19.05.1981
Sameinað þing: 84. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4610 í B-deild Alþingistíðinda. (4796)

187. mál, vegáætlun 1981--1984

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Mig langar aðeins að koma hér inn á örfá atriði í sambandi við þetta stóra mál. Ég get ekki stillt mig í leiðinni um það að minnast aðeins á ræðu hv. 1. landsk. (SigurlB), sem talaði hér vítt og breitt áðan, og mér fannst einhvern veginn að ég væri að hlusta á erindi um daginn og veginn þegar ég hlustaði á hv. þm., því að þetta var svo svipað því sem maður hefur heyrt stundum einmitt í þessum dúr frá hv. þm. á þeim vettvangi.

Ég vil segja það í sambandi við það sem hv. 1. landsk. þm. var að senda okkur sumum dreifbýlisþingmönnum hér kveðju sína um viss málefni að því er varðar uppbyggingu á landsbyggðinni, að ég vil benda hv. þm. á það, að ég held að a. m. k. meðan þm. situr hér inni á Alþingi er ég hræddur um að hv. þm. sé í glerhúsi í þingflokki Sjálfstfl., þannig að hún ætti að endurskoða afstöðu sína nær sér áður en hún sendir okkur tóninn.

Ég vil segja það í sambandi við þessa vegáætlun sem hér er til lokaafgreiðslu, að ég er fyllilega sammála því sem hér kemur fram. Ég mundi að sjálfsögðu eins og aðrir kjósa meiri fjármagn, en ég vil þó taka það fram, að það er mín skoðun að vegáætlunin núna haldi sínu raungildi miðað við árið 1980 og vel það eins og tölur sanna. Og ég tel að við getum ekki verið að þrátta um það, hvaðan fjármagnið kemur. Að sjálfsögðu er mjög jákvætt að þeir, sem eru í stjórn Byggðasjóðs, skyldu vera sammála um auka framlag Byggðasjóðs til vegagerðar. Ég er ánægður með það, en tel að það séu engir sérmerktir peningar. Þeir fara í þetta sem við erum allir sammála um að sé eitt af stærstu málum þjóðarinnar: að koma vegakerfinu áfram. Og þetta er að mínu mati, eins og hefur raunar komið fram hjá fleirum, eitt stærsta byggðamálið í landinu: að auka vegagerðina. Það eru allflestir sammála um þó að einstaka hjáróma rödd heyrist að vísu.

Ég ætlaði ekki að koma hér einn á langtímastefnu í vegamálum sem hér á eftir að koma til umr. á þinginu. En vegna þess að hér hefur verið farið inn á þessi mál og hv. 1. landsk. virtist taka það sem það væri hér til umr. með vegáætluninni, þá þykir mér rétt að koma aðeins inn á þetta mál.

Ég vil leggja áherslu á það, að það er mjög mikilvægt að mínu mati að þm. geti komið sér saman um langtímastefnu í vegagerð. Ég ætla ekki að fara að gera lítið úr till. sjálfstæðismanna sem er til meðferðar í fjvn. ásamt till. ríkisstj., síður en svo: En ég held að það sé ekkert vafaatriði, og þeir vita það ósköp vel sjálfir sem að henni standa, að hún er að mörgu leyti óraunhæf og þarf að samræma þar vissa þætti raunveruleikanum. Ég er alveg viss um það, að miðað við þær umr., sem fram hafa farið í fjvn., er fullur skilningur fulltrúa Sjálfstfl. í nefndinni á að nauðsynlegt sé að ná samstöðu um málið. Eitt eru menn algjörlega sammála um, að það sé grundvallaratriði í sambandi við stefnumótun eða framtíðarstefnu í vegamálum, að fastákveðið sé visst lágmark framkvæmda árlega sem ekki verður farið niður fyrir í sambandi við vegagerð í landinu.

