18.05.1981
Neðri deild: 99. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4559 í B-deild Alþingistíðinda. (4727)

54. mál, vitamál

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Það mál, sem hér er til umr., er frv. til l. um vitamál sem var flutt á þskj. 58, 54. mál Ed. Samgn. Ed. sendi frv. þetta til margra aðila til umsagnar og voru flestar umsagnirnar á þá leið, að engar eða mjög litlar ábendingar eða aths. koma fram í þeim. Samgn. Ed. gerði tillögur um nokkrar breytingar á frv. og fengu þær allar jákvæða afgreiðslu í deildinni.

Eftir að málið kom til Nd. barst mér frá samgrn. ljósrit af hraðskeyti frá Jóhanni Péturssyni vitaverði á Hornbjargi þess efnis, að 16. gr. frv. sé brot á kjarasamningalögunum. Í framhaldi af því barst n. einnig löng grg. frá Jóhanni Péturssyni. Um svipað leyti barst n. bréf frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja einnig um sama efni, að 16. gr. frv. bryti í bága við almenna reglu laga nr. 99 frá 1976, um kjarasamninga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Í bréfi BSRB segir m. a., með leyfi forseta:

„Umrædd 16. gr. frv. gerir ráð fyrir að lögfesta ákvæði um vinnutíma sem er samningsatriði samkv. kjarasamningalögunum, sbr. 7. gr. laganna. Af þessum ástæðum skorar Bandalagið eindregið á Alþingi að fella 16. gr. út úr frv.“

Kristján Thorlacius hafði einnig samband við n. og varð að samkomulagi að hann og Einar Ólafsson, formaður Starfsmannafélags ríkisstofnana, kæmu á fund samgn. til að skýra þetta mál. Á þennan fund kom einnig Ólafur Steinar Valdimarsson skrifstofustjóri í samgrn. Nefndin hafði einnig samband við hæstv. fjmrh. um þetta atriði. Voru allir aðilar sammála um að leggja til að 16. gr. frv. yrði felld niður.

Á fund n. kom einnig vitamálastjóri, Aðalsteinn Júlíusson, og með honum Tómas Sigurðsson. Voru þeir með ýmsar ábendingar og aths. við frv. Sumar þær breytingar, sem n. flytur, eru til komnar vegna ábendinga þeirra.

Þær brtt., sem n. flytur og eru á þskj. 844, eru þess efnis, að í frv. eins og það kemur frá Ed. er m. a. sagt að við Vitastofnun skuli starfa sérmenntaður eftirlitsmaður, ráðinn að fenginni umsögn Vitanefndar. Hann skal annast eftirlit vitakerfisins. — Þessu var breytt á þann veg, að þessi maður skal m. a. annast eftirlit vitakerfisins. Ef tími er til er því ætlast til að þessi maður geti farið í önnur störf. Þetta var ein af þeim ábendingum sem vitamálastjóri kom fram með.

Við 5. gr. er sú brtt., að í vitanefnd skuli vera sek menn, en eins og frv. kom frá Ed. eru þeir fimm, og að fulltrúa Sjómannasambands Íslands sé bætt í þessa nefnd. Enn fremur er breyting gerð á 2. málsl., að þar standi: Heimilt skal ráðh., ef ástæða þykir til, að fjölga fulltrúum í Vitanefnd. — Var Landhelgisgæslan ekki með í þeirri upptalningu, en samgn. Nd. leggur til að henni sé bætt inn í.

Í 8. gr. er sagt, eins og þetta frv. kemur frá Ed.: „Óheimilt er að setja upp ljós, sem kynnu að villa um fyrir sjófarendum.“ N. leggur til að við þetta bætist: eða önnur merki. Sem sagt: Óheimilt er að setja upp ljós eða önnur merki.

Í fjórða og síðasta lagi leggur samgn. til að 16. gr. falli niður.

Nefndin varð sammála um að leggja til að afgreiða frv. með þessum breytingum, sem ég hef lýst og eru á þskj. 844. Friðjón Þórðarson var fjarstaddur afgreiðslu málsins.