18.05.1981
Efri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4555 í B-deild Alþingistíðinda. (4708)

312. mál, sjóefnavinnsla á Reykjanesi

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ræða mín verður mjög stutt.

Ég get tekið undir fjölmargt sem form. iðnn. og frsm. hennar sagði um þetta mál, einnig það sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson og Þorv. Garðar Kristjánsson sögðu um það. Aðdragandi málsins, eins og það liggur nú fyrir, er náttúrlega miklu eldri en undirbúningsfélagið. Ekki hvarflar einu sinni að mér að rýra hlut núv. hæstv. forsrh. og þáv. iðnrh. eða fyrrv. forsrh. Geirs Hallgrímssonar að þessu máli. Það er alkunna hér í þingsölunum að upp úr samstarfi þessara tveggja stjórnmálaforingja hefur sprottið margt skrýtið og skemmtilegt. Ég tel þetta viðfangsefni, sem hér er um fjallað, til hinna skemmtilegu. Ég vil orða þetta með líkum hætti og hv. þm. Kjartan Jóhannsson: Það er spennandi viðfangsefni sem hér er lagt út í.

Ég er þeirrar skoðunar, að hér sé farið varlega og skynsamlega af stað. Ég vil minna á að í hinum fyrri áætlunum, m. a. sem lagðar voru til grundvallar þegar fjallað var um undirbúningsfélagið, var ráðgert að þarna yrði reist verksmiðja sem framleiddi 250 þús. tonn af iðnaðarsalti, en síðan yrði beitt kunnum aðferðum, sem búið var að þróa, til að framleiða úr þessu fína iðnaðarsalti stærri kristalla sem notaðir væru í matarsalt og m. a. til að salta með fisk. Hér hygg ég að hafi verið ráðgerð eðlileg uppbygging þessarar þróunarstarfsemi.

Ég tek undir það sem fyrri ræðumenn, hv. þm., hafa sagt um arðsemina, hina fyrirsjáanlegu arðsemi, sem annaðhvort má segja að sé í lágmarki ellegar þá að við verðum að meta til verðgildis þær tilraunir sem gerðar verða á þessu svæði, þá þróunarstarfsemi sem þar fer fram, þar sem farið verður út í að þróa tækni sem hvergi er annars staðar til í heiminum. Það kynni svo að fara að við yrðum að greiða eitthvað með þessari þróunarstarfsemi á Reykjanessvæðinu í sambandi við sjóefnavinnsluna, en þá mundi það kapítal aftur — og ég raunar efast ekki um að svo verði — renta sig þar og annars staðar síðar. En það hygg ég að þeir hv. þm. muni vera sammála um, sem um hafa fjallað og kynnt sér sérstaklega, að við höfum lagt of lítið fé í rannsóknir og þróunarstarfsemi á landi hér og þó sérstaklega of lítið þar sem um það er að ræða að þróa upp sérstaka tækni til að nýta sérstæð gæði landsins — tækni sem ekki hefur orðið til annars staðar eða er ekki aðgengileg annars staðar vegna þess að á hana hefur ekki verið kallað þar.

Aðeins í lokin vil ég koma að því sem hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson vék að varðandi raforkuver það sem ætlast er til að heimilaður verði rekstur á í tengslum við sjóefnavinnsluna. Þar leggur n. ekki til að heimiluð raforkunýting verði aukin um helming, það væri þá ekki nema upp í 750 mw., heldur tvöföldun hennar, upp í 10 mw. (Gripið fram í: Mér hefur orðið mismæli.) Ég vildi aðeins — af því að ég vissi að hv. þm. mundi leiðrétta þetta sjálfur — taka af honum ómakið því að prósentureikningurinn er ekki eins og þið haldið. Ég vil aðeins vekja athygli á því, hversu skemmtileg aðstaðan er þarna. Við getum reiknað með að fyrirtæki þetta geti framleitt á mjög hagkvæman og ódýran hátt þá raforku sem til rekstrarins þarf.

Svo vil ég bæta einu við um þær hugmyndir sem fram hafa komið um aukanýtingu þessa fyrirtækis, þar sem er möguleikinn á því að nýta það mikla heita vatn, þann, ef svo má segja, afsaltaða jarðsjó sem við fáum þarna upp, í tengslum við fiskrækt á svæðinu og lokatilraunir í sambandi við eldi á dýrmætum fiski í heitum jarðsjó eða vermdum jarðsjó. Einnig þetta atriði kom lítils háttar til umræðu í n., sem því miður, eins og fram hefur komið fyrr í ræðum manna, fékk ekki tóm til að eyða jafnlöngum tíma og æskilegt hefði verið til að fjalla um þessi mál. Ég vil vekja athygli á því, að ýmis mál tengd sjóefnavinnslunni á Reykjanesi eru þess eðlis að þau hljóta að koma öðru sinni til umr. hér á hv. Alþingi.