19.05.1981
Sameinað þing: 85. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4621 í B-deild Alþingistíðinda. (4803)

Almennar stjórnmálaumræður

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þing það, sem nú er að ljúka, verður síður en svo talið til merkari þinga. Ríkisstj. hlýtur eðli málsins samkvæmt að hafa forustu í þingstörfum og afgreiðslu mála, en þessa forustu hefur algerlega skort af hálfu ríkisstj. Komið hefur í ljós enn betur en áður að málefnaleg samstaða lá ekki til grundvallar myndun núv. ríkisstj., heldur sundrungariðja. Það var ekki samið um lausn vandamála, heldur setu í ráðherrastólum.

Á þessu þingi hafa andstæðurnar innan núv. ríkisstj. komið æ betur í ljós, andstæður sem lama hana í störfum og gera henni ókleift að taka nokkra ákvörðun eða móta og fylgja fram markvissri stefnu í þeim stórmálum sem bíða afgreiðslu. Gleggsta dæmið er orkufrv, ríkisstj. sem fyrst er lagt fram tíu dögum fyrir áætlaðar þinglausnir og er þá hvorki fugl né fiskur vegna þess að ráðh. og stjórnarsinnar hafa ekki komið sér saman. Í orkufrv. ríkisstj. er engin ákvörðun tekin, ríkisstj. hefði eins getað lagt fyrir Alþingi skýrslu um stöðu orkumála. Ráðh. voru búnir að lofa að í frv. væri tekin afstaða til röðunar framkvæmda, en nú er þeirri ákvörðun frestað þar til Alþingi kemur aftur saman. Í frv. er slegið úr og í hvort Landsvirkjun eða Rafmagnsveitur ríkisins skuli vera framkvæmdaraðilinn. Og í orkufrv. er engin stefna mörkuð í stóriðjumálum sem þó eru forsenda viðamikilla orkuframkvæmda.

Annað dæmi um úrræðaleysi og andstæður í ríkisstj. og á Alþingi kemur skýrt í ljós á þriggja til fjögurra mánaða fresti við útreikning verðbóta á laun og ákvörðun fiskverðs. Í hvert skipti lýsa talsmenn Framsfl. ýmist yfir því, að eitthvað verði að gera, eða aðgerðir, ef einhverjar eru, séu ekki fullnægjandi nema frekari ráðstafanir komi til, en Alþb.-menn telja allt vera í lagi og yppta öxlum. Þessar gagnstæðu yfirlýsingar sýna glögglega að innan ríkisstj. er engin samstaða í efnahagsmálum.

Þriðja dæmið um andstæður innan ríkisstj. má nefna stefnuna í verðlagsmálum. Bæði Gunnar Thoroddsen á fundi vinnuveitenda og Tómas Árnason á fundi Kaupmannasamtakanna hafa lýst því yfir, að þeir væru fylgjandi frjálsræði í verðlagsmálum. Þrátt fyrir þessar yfirlýsingar eru sett á verðlagshöft sem að dómi atvinnurekenda eru einhver þau hörðustu sem um getur. Ástæðan er auðvitað sú, að Alþb. vill ströng verðlagshöft, sem draga allan kraft úr atvinnurekstrinum, og sjónarmið tveggja aðila af þremur í ríkisstj. ná ekki fram að ganga. Kommúnistar ráða ferðinni.

Fjórða dæmið um andstæður innan ríkisstj. er flugstöðvarmálið. Ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl. gerði sérstakt samkomulag við ríkisstj. Bandaríkjanna um byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli og aðgreiningu varnarsvæðis og almennrar flugstarfsemi. Miðstjórnarfundur Framsóknar samþykkti mjög ákveðna ályktun um nauðsyn flugstöðvarinnar. Ganga má út frá því, að meiri hluti Alþingis sé málinu fylgjandi, en þegar á þing er komið greiða framsóknarmenn með einni undantekningu og ráðh. úr röðum sjálfstæðismanna atkv. gegn lánsfjárheimild til stöðvarinnar. Skýringin er: Alþb. er á móti og hótar stjórnarslitum ef ekki er farið að vilja þess. Og í málefnasamningi ríkisstj. fórna framsóknarmenn og sjálfstæðismenn sjálfræði sínu. Ákvörðun um byggingu nýrrar flugstöðvar verður ekki frestað lengur en til afgreiðslu fjárlaga næsta árs, ella fellur mótframlag Bandaríkjanna til flugstöðvarinnar úr gildi og fram hefur komið á Bandaríkjaþingi áhugi á að nota peningana í annað.