Ég skal ekki fullyrða á þessu stigi að það náist samkomulag um þessa stefnu, en ég vil vona að svo verði. Við erum tilbúnir að standa að hækkun á því lágmarki sem þarna er tilgreint. Það, sem hv. 1. landsk. var að segja um þær hugmyndir sem hún hafi fengið í hendur, er engan veginn endanleg till. til samkomulags, það er viðræðugrundvöllur, og mér finnst að við eigum a. m. k. enn, í dag og á morgun, að reyna að ná víðtækri samstöðu um þetta mál.

Ég vil aðeins koma hér inn á það sem hefur verið gagnrýnt af hv. þm. Vestf. í sambandi við þá ákvörðun fjvn. að fara að till. Vegagerðarinnar í sambandi við skiptingu milli kjördæma um stofnbrautirnar. Það er að vísu rétt, að þetta getur verið umdeilanlegt atriði. En ég get ekki fallist á að Vestfirðingar hafi farið sérstaklega illa út úr þessari tilhögun. Nýja reglan, sem var tekin upp með samstöðu í fjvn., að fara svo nákvæmt að nota aukastafina svokallaða í staðinn fyrir að hækka upp eða lækka, breytir ekki nema um hálft prósent, 0.5%, stöðu Vestfirðinga frá því sem þeir höfðu eftir eldri reglunni sem gilti fyrir árið 1981. Þeir fara úr 16% niður í 15.5 í stofnbrautum. En þeir minnast ekki á það, að í þjóðbrautunum höfðu þeir á eldra grunninum 9%, en fara upp í 11.5%. Ég get ekki almennilega fundið annað út en að einmitt Vestfirðir, ef á að tala um hagnað í þessu tilfelli, það kjördæmi hagnist á þessu frekar en hitt. Ég ætla ekki að ræða þetta frekar. Það er að sjálfsögðu eðlilegt að þessi regla sé til endurskoðunar oftar en einu sinni. Hér er ekki nein algild regla sem á að festast um langa framtíð, en einhvers staðar verður viðmiðunin að vera til þess að Vegagerðin geti unnið þá útreikninga sem hún þarf að sjá um.

Ég vil aðeins koma hér inn á hina svokölluðu Ó-vegi sem hér hefur verið talað um. Ég vil vísa í umr. sem urðu um þetta mál hér í hv. deild fyrr í vetur þegar var verið að ræða um þessa lífshættulegu vegi. Það hefur engin rödd komið hér fram, hvorki frá almennum þm. né ráðh., um annað en að sjálfsagt væri að meðhöndla þetta verkefni á sérstakan hátt. Ég fagnaði því í vetur við umr. þegar var verið að lýsa því vandræðaástandi, sem hefur skapast á þessum vegum öllum, og þeirri lífshættu, sem þarna er, þegar hæstv. samgrh. lýsti því yfir, að hann væri sammála því að taka þetta sem sérstakt verkefni í vegagerð og finna möguleika á því að það yrði fjármagnað á sérstakan hátt fyrir utan vegáætlunina sjálfa. Það var þess vegna mjög mikilvægt að ná um þetta samstöðu, og ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram hjá öðrum ræðumönnum, að ég tel mjög þakkarvert að það skuli hafa náðst hér bæði í fjvn. og hjá Vegagerðinni algert samkomulag um það, hvernig standa skuli að þessu máli. Það er í gangi rannsókn og tillögugerð um það, hvernig skuli byggja upp eða koma þessum vegum í það form að þeir geti verið öruggir. Niðurstöður eiga að liggja fyrir í haust. Það hefur verið gerð gróf kostnaðaráætlun um hvað þetta muni kosta, eins og hér hefur komið fram. Það er talað um 200 millj. nýkr. Vegagerðin hefur gert grófa áætlun um þetta og það stendur til að nákvæmar áætlanir um þessa vegi muni liggja fyrir á næsta hausti. Það var þess vegna mjög mikilvægt að fá fram ákveðna stöðu í málið, bæði frá fjvn. og frá hæstv. samgrh. eða ríkisstj. Fjvn. var samdóma um þetta mál, eins og kemur fram í nál., og sömuleiðis er það bréf, sem fylgir með hér frá hæstv. samgrh., það bréf tekur af öll tvímæli um það, hvernig unnið verður að þessu máli, sem ég þakka sérstaklega. Ég læt mér ekki detta í hug að það muni koma til þess, að hæstv. ríkisstj. standi ekki einhuga að því að gera þær ráðstafanir á hausti komanda sem til þarf, þ. e. breytingu á vegalögum og ráðstafanir til þess að útvega sérstakt fjármagn til framkvæmda í þessa vegi strax á árinu 1982. Við, sem eigum hér hlut að máli sem þm. þeirra kjördæma sem þessir vegir eru í, munum örugglega vera samstiga í því að sjá um að við það verði staðið, og mér dettur ekki í hug að taka undir þær efasemdir, að það komi til að það verði ekki framgangur í þessu máli sem að er stefnt. Svo mikilvægt er það fyrir þá landshluta, fyrir þau byggðarlög sem þarna eiga hlut að máli, og þarf ekki að lýsa því hér frekar. Það var gert allrækilega á liðnum vetri.

