19.05.1981
Sameinað þing: 84. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4607 í B-deild Alþingistíðinda. (4795)

187. mál, vegáætlun 1981--1984

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það verður að játa að þegar brtt. um skiptingu á vegafé eru komnar til umr. hér í þingi má segja að það sé búið að ganga frá vegáætluninni, svo þetta er naumast annað en formsatriði sem hér fer fram, enda sést það nú á því, að þótt menn telji ekkert mál veigameira en vegamál og þurfi að leggja meira til, að undanskildum orkumálum, þá koma örfáir þm. hér inn og staldra þá við aðeins augnablik. Það verður sennilega að líta svo á að það sé búið að afgreiða vegáætlunina, það séu nánast sagt málamyndaumræður sem hér fara fram.

Hv. fjvn. hefur haft það hlutverk æðilengi að skammta til hinna ýmsu kjördæma ákveðið fjármagn, og síðan er sá háttur hafður á, að þm. í hverju kjördæmi um sig skipta þessu fjármagni innan kjördæmisins. Þessi regla hefur verið endurtekin nú. En það kom fram í máli eins fjvn.-manns, hv. 6. landsk. þm., að hann hafði gert sérstaka bókun og greitt atkvæði gegn þeirri reglu sem. ákvörðuð var með samþykkt, að mér skildist, af öðrum fjvn.-mönnum gegn hans atkvæði. Hann sýndi okkur þm. Vestf. þessar till. og við lögðumst alfarið gegn þeim og ég tel að það eigi að breyta þessu.

Ég skal taka það fram og ekki draga fjöður yfir að samvinna á milli þingmanna og Vegagerðar hefur verið mjög góð og vegamálastjóri og fulltrúar Vegagerðarinnar hafa jafnan verið reiðubúnir að gefa þm. hverjar þær upplýsingar sem þeir geta í té látið og hafa staðið að tillögugerð og unnið með þm. í sambandi við skiptingu á vegafé. Það er að mörgu leyti til fyrirmyndar hvað þessi stofnun hefur unnið um langt árabil náið með Alþingi í sambandi við skiptingu á vegafé. Hitt er ekki eins sjálfsagt, hvorki að Vegagerð ríkisins né aðrar stofnanir ríkisins eigi að búa til tillögur og formúlur um skiptingu á því fjármagni sem á að fara til viðkomandi málaflokks. Ég tel t. d. alls ekki rétt að Vita- og hafnamálastjórn leggi fram ákveðnar formúlur um skiptingu á því fé sem á að fara til hafnarmála í landinu — eða Póstur og sími eða hver önnur stofnun og þar er að mínum dómi Vegagerð ríkisins ekki undanskilin. Ég tel líka fráleitt að þessum reglum sé lítið breytt, jafnvel áratugum saman, nema til þess að reyna svolítið að hafa af einstökum kjördæmum vegna þess að það eru stífir menn fyrir önnur kjördæmi í viðkomandi nefnd.

Við gengum til þessa leiks eftir að fá þessa formúlu og þessa forskrift fjvn. og skiptum eðlilega og samviskusamlega því fjármagni sem okkur var ætlað, þrátt fyrir það að við erum mjög óánægðir með þessa ákvörðun fjvn. og teljum rétt að hér verði gerð breyting á. Ég tel að ráðh. eigi að beita sér fyrir því, að það verði óháð nefnd sem geri tillögur um nýjar reglur um skiptingu á vegafé. Það á ekki að þýða að mínum dómi að hvert kjördæmi um sig eigi alltaf að fá sama eða svipað hlutfall. Það er ráðist í stórframkvæmd í þessu kjördæminu í eitt, tvö, þrjú eða fjögur ár. Þá má gjarnan minnka framlög annarra á meðan á því stendur. En einhvern tíma kemur röðin að því, að allir landshlutar fá í stóraukið framlag til verklegra framkvæmda.

Það vantar ekki að það er talað hér ár eftir ár af stjórnvöldum um nauðsyn þess að auka verulega framlag til vegamála. Menn hafa talað, eins og kom fram í máli talsmanns minni hl. fjvn. hér í dag, um það að brjóta í blað í vegamálum, bæði á árinu 1979 og 1980. Útkoman hefur orðið sú, að í vegamálum hefur niðurskurður átt sér stað að framkvæmdamætti, bæði á gildandi vegáætlun í ár um tæpar 18 millj. nýkr. að því er varðar nýbyggingarfé til vega og brúa og nokkur samdráttur í vegaframkvæmdum frá því á s. l. ári. Það munar um minna en 1800 millj, gkr. í sambandi við nýframkvæmdir í vegamálum.

