11.11.1980
Sameinað þing: 17. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (474)

10. mál, samgöngur um Hvalfjörð

Flm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Ég skal ekki hafa um till. langt mál. Ég þakka góðar undirtektir við hana og kannske sérstaklega hv. síðasta ræðumanni.

Ég þakka hv. þm. Ingólfi Guðnasyni jafnframt fyrir stuðning við till. En ég vil taka fram að gefnu tilefni, að sú þáltill., sem ég mælti fyrir og hér er til umr., bendir ekki til þess að farið verði í neina ævintýramennsku í vegagerð. Eins og ég reyndi að gera grein fyrir og aðrir komu inn á er engin ævintýramennska fólgin í því að leita allra hagkvæmustu leiða, bæði út frá félagslegum sjónarmiðum og jafnframt hagrænum. Það eru þær götur sem við eigum að ganga til að finna út hagkvæmni þeirra mannvirkja sem við ætlum að reisa.

Ég vil taka undir það, að við hefðum fyrr átt að tjá okkur á þann veg að við vildum gera stórátak í vegagerð og samgöngumálum almennt og framkvæma samkvæmt því. Í þessu sambandi vil ég og minna á það, að flestar stórframkvæmdir, sem við höfum farið í, og sérstaklega þær sem ráðist var í á árum áður, þóttu fífldirfska á þeirri tíð. Nú er svo komið að flestar þessara framkvæmda, jafnvel allar, þykja sjálfsagðar — einnig Borgarfjarðarbrú. Þar vilja allir Lilju kveðið hafa.