Ég þarf í raun og veru ekki að eyða tíma þingsins í frekari umr. um þetta mál. Ég vil endurtaka það sem ég sagði hér við 1. umr. um vegáætlunina fyrr í vetur, að ég tel mjög mikilvægt að Vegagerðin fái aukið fjármagn til þess að auka sína tæknimöguleika til að standa að vegagerð, og ég tel að rannsóknaþáttur í sambandi við stór verkefni í vegagerð þurfi að aukast. Ég tel að í þeirri vegáætlun, sem hér er, og þeim áformum, sem fram undan eru, séu menn sammála um að þennan þátt þurfi að auka, það þurfi að efla vegagerðina. Og af því tilefni finnst mér ástæða til þess að láta það koma fram hér, að ég tel sjálfsagt í sambandi við stór verkefni í vegagerð, að Vegagerðin þurfi að hafa möguleika til þess að bjóða út eða auka útboð í ýmsum verkefnum sem hún hefur með að gera.

Ég tel ástæðu til þess að láta koma fram mína skoðun hér í sambandi við gagnrýni á meðferð ríkisfjármála í sambandi við skatta á umferðina. Ég er alveg sammála þeirri gagnrýni að mörgu leyti. Ég tel að hlutdeild umferðar, þ. e. veganna, í hinum ýmsu gjöldum, eins og t. d. bensíngjaldinu, þurfi að auka, og ég tel ástæðulaust í raun og veru að það sé ekki hægt að ná samstöðu um það. Ég veit að hæstv. samgrh. hefur þegar lagt á það mikla áherslu, að þessu verði breytt, og ég tel að í þeirri stefnumörkun, sem við erum að vinna að, eigi þetta sjónarmið að vera undirstrikað, og ég vil vinna að því.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa þessi orð öllu fleiri, aðeins endurtaka að ég er tiltölulega ánægður með þessa vegáætlun. Ég tel að við séum að þokast í rétta átt. Ef við berum gæfu til að vera sammála um að marka nú á þessu þingi, áður en því lýkur, langtímastefnu í vegamálum sem felur í sér augljósa aukningu og augljósa framför á þessu sviði, þá erum við á réttri leið og þá er ég ánægður.

Ég vil svo að lokum þakka fjvn. og ekki síst formanni hennar fyrir ágætt samstarf um þessa vegáætlun og einnig vegamálastjóra og hans starfsmönnum fyrir sérstaklega góða fyrirgreiðslu. Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram, að Vegagerðin hefur sérstöðu að mínu mati miðað við margar aðrar opinberar stofnanir, að þar er miklu fljótar hægt að fá ýmsar upplýsingar heldur en hjá öðrum stofnunum. Þetta ber að þakka og þetta sýnir að Vegagerðin er á réttri leið. Þess vegna vil ég stuðla að því að Vegagerðin verði efld, því að það þarf að gera um leið og við erum sammála um að auka verkefni hannar á öllum sviðum. Ég vona að samþykkt þessarar vegáætlunar nú sé fyrsta skrefið í því að gera stórátak í vegagerð sem er stærsta byggðamál á Íslandi.