19.05.1981
Sameinað þing: 85. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4627 í B-deild Alþingistíðinda. (4805)

Almennar stjórnmálaumræður

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Í desembermánuði árið 1979 fóru fram sögulegar kosningar til Alþingis. Fyrir þessar kosningar boðaði Framsfl. stefnu í efnahagsmálum sem hann kallaði niðurtalningu á verðbólgu. Með þeirri aðferð skyldu þeir ná verðbólgunni niður í 30% á árinu 1980 og 18% á árinu 1981, það var klippt og skorið. Þeir unnu síðan verulega á í nefndum kosningum svo sem kunnugt er.

Þessi stefnumörkun átti sér nokkurn aðdraganda. Alþfl. hafði ári fyrr, eða í desember 1978, lagt fram í ríkisstj. nákvæma áætlun undir heitinu: jafnvægisstefna, sem í raun var niðurfærsla dýrtíðar í áföngum. Reynsla annarra þjóða talaði þar skýru máli vegna þess að jafnaðarmenn bæði í Bretlandi, en einkum þó í Noregi, höfðu farið slíka leið með góðum árangri.

Um þessa stefnumörkun varð hins vegar ekki samkomulag í ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar nema að mjög óverulegu leyti. Þegar það reyndist þrautreynt stóðum við upp og báðum þjóðina að kveða upp dóm sinn að nýju. Stjórnmálaflokkur á að því leyti að vera eins og einstaklingur, að hann á að hafa samvisku. Það þarf að vera lágmarkssamræmi milli orða og verka.

Vitaskuld búum við í þjóðfélagi samkomulags, þjóðfélagi þar sem menn og flokkar fá aðeins fram hluta af vilja sínum — ekki allan vilja sinn. Hins vegar hefur sáttfýsin snúist í ranghverfu sína og orðið skrípamynd af sjálfri sér þegar hún er notuð sem átylla og skálkaskjól til þess að svíkja sérhvert það fyrirheit og sérhverja þá lífsskoðun sem menn segjast standa fyrir og hljóta kjörfylgi til. Því er þetta rifjað upp að sannfæring mín stendur til þess, að þetta mat kjósenda á sínum tíma hafi reynst dýrt. Við uppskárum ekki fyrir stefnufestu sem þó var innan þeirra marka sem hægt var að ætlast til af öðrum með góðu og sanngjörnu móti og aðrir hafa dregið sína lærdóma af. Framsfl. hét niðurtalningu og fékk kjörfylgi til þess. Hann hét 30% verðbólgu á árinu 1980, verðbólgan varð 59%. Og verðbólgan verður ekki 18% á árinu 1981, heldur verður ástandið óbreytt þrátt fyrir 7% beina kjaraskerðingu nú 1. mars. Þetta hafa því reynst svikin tóm. En við horfum hjá skaðsemi verðbólgunnar, lítum á það eitt, að tilteknum árangri var heitið í máli sem efst var á baugi, væntanlega til þess að vinna kjósendur. Því er auðvitað borið við, að í samsteypustjórnum nái menn ekki öllu fram. Rétt er það. En þetta árangursleysi blasti við hverju barni strax þegar núv. ríkisstj. hafði verið mynduð. Einhverjir yppta öxlum og segja sem svo: Þeir eru allir eins. — Svarið við því er þvert nei. Kosningarnar 1979 snerust einmitt um það og það verða næstu kosningar einnig að gera.