Ég hef nefnt hér fjögur dæmi um andstæður innan ríkisstj. sem valda því, að ríkisstj. er ekki starfhæf. Hvort heldur litið er til orkumála, efnahagsmála, verðlagsmála eða utanríkismála liggur afturhald Alþb. eins og mara á allri framþróun. Þessi valdaaðstaða Alþb. innan ríkisstj. er með ólíkindum. Skýringin fékkst í vetur þegar upp kom að gerður hafði verið skriflegur leynisamningur sem veitti hverjum hinna þriggja stjórnaraðila stöðvunarvald um framgang allra meiri háttar mála. Nú þarf sá samstarfsaðili í ríkisstj., sem andvígur er máli, ekki að gera upp við sig, hvort hann segi sig úr ríkisstj. til að stöðva málið eða fylgja andstöðu sinni eftir, heldur verða þeir, sem vilja að mál nái fram að ganga, en eru beittir slíku stöðvunarvaldi, að rjúfa stjórnarsamstarfið.

Hér er heilbrigðum þingræðis- og lýðræðisreglum snúið við, auðvitað að kröfu kommúnista. Í skjóli neitunarvalds síns geta þeir áfram hreiðrað um sig í ráðherrastólunum og aflað sér valds og áhrifa langt umfram það kjörfylgi sem þeir hafa með þjóðinni. En það verður æ ljósara, að Alþb. er að einangrast málefnalega frá öðrum stjórnmálaöflum í landinu, og það hlýtur að vera tímaspursmál, hvenær lýðræðissinnar taka höndum saman og létta af þjóðinni því oki sem fylgir stöðvunarvaldi kommúnista.

Kjósendur og landsmenn allir eiga kröfu til þess, að flokkar, frambjóðendur og þingmenn séu sjálfum sér samkvæmir í orðum og athöfnum fyrir og eftir kosningar. Fyrir kosningarnar 1978 tók Alþb. vígorðin „samningarnir í gildi“ og „kosningar eru kjarabarátta“ í sína þjónustu. Við stjórnarmyndun 1978 og 1980 skýrði Alþb. frá því, að það tæki þátt í ríkisstjórnum, þótt þær hefðu ekki brottför varnarliðsins á stefnuskrá sinni, til þess að tryggja kaupmátt launa. Nú liggur fyrir að það skortir nálega 20% í kaupmætti að samningarnir frá 1977 séu í gildi. Kaupmáttur launa hefur farið minnkandi á þriðja ár sem Alþb. hefur setið í stjórn, og sér ekki fyrir endann á áframhaldandi rýrnun kaupmáttar undir stjórn þess.

Framsfl. hljóp frá efnahagsstefnu sinni strax eftir kosningar 1978 og hét að setja samningana í gildi, sem framsóknarmenn höfðu áður sagt að væri ógerlegt. Síðan hafa framsóknarmenn ekki haft við að kyngja eigin orðum og telja verðlagið upp í staðinn fyrir niður.

Sjálfstæðismenn í núv. ríkisstj. lögðu helst áherslu á ásamt öðrum sjálfstæðismönnum fyrir kosningar 1979 að vinna bug á verðbólgu, afnema skatta vinstri stjórnarinnar og hefja nýja sókn í orku- og iðnaðarmálum.

