18.05.1981
Neðri deild: 100. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4568 í B-deild Alþingistíðinda. (4747)

277. mál, samvinnufélög

Flm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breyt. á lögum um samvinnufélög, nr. 46 frá 13. júní 1937. Flm. auk mín er hv. þm. Árni Gunnarsson.

Þetta frv. var raunar áður flutt á 100. löggjafarþinginu árið 1978. Flm. þá var Finnur Torfi Stefánsson. Þetta frv. gerir aðeins ráð fyrir mjög einfaldri breytingu á lögum um samvinnufélög, sem fram kemur í 1. gr. frv., í þá veru að hin æðsta stjórn heildarsambands samvinnufélaga eða sambandsstjórn skuli kosin árlega beinni leynilegri kosningu sem fram fari samtímis í öllum aðildarfélögum í samvinnusambandinu. Það er gert ráð fyrir að kosningarrétt og kjörgengi eigi allir félagsmenn. Það er gert ráð fyrir að eigi færri en þrír menn skuli vera í sambandsstjórn, að stjórnin boði til fulltrúafundar og undirbúi fundarmálefni, framkvæmi fundarályktanir og annist störf milli funda, leggi fyrir aðalfund endurskoðaða reikninga sambandsins fyrir næsta ár á undan, hafi umsjón með sjóðseignum, húsum, áhöldum og öðrum eignum og gæti hagsmuna sambandsins í öllum greinum.

Fyrir þessu frv. er allítarleg grg., en það má segja að með mjög einföldum hætti er hér verið að leggja til að þessum lögum verði svo breytt að lýðræði verði aukið. Það er gert beint, en það fari ekki fram með því flókna þrepalýðræði sem viðgengist hefur þar sem í raun og veru er kosið til æðstu stjórnar á mörgum stigum.

Þetta frv. er svo seint komið til umr. að vitaskuld hvarflar það ekki að flm. að úr því sem komið er verði það afgreitt á þessu þingi, enda er tilgangur með flutningi ekki síður sá, að þetta frv. nái því að verða sent til umsagnar áhugamönnum um samvinnumálefni í samvinnuhreyfingunni í þeirri von að hugmyndir af þessu tagi fái þar jákvæðar undirtektir.

Nú er það svo, að þegar fyrir þessu frv. var talað hér fyrir tveimur árum urðu um það allítarlegar umr. Þær umr. urðu ekki síst um það grundvallaratriði hvort Alþingi hefði til þess nánast siðferðilegan rétt að skipta sér af lagasetningu af þessu tagi. Sams konar umr. hafa átt sér stað þegar hér hafa verið lögð fram lagafrv. um verkalýðsfélög. Ég nefni sem dæmi frv. til l. sem þm. Sjálfstfl. hafa ítrekað flutt um hlutfallskosningar í verkalýðsfélögum. Þá hafa menn ekki mótmælt út af fyrir sig hugmyndinni sem slíkri, heldur hinu, að það sé ekki Alþingis að ákveða slíkt með lagasetningu, heldur verði frumkvæðið í slíkum efnum að koma frá verkalýðshreyfingunni sjálfri. Þetta er auðvitað skoðun út af fyrir sig. Hins vegar ber þess auðvitað að geta, að að því er varðar verkalýðshreyfinguna eru hér í gildi lög frá 1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Sama gildir um samvinnuhreyfinguna. Hún starfar eftir samvinnulögum. Það er skoðun flm. þessa frv., að ef ljóst er að það sé almennur vilji samvinnumanna til breytinga af þessu tagi sé ekkert við það að athuga að frumkvæðið komi frá Alþingi. Sem dæmi um tillögur um slíka lagasetningu má nefna till. til þál. á þskj. 814, sem nýlega hefur verið lögð hér fram, flutt af hv. þm. Davíð Aðalsteinssyni og Guðmundi Bjarnasyni. Hún fjallar um smærri hlutafélög. Ég segi fyrir mína parta, án þess að ætla út af fyrir sig að taka afstöðu til þeirrar þáltill. eða grg. sem með henni er, að ekki er hægt að sjá neitt almennt og yfirleitt því til fyrirstöðu að Alþingi breyti hlutafélagalögum ef það sýnist vera í skynsemi- og réttlætisátt.

Það er ljóst að jafnaðarmenn hafa á síðustu árum, ekki aðeins erlendis, heldur hérlendis einnig, lagt mikla áherslu á það sem nefnt hefur verið bæði atvinnulýðræði og efnahagslýðræði. Munurinn á þessu er sá, að það fyrrnefnda, atvinnulýðræðið, fjallar meira um bein félagsmál, þ. e. beina þátttöku starfsmanna í stjórn fyrirtækja, án þess að við efnahagssviðinu sé snert. Efnahagslýðræði fjallar hins vegar um það, að í vaxandi mæli sé launafólki gert kleift að kaupa sig inn í fyrirtækin og hafa með þeim hætti áhrif á stjórn þeirra. Ég held að það sé alveg ljóst að öll samfélagsþróun, bæði í kringum okkur, ég nefni sem dæmi nýorðin kosningaúrslit í Frakklandi, og hérlendis, verður í auknum mæli í þessa átt. Eins má gera ráð fyrir að þróunin í svo risavaxinni félagasamsteypu sem samvinnuhreyfingin á Íslandi óneitanlega er, og er það á engan hátt sagt rekstrarforminu eða aðildareinstaklingum þess til hnjóðs, hlýtur að verða í þá veru í auknum mæli að hinn almenni félagsmaður hafi aukin áhrif á það sem þar er gert.