Í nóvember 1979 var boðaður blaðamannafundur í Reykjavík. Þar sátu Geir Hallgrímsson og dr. Gunnar Thoroddsen og kynntu fyrir alþjóð það sem þeir kölluðu „leiftursókn gegn verðbólgu“. Látum skynsemi þessarar áætlunar liggja á milli hluta, en í þeim kosningum, sem í hönd fóru, hlaut flokkur þeirra félaga rúmlega þriðjung kjörfylgis í landinu. Skyldi nokkurn hafa grunað á þeim tíma að að tveimur mánuðum liðnum sneri dr. Gunnar við blaðinu, legði leiftursóknina til hliðar og leiddi Framsfl. og Alþb. til valda í þjóðfélaginu? Og það sem meira er: Þeir eru vissulega til sem þykir dr. Gunnar hafa fléttað vel, hann hafi reynst öðrum slóttugri, stjórnmál séu hvort sem er ekki annað en heldur óheiðarlegur leikur. Og þeir eru einnig til sem telja að niðurtalningin hafi verið meiri háttar kosningabrella, sem hafi átt að þjóna þeim tilgangi og þeim tilgangi einum. Þeir eru líka til sem telja svik og pretti í viðskiptum bæði eðlilega og sjálfsagða. Það er orðið að veruleika í hegðunarmunstri stjórnmála sem árum saman hefur viðgengist í efnahagsmálum.

Horfum til samanburðar til annars stjórnkerfis þar sem kosningar hafa nýlega farið fram. Í Frakklandi sigraði jafnaðarmaðurinn Mitterand í kosningum nýverið. Frakkar hafa undanfarin ár átt við efnahagslegt ægiböl að búa, sem er atvinnuleysi hundraða þúsunda. Mitterand setti fram kosningastefnuskrá um lækningu á þessu böli með sköpun atvinnutækifæra á vegum ríkis. Auðvitað er þetta einnig erfið lausn. Hún mun þýða annaðhvort hækkaða skatta eða aukna verðbólgu. En hugsum okkur að Mitterand færi að eins og Framsfl. íslenski eða dr. Gunnar Thoroddsen, hann stæði upp að kosningum loknum og segði Frökkum að því miður hefði stefna hans haft of miklar hættur í för með sér, hún hefði reynst á misskilningi byggð, hann væri því hættur við að reyna að leysa atvinnuleysisvandann, en sætti sig við óbreytt ástand. Eigum við ekki að segja, að á þeim slóðum væri það óhugsandi með öllu?

Engin ríkisstj. er algóð og engin ríkisstj. er alvond. Litróf slíkra dóma hefur ekki fyrst og fremst svarta líti og hvíta. Hins vegar er það auðvitað svo, að hér á hinu háa Alþingi eru fjölmörg mál sem til framfara horfa, og mörg eru undirbúin á vegum hæstv. ríkisstj. nú sem fyrr, síðan unnin og yfirfarin í nefndum þingsins og loks samþykkt, oft án ágreinings. Öðrum málum er gerbreytt í meðförum þingsins og iðulega falla atkv. eftir allt öðrum línum en hinum einföldu línum stjórnar og stjórnarandstöðu. En að þessu slepptu er spurt um stjórnarstefnuna.

Stefna núv. hæstv. ríkisstj. er röng og hættuleg. Hún er röng og hættuleg vegna þess, að verðbólgustigið er of hátt og batamerki ónóg með öllu. Hún er röng vegna þess, að þrátt fyrir mikið ytra góðæri blasir það við, að lífskjör á Íslandi hafa stórlega dregist saman á undanförnum árum, kaupmáttur launa hefur rýrnað. Sums staðar er að finna svo lág laun að fátækt má kalla. Við bjóðum ekki upp á lífskjör sem eru sambærileg við helstu nágrannaþjóðir okkar. Þetta eru staðreyndir sem engir talnaleikir fá breytt. Stjórnarstefnan er röng vegna þess, að ótrúlegra tregðuúrræða og getuleysis gætir að því er varðar að nýta þá auðlind sem við eigum stærsta ónýtta og býður upp á stórkostleg framtíðartækifæri: orkuna í fallvötnunum. Stjórnarstefnan er í meginatriðum röng vegna þess, að framfarir eru minni og lífskjör lakari en í löndunum í kringum okkur.