Á s. l. ári, fyrsta starfsári ríkisstj., varð verðbólgan nær 60% eða álíka og 1979. Ekki voru það efndir á orðum fyrir kosningar. Gunnar Thoroddsen á sjálfsagt eftir að segja hér á eftir, eins og hann sagði í sjónvarpi um daginn, að á þessum fyrstu fjórum mánuðum ársins 1981 hafi hækkun vísitölunnar miðað við heilt ár orðið um 32%, og þegar hún hefur s. l. tvö ár verið nær 60% hvort árið er þetta náttúrlega stórt spor í rétta átt og við munum auðvitað stefna áfram á þeirri braut.

Ákaflega væri það ánægjulegt ef treysta mætti þessum orðum. En því miður hafa efndir ekki fylgt orðum Gunnars Thoroddsens áður um verðbólguþróun. Um þetta leyti í fyrra sagði Gunnar Thoroddsen: Ef hins vegar tekst í meginatriðum að fylgja stefnu ríkisstj., sem hún er staðráðin að gera, eru líkur til að verðbólgan á þessu ári verði um 40% í stað 61% í fyrra. — Þetta voru orð Gunnars Thoroddsens á Alþingi í fyrra, fyrir nákvæmlega einu ári. Hann reyndist ekki sannspár. Verðbólgan var áfram nálægt 60%. Og því miður er lítil ástæða að ætla hann raunsærri í verðbólguspám nú en áður.

Sjálfstæðismenn í núv. ríkisstj. hafa því miður ekki verið samkvæmir sjálfum sér frekar en aðrir stjórnaraðilar fyrir og eftir kosningar í baráttu gegn verðbólgu, og því miður er sömu sögu að segja í skattamálum og orkumálum. Í stað þess að afnema vinstristjórnarskattana hafa þeir verið nálægt tvöfaldaðir. Í stað þess að hefja öfluga sókn í orku- og iðnaðarmálum ríkir þar algjör stöðnun.

Stefna ríkisstj. í efnahags- og atvinnumálum ber vitni stöðnunar og hætta er á verulegum samdrætti í atvinnumálum, einmitt þegar við ættum að vera byrjaðir á nýrri framfarasókn. Stefna ríkisstj., ef stefnu skyldi kalla, er forskrift fyrir atvinnuleysi ef henni verður fylgt fast eftir. Föst gengisskráning, þegar frysting sjávarafurða og togaraútgerð er rekin með tapi þrátt fyrir meðgjöf úr Verðjöfnunarsjóði sjávarafurða, hlýtur að leiða til stöðvunar atvinnufyrirtækjanna. Verðstöðvun í orði, þegar öll útgjöld halda áfram að hækka, hlýtur að leiða til taprekstrar og stöðvunar fyrirtækja og síðan verðsprengingar þegar stíflan brestur. Forsmekk fáum við hækkun landbúnaðarvara um næstu mánaðamót. Verðtrygging í 50–60% verðbólgu hlýtur að leiða til fjármagns- og vaxtakostnaðar sem kemur í veg fyrir endurnýjun véla og tækja og byggingu íbúða jafnt og atvinnuhúsnæðis. Stórauknar skattaálögur, sem jafnóðum er varið í alls konar eyðslu, og erlend skuldasöfnun dylja e. t. v. alvöru ástandsins fyrir landsmönnum um tíma, en verka eins og olía á verðbólgubálið.

Þjóðarframleiðsla hefur lítið sem ekki aukist síðustu 2–3 vinstristjórnarár, og á yfirstandandi ári er spáð algjörri stöðnun og lækkun þjóðartekna. Þetta gerist þrátt fyrir góðæri. Þessi stöðnun í þjóðarframleiðslu verður þrátt fyrir stóraukinn þorskafla í kjölfar 200 mílna fiskveiðilögsögu sem við sjálfstæðismenn höfðum forgöngu um. 1. júní n. k. verða 5 ár liðin síðan Oslóarsamkomulagið var undirritað er færði okkur fullnaðarsigur í landhelgismálinu, og árangurinn hefur ekki látið á sér standa.