Flm. þessa frv. til l. frábiðja sér að frv. af þessu tagi sé skoðað sem fjandskapur við samvinnuformið. Sú er auðvitað alls ekki hugsunin. Hins vegar er ljóst að allnokkurrar og ég held að segja megi vinsamlegrar gagnrýni í garð samvinnuhreyfingar hefur orðið vart. Í fyrsta lagi er hún til orðin vegna þess að lýðræði þar er ekki svo mikið sem æskilegt gæti verið og æskilegt væri. Í annan stað hefur verið sagt að það er ekki allt sem sýnist að því er varðar samvinnuformið á Íslandi vegna þess að í tengslum við samvinnuformið eru fjölmörg fyrirtæki sem alls ekki eru með samvinnuformi, heldur hlutafélagaformi. Eru þá t. d. nefnd fyrirtæki í tengslum við Íslenska aðalverktaka. Og í þriðja lagi blasir sú hætta við, að hin íslenska samvinnuhreyfing — og þá skal enn undirstrikað að þetta er ekki sagt rekstrarforminu til hnjóðs með einum eða öðrum hætti — hefur fengið á sig einkenni auðhrings, og það eru þau einkenni, og nú er hér átt við einasta fræðilega skilgreiningu á því hvað auðhringur er, að það eru möguleikar á að flytja fjármagn milli deilda og skekkja þar með viðskiptalíf og samkeppnisaðstöðu.

Alla þessa þætti er auðvitað bæði rétt að fjalla um og breyta ef mönnum sýnist svo. En það er bjargföst skoðun flm. þessa frv. til l., að langsamlega skynsamlegasti vegurinn til skynsamlegra breytinga sé aukið lýðræði, sé beinni aðild óbreyttra félagsmanna að stjórn og að það gerist best með því að skipulagi þessara fyrirtækja sé þann veg háttað, eins og raunar hugmyndin var í upphafi, að hinn einstaki félagsmaður hafi sem allra mest áhrif á þróun mála.

Það má leiða að því gild söguleg rök, að samvinnuhreyfingin er í upphafi sínu auðvitað mjög lýðræðisleg hreyfing. Hún er hugmyndafræði og samsetning hugsjónar sem gerir ráð fyrir bæði jafnri efnahagslegri aðild og miklu lýðræði. Síðan hefur þessi hreyfing auðvitað vaxið feikilega og eins og vill verða í slíkum hreyfingum kemur þetta niður á virku lýðræði. Má með sanni segja að hugmyndir sem þessar, ef að lögum yrðu, mundu leiða til þess, að í þessum efnum nálgaðist þetta rekstrarform aftur upphaf sitt og lýðræði yrði beinna.

Ef farið er til annarra landa má leiða að því mörg rök, að mjög víða í stórum félagslegum hreyfingum er lýðræði miklum mun beinna en hér gerist. Í þessum efnum langar mig til að taka dæmi sem var í fréttum, mátti lesa um í erlendum blöðum fyrir mánuði eða svo. Í Ísrael eru einhver voldugustu verkalýðs- og samvinnusambönd í nokkru landi í veröldinni. Þar heita þessi samtök, sem starfa saman, Histadrut. Þeir kjósa með beinum kosningum til þings sem fer með öll æðstu völd á fjögurra ára fresti. Raunar er litið svo á í Ísrael að þær kosningar, þegar þær fara fram, það er raunar gert með listakjöri, séu einhvers konar prófsteinn á kosningar til löggjafarsamkomunnar. Þetta dæmi frá Ísrael er nefnt til að undirstrika það, að annars staðar í veröldinni er það vissulega svo að við lýði er beint lýðræði, eins og hér er verið að leggja til, í stórum félagslegum hreyfingum. Af fréttalestri af þessum kosningum í Ísrael mátti lesa að í því landi þykja slíkar kosningar gefa góða raun.

Ég hygg að það sé svo mjög víða í stórum félagahreyfingum, að upphaflega sé þar gert ráð fyrir mjög verulegu lýðræði og á fyrstu árum slíkrar hreyfingar sé slíkt lýðræði virkt. Hins vegar gerist það, og það má segja það almennt, ekki bara um samvinnuhreyfingu, heldur stórar félagslegar hreyfingar stækka og verða voldugri er auðvitað óhægara að koma slíku lýðræði við. Þróunin hefur mjög víða orðið sú, og þar má taka dæmi bæði hér af samvinnuhreyfingu og að minni hyggju verkalýðshreyfingu einnig, að í vaxandi mæli er farið út í það sem stundum er nefnt þrepalýðræði, það eru kosnir fulltrúar sem aftur kjósa fulltrúa sem aftur kjósa fulltrúa sem svo kjósa æðstu stjórn. Þetta fyrirkomulag, þó svo að á pappírnum sé það lýðræðislegt, leiðir í reynd til stöðnunar og lítilla breytinga. Og af þessum sökum er þetta lagt til.

Það er beinlínis tekið fram í lok grg. fyrir frv., að það sé ætlast til að frv. þetta verði sent til umsagnar þeirra sem beinna hagsmuna eiga að gæta, þ. e. starfsmanna og stofnana samvinnuhreyfingarinnar. Ég vil taka það fram, að ég geri auðvitað ekki ráð fyrir að þessu frv. verði hraðað á þessu þingi úr því sem komið er, en ef það næst fram að um þetta verði umr. stendur sannfæring mín til þess, að þeir, sem eiga fyrst og fremst hagsmuna að gæta, sem eru auðvitað virkir samvinnumenn, muni komast að þeirri niðurstöðu, að hér sé verið að leggja til skynsamlega breytingu í þessum fyrirtækjum sem til heilla megi horfa.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til að frv. verði vísað til félmn. og 2. umr.