19.05.1981
Sameinað þing: 84. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4601 í B-deild Alþingistíðinda. (4793)

187. mál, vegáætlun 1981--1984

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég stend fyrst og fremst upp til að þakka hv. fjvn. fyrir þá miklu vinnu sem hún hefur lagt í afgreiðslu vegáætlunar. Vegáætlun var lögð fram óvenjusnemma nú, þ. e. fyrir áramót, en engu að síður er hún ekki afgreidd fyrr, fyrst og fremst vegna þess, eins og kom fram hjá hv. frsm., að þetta er eitt af viðameiri málum Alþingis og mikil vinna sem í það fer, mörg sjónarmið sem þarf að meta og vega. Sýnist mér að hv. fjvn. hafi gert það af mikilli samviskusemi.

Ég lýsi ánægju minni með þá meginniðurstöðu sem n. hefur komist að. Hún hefur byggt á nokkuð annarri verðlagsspá á milli ára heldur en lagt var til í upphafi, og ég tel að það sé raunhæft. Hins vegar hefur þeirri hækkun verið mætt með aukinni útvegun fjármagns eftir ýmsum leiðum, eins og fram kom í ræðu hv. frsm. Þannig er endanlegt fjármagn til vegamála í heild sinni nálægt því 2.1% þjóðarframleiðslumarki sem sett var.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um þá gagnrýni sem kom fram hjá hv. þm. Lárusi Jónssyni, 3. þm. Norðurl. e. Þó vil ég segja það, að mér þótti sú gagnrýni nokkuð einhliða. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm., að stórhuga vegáætlun, sem samþykkt var 1979, stóðst ekki verðbólgunnar tönn frekar heldur en flestar aðrar framkvæmdir í okkar þjóðfélagi hafa gert í gegnum árin. Hefur engu máli skipt hvaða ríkisstjórnir hafa setið. Hann hins vegar sleppir því, að engu að síður er með þeirri áætlun, sem þá var samþykkt, verulega breytt um frá þeirri óheillaþróun sem verið hafði áður og lýsti sér í minnkandi fjármagni að raungildi til vegamála. Í upplýsingum, sem hv. þm. fékk frá Vegagerð ríkisins og voru úfbúnar, að því er mér skilst, að hans ósk, kemur m. a. fram að 1977 var fjáröflun 286.7 millj. nýkr. á verðlagi 1981 til vegamála, en á árinu 1978 323.4, 1979 326.7, 1980 388.4, en 1981 411.5. Að sjálfsögðu eru heildarútgjöld mjög svipuð, nálægt því þau sömu. M. a. tvö síðustu ár eru heildarútgjöld 395.5 millj. kr. 1980, en 411.5 1981. Þetta sýnir að sjálfsögðu nokkra aukningu, þótt ég endurtaki það sem ég sagði áðan, að ekki hafi tekist að standa við stórhuga áætlun frá 1979 og sérstaklega, eins og kom fram í þessum tölum, mjög verulega breytingu frá 1978 og 1979 til 1980 og 1981. Það er hins vegar rétt að sumu af þessari aukningu hefur verið varið til sumarviðhalds sem ég fyrir mitt leyti tel að hafi verið mjög vanrækt á undanförnum árum og hættulega. Óhjákvæmilegt var að auka fjármagn til sumarviðhalds og einnig til vetrarviðhalds vegna óvenjumikils snjóþunga nú í ár. Þó er það svo að í raungildi er fjármagn til nýbyggingar vega, brúa og fjallvega nálægt því nákvæmlega það sama og var á s. l. ári. Við þetta mætti vitanlega, ef menn vilja, bæta aukningu á fjármagni til þéttbýlisvega o. s. frv. sem gerir heildarfjármagn til nýbyggingar meira í ár en það var á árinu 1980.

Ég ætla nú ekki út í langa ræðu um þetta. Menn flytja þetta mál augsýnilega eins og þeim sýnist og er lítið um það að fást út af fyrir sig. Ég vil taka undir það, að of lítill hluti af bensíngjöldum rennur til vegamála, enda er verið að skoða það mál og ég mun athuga hugmyndir sem koma frá sérstökum starfshópi sem að því vinnur. Ég tel skynsamlegra að meiri hluti af almennu gjaldi af bensíni renni til vegamála heldur en nú er. Hins vegar er vert að geta þess, að beint framlag ríkisins eykst á milli ára úr 18.1 milljón á verðlagi 1981 í 31.7. Því má ekki heldur gleyma þegar rætt er um tekjur ríkisins af þessu. Sömuleiðis mætti bæta þar við afborgunum og vöxtum sem ríkið ber af langtímalánum til vegamála og nema á árinu 1981 um 80 millj. kr. Allt eru þetta mikilvægir þættir sem hv. þm., sem nú er genginn í salinn, sleppti af einhverjum ástæðum áðan, en auka satt að segja verulega hlut ríkissjóðs og reyndar fjármögnunar vegamála í heild frá því sem hann gat um áðan.