Á s. l. ári tók stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins að frumkvæði forstjóra hennar ákvörðun um að lána einn milljarð gkr. til vegagerðar og í ár rúmlega tvo milljarða. Á verðlagi vegáætlunar á þessu ári jafngildir þetta fjármagn þessi tvö ár nálega 3.5 milljörðum gkr. Ef þetta fjármagn hefði ekki komið frá Framkvæmdastofnun ríkisins hefði ekki bæst við vegáætlun þessi tvö ár, þá væri niðurskurður upphaflegu áætlunarinnar þeim mun meiri, eða í staðinn fyrir um 11 milljarða gkr. 14.5 milljarða gkr. Þessu fjármagni var ekkert fagnað af sumum mönnum á s. l. ári. Þeir fúlsuðu við því, bæði fjmrh. og samgrh. Þeir eru núna fyrst að taka við sér og kunna að meta það. En það hefur tekið þá heilt ár að skilja það til hlítar. Ef þetta hefði ekki verið gert væri nú ljóta ástandið í þessum málum og ferlegur niðurskurður. En það er alltaf talað á hverju einasta ári um langtímaáætlanir og þeim er alltaf frestað. Ef menn meina það að auka framlög til vegamála átti það að koma til framkvæmda helst á þessu ári, en í allra síðasta lagi á árinu 1982. Það er enn þá talað um að bíða og bíða, en alltaf talað um nauðsyn þess að auka þessar framkvæmdir og bæta samgöngur í landinu.

Það ríkir ákaflega mikil óvissa um fjáröflun til vegamála. Það vantar ekki að það er reiknað með annarri fjáröflun umfram bensíngjald, þungaskatt og gúmmígjald á næsta ári upp á rúmlega 190 millj., á árinu 1983 um 192 millj. og á árinu 1984 rúmlega 193 millj. En það er ekki vitað á hvern hátt eigi að afla þess. Ætli það verði ekki, ef sama stjórn verður eða svipuð stjórn með svipað hugarfar, gripið til þess að auka það með lánsfjáröflun eins og gert er á þessu ári því að lánsfjáröflun er þegar ákveðin um 110 millj., en óvissa ríkir aftur um það sem á vantar samkvæmt þessu, rúmlega 30 millj. kr.

Hæstv. samgrh. var dálítið leiður yfir því, að hv. landsk. þm. þakkaði honum ekki fyrir bréf sem hann hafði skrifað varðandi hina svonefndu Ó-vegi: Ólafsfjarðarmúla, Ólafsvíkurenni og Óshlíð. Ég sé nú ekki ástæðu til þess að ávíta 6. landsk. þm. fyrir að hafa ekki flutt einhvern þakkaróð til hæstv. ráðh., og ég ætla ekki að flytja hann hér nú heldur. Hér er um eitt bréf að ræða. Frumkvæðið var ekki ráðherrans. Frumkvæðið er fyrst og fremst fólksins sem býr við þessar samgöngur, sem býr við þær samgöngur að þurfa að aka Óshlíðarveg, Ólafsfjarðarmúla og Ólafsvíkurenni. Síðan eru það þm. þessara kjördæma sem hafa tekið þessi mál upp og unnið að undirbúningi þessara mála og að því leyti til á samgrh. þakkir að hann hefur verið einn í hópi þeirra þm. sem hafa unnið að þessu. En ég ætla að láta bíða sérstakar þakkir til hans þangað til hann hefur komið í gegnum ríkisstj. á næsta hausti að það verði tekið upp og útvegað fjármagn, lagt svo fyrir Alþingi, til þess að fara í framkvæmdir þegar á næsta ári. Þá ætla ég að þakka hæstv. samgrh. þegar hann hefur komið því í gegn, en ekki fyrir þetta eina bréf sem er prentað hér með tillögum meiri hl. fjvn., því að þar gerði hann lítið annað en að lesa það fyrir og skrifa nafnið sitt undir. Meira er ekki komið enn.