Við þurfum að leggja áherslu á fullnýtingu fiskstofna, en varast ofnýtingu þeirra. Við hljótum að leggja áherslu á aukna hagkvæmni í sjávarútvegi og alhliða þróun og aukna fjölbreytni í landbúnaði til að sjá um þarfir innanlandsmarkaðarins. En þetta er ekki fullnægjandi. Við sköpum ekki sambærileg lífskjör hér á landi og í nágrannalöndum, við komum ekki í veg fyrir flutninga Íslendinga til annarra landa ef við nýtum ekki allar auðlindir okkar, orkuna í fossum og iðrum jarðar og byggjum upp almennan iðnað og stóriðju í landinu.

Í dag átti tillaga sjálfstæðismanna og Alþfl.-manna um stefnumótun í stóriðju að koma til atkv., en atkvgr. var frestað að beiðni forsrh. Reynir nú á að framsóknarmenn og ráðh., er telja sig sjálfstæðismenn, láti ekki Alþb. hafa sig í taumi. Við brjótumst ekki út úr vítahring verðbólgu nema með stórhuga stefnu auðlindanýtingar til lands og sjávar. Atvinnuvegirnir veða að vera reknir með hagnaði svo að þeir geti greitt hærra kaup. Örva verður samkeppni til að lækka vöruverð. Fólk og fyrirtæki verða að ráða sem mest sjálfsaflafé sínu. Snúa verður af braut þeirrar skattastefnu sem leitt hefur til 30–40% þyngingar beinna skatta frá 1977. Fólk og fyrirtæki borga nú til hins opinbera 65% eða meira af síðustu krónum sem þau vinna sér inn. Slík skattastefna leiðir til þess, að menn leggja sig ekki fram við vinnu til verðmætasköpunar fyrir þjóðarbúið. Óréttmæt skattalög leiða til undandráttar og spillingar.

Við sjálfstæðismenn fluttum brtt. við skattalögin til þess að ná því marki, að fyrirheit til launþega um skattalækkun á þessu ári væri efnt og að einstaklingar og fyrirtæki héldu alltaf eftir helmingi af síðustu krónunni sem þau vinna sér inn. Við fluttum till. um að eignarskattar lækki í það sem þeir voru 1977. En slíkar till. voru allar felldar.

Reynslan af gosdrykkjaskattinum ætti að kenna stjórnarliðum að tekjur af sköttum aukast ekki með skattstigahækkun og þurfa ekki að dragast saman að sama skapi og skattstigar eru lækkaðir, því að stofninn, sem skattar eru lagðir á, sjálf verðmætasköpunin, eykst.

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Við verðum að sameina alla þjóðina til nýrra átaka. Ríkisstj., sem mynduð var til að sundra, getur ekki sameinað þjóðina. Alþb. sýpur nú seyðið af eigin sundrungariðju þegar sterkir talsmenn þess segja sig úr flokknum. Óánægja er rík í Framsfl. með stjórnarsamstarfið. Við lifum nú á válegum tímum þegar allra veðra er von í alþjóðamálum. Innrásin í Afganistan og þróun mála í Póllandi gera þá kröfu til lýðræðissinna á Vesturlöndum að standa saman og treysta varnarbandalag sitt. Íslendingar eiga skyldum að gegna í Atlantshafsbandalaginu og varnarsamstarfinu við Bandaríkin til að tryggja sjálfstæði lands og þjóðar. Ísland má ekki vera veikasti hlekkurinn í eigin varnarbandalagi, eins og kommúnistar vilja. Ríkisstj. landsins er ekki ábyrg þegar ágreiningur er um utanríkis- og öryggismál á þessum örlagatímum og á að víkja einnig af þeim ástæðum. Íslenskir lýðræðissinnar verða að sameinast um það. Það má ekki dragast öllu lengur að þessi ríkisstj. fari frá, að þessi sundrungarvaldur hverfi úr þjóðlífinu og við taki ný ríkisstj. sem getur sameinað þjóðina til nýrrar framfarasóknar. — Ég þakka áheyrnina.