Hv. þm. hafa minnst nokkuð á hina svonefndu Ó-vegi, ég vil kalla þá hina lífshættulegu vegi, og þá yfirlýsingu sem ég hef um þá gefið. Ég hélt satt að segja að hv. þm. Karvel Pálmason mundi þakka mér fyrir frumkvæðið sem ég hef haft á því sviði, en það kom ekki fram. En eins og ég hef áður upplýst ritaði ég Vegagerð ríkisins þegar s. l. haust og óskaði eftir sérstakri áætlun fyrir þessa vegi með það í huga, að þetta yrði tekið inn sem sérstakur flokkur á vegáætlun. Einnig í svari við fsp., sem kom fram hér á hinu háa Alþingi í vetur, lýsti ég þessu ítarlega, fór m. a. yfir fyrstu kostnaðartölur og lýsti því þá, að ég hefði í huga að leita eftir samstöðu innan ríkisstj. um að flytja viðaukatill. um vegáætlun n. k. vetur þar sem þessir liðir yrðu sérstaklega teknir inn. Ég sé hins vegar sérstaka ástæðu til að þakka hv. fjvn. fyrir mjög góðar undirtektir undir þessa hugmynd. Ég tel undirtektir fjvn. vissulega mjög svo styrkja það að þetta fáist. Þar talar sú nefnd þingsins sem með fjármálin fer, og sýnist mér að sú ríka samstaða, sem þar hefur náðst, sé ákaflega mikilvæg. Ég vil því lýsa ánægju minni með þann stuðning við þessa hugmynd.

Ég vil svo aðeins, án þess að ég fari út í einstök kjördæmi, segja það, að ég er hins vegar ekki ánægður með þá ákvörðun meiri hl. fjvn. að reikna út hundraðshluta til almennra verkefna í stofnbrautum í tugabrotum. Ég tel það rangt, satt að segja, því að ekki er um svo mikla nákvæmni að ræða t. d. í arðsemi og fleiru að mér sýnist það fært. En að sjálfsögðu hefur meiri hl. fjvn. lokaorðíð um það.

Ég vil hins vegar segja það, að ég tel ekki óeðlilegt að skoðuð sé ný formúla eða ný aðferð til að reikna slíkt út á grundvelli mjög mikillar vinnu sem Vegagerð ríkisins hefur lagt í að afla upplýsinga um vegakerfi landsins. Ég vil hins vegar láta það koma fram, að þegar ég skoðaði þann grundvöll sýndist mér nauðsynlegt að setja vissar lágmarkskröfur, t. d. um það að bundið slitlag í hverju kjördæmi yrði aldrei undir 1/4 af stofnbrautum. Ef það lágmark væri ekki sett er t. d. hlutur Vestfjarða orðinn mjög slakur, því að þar eru tvær stofnbrautir inn í kjördæmið og því umferðarþungi hvorrar um sig fyrir neðan það lágmark sem var sett. Fleira þess háttar gæti ég nefnt, þannig að ég tel að ef við upphaflega formúlu hefði verið haldið væri hlutur Vestfjarða viðunandi.

Hins vegar vil ég upplýsa að samkv. upplýsingum, sem Vegagerðin gefur mér, skiptist fjármagn til Vestfjarðakjördæmis þannig á þrjú ár í heild sinni, að árið 1981, sem fer eftir gömlu formúlunni, fá Vestfirðir samtals 11.5% af fjármagni til framkvæmda, 1982 verður hlutfallið 12.1%, en 1983 15,1%. Þetta stafar m. a. af því, að töluvert fæst í bundið slitlag, sem er bundið lágmarki og er fyrir utan þessa formúlu, og sömuleiðis í sérverkefni, þar sem veruleg aukning verður, og vitanlega verður að líta á heildarfjármagn til kjördæmanna þegar um þessi mál er fjallað.

Herra forseti. Eins og ég hef sagt ætla ég ekki að lengja þessar umr. neitt að ráði og stóð fyrst og fremst upp til að þakka hv. fjvn. fyrir mjög mikla vinnu og lýsa ánægju minni með þá samstöðu sem náðst hefur. Ég vil að lokum segja að ég fagna einnig þeirri viðleitni sem fram hefur komið hjá nm. til að ná samstöðu um langtímaáætlun í vegamálum. Ég tel slíka langtímaáætlun mjög nauðsynlega, og mér er ljóst, að þar hefur verið unnið vel að því að ná slíkri samstöðu. Ég segi fyrir mitt leyti að ég er tilbúinn að teygja mig langt með mína till. til þess að samstaða geti orðið. Mér er jafnframt ljóst að hv. frsm. minni hl. hefur unnið að því að svo verði, og vona ég að það takist.