18.05.1981
Neðri deild: 99. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4562 í B-deild Alþingistíðinda. (4732)

283. mál, lagning sjálfvirks síma

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég átta mig ekki til fulls á því, hvert ábendingar hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar stefna í sambandi við þetta mál. Mér fannst vera nokkur nöldurtónn hjá honum. En ég vil láta það koma hér fram, að þó að fyrir liggi að framkvæmdir Pósts og síma hafi eitthvað verið skornar niður á s. l. ári, miðað við þau áform sem uppi voru í fjárlögum þess árs, þá leynir sér ekki fyrir neinum, sem til þekkir, að framkvæmdir Pósts og síma eru mjög miklar um þessar mundir um allt land. Það má vel vera að menn geti ekki alltaf framkvæmt allt það sem þeir ætla sér, miðað við fyrri áform, en hitt er þó aðalatriðið og stendur eftir, að það eiga sér stað feiknamiklar framfarir í símamálum um allt land einmitt um þessar mundir. Það er verið að leggja niður smástöðvar og sameina þær stórum stöðvum. Þar sem ég þekki til, t. d. í Skagafirði, þykir þetta til stórra bóta. Þjónusta við símnotendur er stóraukin, miðað við það sem áður var, og yfirleitt mikil ánægja með þessa breytingu. Slíkar breytingar eins og hér var nefnd eiga sér stað víðs vegar um land og eru undanfari þess, að sjálfvirkur sími verði á hverju heimili í landinu.

Ég vil aðeins segja um þetta frv. að ég tók þátt í að semja það fyrir tveimur árum, þá gegnandi störfum í öðru rn., samgrn., og þetta frv. var lagt fram haustið 1979. Ég held að það megi sannarlega ekki dragast að lög af þessu tagi verði sett. Málið hefur verið til athugunar hjá símanum og verið gerð mjög góð úttekt á þessu máli, en það má sannarlega ekki dragast lengur að þessu máli verði komið hellu í höfn. Ég fagna því mjög að Alþingi er um það bil að afgreiða þetta mál.