Ég vil taka það fram í sambandi við þessa vegi, að þar er gífurlega sótt að okkur þm. að fara í framkvæmdir. Ástandið á þeim vegi, sem ég þekki þarna best, Óshlíðarvegi, er geigvænlegt. Við höfum ekkert framlag til hans á þessu ári, ekki í þessi verkefni, og m. a. s. eru þeim vörnum, sem gerðar voru ofan vegar fyrir nokkrum árum, ekki haldið við og verður ekki hjá því komist að það verði gert af viðhaldsfé á þessu ári. Það er ábyrgðarhluti fyrir Vegagerðina, fyrir samgrn. og fyrir Alþingi að það sé ekki hægt að halda því við að hreinsa þessar rásir fyrir ofan veginn nokkurn veginn. Ef það skeður vegna þess að þær eru orðnar fullar af grjóti og aur, að steinar komi í bíl og valdi stórslysi, þá verður strax rutt úr þessum rásum eftir að slys hefur hent. En það er meira atriði að gera það áður og bjóða ekki þeirri hættu heim.

Ég tel fyrir mitt leyti að þörfin á hina tvo staðina, sem ég hef talað um, sé ekki jafnbrýn, og það er sameiginlegt mál okkar þm. allra, þó það sé ekki í eigin kjördæmi, að sjá einnig til með öðrum og skilja þarfirnar þar. Ég met það mikils, að þingmenn allra þessara kjördæma, aðrir þm. og fjvn.-menn og hæstv. ráðh. skuli hafa tekið upp og tekið undir þessa þörf og í reynd heitið því að útvega fjármagn. Það verður fylgst með hvaða till. kemur frá ríkisstj. og það mun verða þrýstingur á hana ef eitthvert hik verður, ekki eingöngu frá okkur sem erum í stjórnarandstöðu, heldur ekkert síður frá þeim þm. í þessum kjördæmum sem ríkisstj. styðja.

Ég met líka mikils þann áfanga sem náðst hefur í sambandi við sérstök verkefni, og ég tel að mikilvæg ákvörðun hafi verið tekin í sambandi við tengingu Inndjúps með því að taka ákvörðun um lagningu vegar yfir Steingrímsfjarðarheiði og til Hólmavíkur, eða réttara sagt frá Hólmavík að Laugabóli í Nauteyrarhreppi. Hér er reiknað með allvænum fjárframlögum á þessu ári og til ársins 1984, þó Vegagerðin reikni ekki með öðru en að sá vegur verði orðinn akfær í lok áætlunartímabilsins, en ekki fullfrágenginn.

Það kemur oft fram hjá þingmönnum, einkum í þéttbýli, sem lítið hafa komið nálægt þessu, ég tala nú ekki um frá ýmsum spekingum úti um borg og bæ, að það sé röng stefna og heimskuleg að skipta fjármagni til vegagerðar í marga staði, það eigi helst að vera eitt eða tvö verkefni á einhverjum einum stað í heilu kjördæmi, jafnvel eitt eða tvö ár í einu, og skipta sér ekkert af öðru. Þetta sýnir auðvitað að þetta fólk veit ekki nokkurn skapaðan hlut hvað það er að segja. Í fyrsta lagi er hér nm að ræða að þörfin fyrir verkefni er víða, tækin eru staðsett í flestum byggðarlögum og mannafli Vegagerðar og ýmissa annanna er þar fastur. Bifreiðaeign manna í ákveðnum byggðarlögum er að sumu leyti miðuð við þessa vinnu og eign ýmissa annarra tækja. Með því að fara í jafnvel eitt stórt verkefni er verið að kippa atvinnugrundvellinum undan atvinnu fjöldamargra manna. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því, að það verður að skipta þessu fjármagni eftir þessum reglum. Þetta er sífellt verið að agnúast út í þingmenn fyrir, en það hefur ekki áhrif á þm. almennt því að þeir vita vel hvað þarf að gera og hvað verður að gera.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri. Ég er ánægður með það sem er vel gert. Ég veit að það er alltaf erfitt verk fyrir fjvn. að taka slíka ákvörðun sem hún gerir. Við erum, þessir þm. a. m. k., ákaflega óhressir yfir þessari ákvörðun núna um skiptingu á milli kjördæma, þó að við getum aftur á margan annan hátt þakkað þessum mönnum öllum, bæði minni hl. og meiri hl., fyrir þeirra störf. Þau eru eiginlega oftast nær vanþakklát, en stendur oftast á þakklætinu. Ég endurtek það, að ég er eftir atvikum ánægður með það framlag, sem fer í tengingu þessa kjördæmis við akvegakerfi landsins, og ég er sömuleiðis mjög ánægður með samstarfið við Vegagerð ríkisins. Ég vildi óska þess að jafngott samstarf væri við allar aðrar ríkisstofnanir.