18.05.1981
Neðri deild: 99. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4563 í B-deild Alþingistíðinda. (4734)

283. mál, lagning sjálfvirks síma

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það, má ekki gleyma að fagna því, að hv. 2. þm. Norðurl. e. er kominn heim aftur og tekinn við störfum eftir að hafa fengið syndaaflausn þar í landi.

Hæstv. fjmrh. var örlítið órór yfir þeim orðum sem ég sagði áðan, ég væri með nöldurtón, eins og hann sagði. Hvílík hótfyndni orðin nú á dögum! Að menn skuli ekki allir segja já og amen við öllu sem kemur frá þessari hæstv. ríkisstj., sem er svo athafnasöm og skilningsrík og góð sérstaklega að búa til áætlanir og skera síðan allt niður, eins og hún gerir á öllum sviðum! Ég ætla að minna þennan hæstv. ráðh. á að 8. febr. 1980 stendur hann að stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. Þar segir í einni línu: „Staðið verði við fyrirliggjandi vegáætlun fyrir árið 1980–1982.“ Það voru ekki liðnir þrír mánuðir þegar búið var að svíkja þetta atriði í stjórnarsáttmálanum og það er svikið enn þá hvað snertir magnframkvæmdir vega.

Það var önnur stjórn á undan. Að vísu átti þessi ráðh. ekki sæti í henni, en hans flokkur. Lá þá fyrir áætlun frá stjórninni þar á undan um sveitarafvæðingu, fjögurra ára áætlun frá stjórninni þar á undan um sveitarafvæðingu, fjögurra ára áætlun. Nei, hún gat ekki sætt sig við fjögurra ára áætlun, sú stjórn. Hún breytti því auðvitað í þriggja ára áætlun. En það var ekki liðið árið þegar farið var að svíkja þá þriggja ára áætlun, og henni var ekki lokið fyrr en nokkrum árum eftir að vinstri stjórnin hrökklaðist frá völdum. Þetta eru dæmigerð vinnubrögð vinstri stjórna og alveg sérstaklega þegar Alþb. á sæti í þeim. Þá er alltaf farið svona að.

Þessi hæstv. ráðh. sker niður framkvæmdir til símamála þegar hann illu heilli verður samgrh. og hann sker áfram niður ásamt samgrh. framkvæmdir í símamálum á þessu ári. Og á hverju byggjast þessar framkvæmdir í símamálum? Þær byggjast fyrst og fremst á að ríkið tekur sjálft stóran hluta í tekjur, því að ríkið hefur bætt við aðflutningsgjöldum og á vinstristjórnarárunum 1971–1974 var í fyrsta skipti lagður söluskattur á símnotendur í landinu. Nei, það átti alls ekki að ganga út yfir þá, var þá sagt. Þessum söluskatti er alltaf haldið áfram. Hann var ekki til fyrir þann tíma. Það er oft léttara að koma sköttum á en að losa sig við þá. Þetta er ég að gagnrýna. Vitaskuld er allt strjálbýli ánægt með að vera tengt við sjálfvirkar stöðvar, en þá verður hið sjálfvirka samband að koma um leið. Til eru stöðvar sem núna verða lagðar niður og tengdar við sjálfvirku stöðvarnar og þar nær fólk, sem þær nýtir, ekki sambandi fyrr en sjálfvirku stöðvarnar verða opnaðar. Það þarf kannske að fara nokkra tugi km. í einstaka tilfellum. Ef allir eru ánægðir norður í Skagafirði ætla ég að upplýsa hæstv. ráðh. um að menn eru ekki eins ánægðir í Strandasýslu með þær ákvarðanir að leggja niður smástöðvarnar áður en kominn er sjálfvirkur sími. Það er af þessum sökum sem nöldurtónninn í mér er.

Sama er með sjálfvirku stöðvarnar, bæði þær sjálfar og á sumum stöðum póstafgreiðslu. Þar hefur opnunartími verið styttur verulega þannig að þeim er lokað frá föstudegi til mánudags. Ég þurfti að fá uppgefið símanúmer í kauptúni einu og ég hringdi á upplýsingar hér um daginn og bað um símanúmer sem ekki er í símaskránni vegna þess að viðkomandi var ekki fluttur á staðinn þegar símaskráin var gefin út. Ég fékk það svar að ég gæti fengið upplýsingar um þetta — ég hringdi á laugardagsmorgni — á mánudag með því að hringja á stöðina á viðkomandi stað. Þetta finnst mér ekki vera þjónusta til þess að státa af. Við gætum rætt fleira í þessum efnum og þá ekki síður á sviði póstmála en símamála.