þessu og starfi Undirbúningsfélagsins. Frv. byggir svo á athugun sem sérstök n., sem skipuð var af núv. iðnrh., hefur unnið. Á niðurstöðum þessarar n. byggir raunar hv. iðnn. þá till. sína sem felur í sér meðmæli með samþykkt frv.

Í grg. með frv. á bls. 5 er tekið fram hvað það er sem svokölluð Saltvinnslunefnd leggur til, og þarf ekki að rekja það hér. En í lokalið þeirrar upptalningar, sem þar er, er tekið fram að það skuli vera undirbúin verkhönnun á 40 þús. tonna verksmiðju og tilboða aflað í sölu á afurðum.

Við í iðnn. höfum lítið svo á, að Saltvinnslunefnd hafi ekki lagt til að 40 þús. tonna verksmiðja væri byggð fyrr en þessum skilyrðum væri fullnægt. Það liggur í hlutarins eðli, að verkhönnun verksmiðjunnar verður að eiga sér stað áður en hún er byggð, en þar er líka það skilyrði, að tilboða hafi verið aflað í sölu á afurðunum. Við lítum svo á, að þetta sé veigamikið skilyrði, sem fram kemur í málsútlistun Saltvinnslunefndar, og höfum lagt áherslu á að búa svo um í till. okkar að hér verði ekki rasað um ráð fram. Því er borin fram brtt. á þskj. 877, 5. tölul., þar sem um er að ræða ákvæði til bráðabirgða um að ekki sé heimilt að hefja byggingu 40 þús. tonna saltverksmiðju né veita ríkisábyrgð fyrir lánum eða taka lán í því skyni fyrr en tilboða hefur verið aflað í sölu afurða. Þetta þýðir það, að hér sé ekki stofnað til rekstrar sem hefur ekki grundvöll í sölu afurða. Þá höfum við í huga að það sé betur hugað að hver sá grundvöllur er, en sá grundvöllur hlýtur að vera fólginn í því, að saltfiskframleiðendur telji heppilegt að nota þetta salt í okkar saltfisksframleiðslu.

Þetta er að sjálfsögðu þýðingarmesta brtt. Hinar brtt., sem hefur líka verið hér gerð grein fyrir af hv. frsm. n., hafa sína þýðingu.

Mér hefur fyrir mitt leyti fundist frv. í einstökum atriðum og að vissu leyti að yfirbragði vera of mikið í þeim anda sem ríkið væri um of að breiða sig yfir þá starfsemi sem hér er um að ræða. Þetta kemur kannske gleggst fram í 7. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir að það sé veitt frávik frá þeim ákvæðum hlutafélagalaga að það þurfi að vera minnst 5 stofnendur og félagsmenn í hlutafélaginu. Þetta er algjörlega ástæðulaust og þjónar raunar engum praktískum tilgangi þegar það m. a. er haft í huga, að í Undirbúningsfélagi saltverksmiðjunnar núna eru um 500 aðilar. Maður skyldi ætla að það væri óþarfi að gera því skóna, að þar fengjust ekki fimm aðilar og rösklega það að því félagi sem gert er ráð fyrir að stofna samkvæmt þessu frv. Nefndin gerir brtt. við þessa 7. gr. frv. á þá leið að 7. gr. falli niður. Það er ekki ágreiningur í iðnn. um það frekar en annað. Ég aðeins minnist á þetta til að leggja áherslu á mín sjónarmið varðandi þetta atriði.

Ég get ekki heldur orða bundist um þá brtt. sem gerð er við 4. gr. frv., en samkv. 4. gr. frv. var heimild hlutafélagsins til að reisa og reka raforkuver bundin við 5 mw. stærð. Við gerum till. um að hækka þetta um helming og er það mjög í anda þess sjónarmiðs að ekki eigi að vera hlutverk eins aðila í landinu að reisa og reka orkuver sem er stærra en 5 mw. En sællar minningar klofnaði svokölluð skipulagsnefnd í orkumálum, sem hæstv. forsrh., þáv. hæstv. iðnrh., skipaði fyrir nokkrum árum, á ágreiningi um að sumir vildu binda heimild til virkjanaframkvæmda svo þröngt við eitt landsfyrirtæki, en aðrir ekki.

Ég sé ekki ástæðu til að víkja hér að fleiri atriðum. Ég legg sérstaka áherslu á að hér er ekki síst um að ræða aðgerðir sem varða þróunar- og rannsóknarverkefni í því skyni að kanna möguleika og efna til efnaiðnaðar sem við höfum ekki farið út í fram að þessu. Þetta getur gefið nokkuð mikla möguleika í framtíðinni. Þó að ég segði áðan að mér hefði að sumu leyti fundist yfirbragð þessa frv. bera of mikinn vott um afskiptasemi ríkisvaldsins vil ég láta það koma skýrt fram, að ég er samþykkur þeirri stefnu þessa frv. að það geti verið nauðsynlegt að ríkið eigi meiri hluta í þessu félagi ef þess er þörf til þess að koma því á fót. Við lítum á þetta sem þróunar- og rannsóknarverkefni sem er ekkert óeðlilegra að ríkið stuðli að í þessu formi en það gerir á margvíslegan annan hátt.