Þrátt fyrir þetta er það hláleg staðreynd, að á einu stóru sviði efnahagsmála horfir til réttrar áttar. Það er í vaxta-og verðtryggingarmálum. Þetta er hláleg staðreynd vegna þess, að á undanförnum árum hafa þeir stjórnmálaflokkar, sem standa að hæstv. núv. ríkisstj., barist gegn verðtryggingarstefnunni með oddi og egg. Þm. Alþb., ekki síst Lúðvík Jósepsson, héldu árum saman uppi hatrömmum áróðri gegn raunhæfri ávöxtunarstefnu. Steingrímur Hermannsson hefur lýst því, að hann hefði látið Alþfl. glepja sig — það voru óbreytt orð hans — til þess að fylgja þessari stefnu. Um grundvallarhugsun verðtryggingarstefnunnar hafa átt sér stað mikil átök í þjóðfélaginu á undanförnum árum. Það er þrátt fyrir allt mikilvægur sigur, að þessi stefna, sem var fyrir ekki mörgum misserum gerð tortryggileg og þá ekki síst af þeim öflum sem mynda núv. ríkisstj., er smám saman að verða að veruleika. Sá þjófnaður á sparifé, sem átti sér stað árum saman, einkum úr höndum eldri borgara og barna, er nú að nokkru að hverfa. Lífeyrissjóðir hafa í vaxandi mæli fylgt þessari þróun og tekið upp verðtryggingu. Og auðvitað hefur dregið úr misrétti í lánastofnununum og óarðbærri fjárfestingu, eins og spáð var að gerast mundi. Fjármagn í bönkum hefur aukist.

Í ræðum hér á Alþingi að undanförnu, þegar hæstv. forsrh. hefur tíundað það sem honum hefur þótt horfa til réttrar áttar í efnahagsstefnu stjórnarsinna, hefur hann í raun fyrst og fremst verið að fjalla um jákvæðar afleiðingar verðtryggingarstefnunnar og mun eflaust gera svo hér á eftir. Þjóðin auðvitað þekkir þessa baráttu undanfarin ár og veit hvernig þessi mál eru til komin. En sá galli er þó á gjöf Njarðar, að þótt grundvallarhugsunin í þessari stefnu sé rétt — hafi verið rétt og sé rétt — vantar mikið á að framkvæmd hennar sé rétt og skynsamleg.

Í fyrsta lagi: Þegar við gefum okkur þá forsendu sem rétt er að gera, að það sé ekki aðeins efnahagslega, heldur einnig siðferðilega rétt að verðtryggja sparifé, þá setur það auðvitað auknar skyldur á herðar ríkisvalds að halda verðbólgu í skefjum. Þessum skyldum hefur ríkisstj. brugðist. Ráðh. tala um það sýknt og heilagt að hverfa aftur frá sinni brotakenndu framkvæmd. En hvað þýðir það? Það þýðir að ríkisstj. segir: Þar sem við ráðum ekki við verðbólguna sjáum við ekki annað ráð en að byrja aftur að stela í stórum stíl frá sparifjáreigendum, frá fullorðnu fólki og frá börnum.

Í annan stað hefur ríkisstj. brugðist vegna þess, að hún hefur ekki unnið samtímis að auknum verðtryggingum og lengingu lánstíma. Einkum hefur þetta bitnað á ungum húsbyggjendum. Veigamikið atriði verðtryggingarstefnunnar, eins og við jafnaðarmenn sögðum að ætti að útfæra hana, var auðvitað að búa samtímis svo um hnútana að húsnæðislán hækkuðu og greiðslubyrði húsbyggjenda dreifðist meira. Að þessu hefur ríkisstj. ekki unnið, sennilega fyrst og fremst vegna þess að hún hefur aldrei haft trú á þeirri stefnu sem samfélagið þó er að meðtaka og er að verða að raunveruleika.

Þm. Alþfl. í Ed. hins háa Alþingis lögðu í vetur fram frv. sem í raun er ákaflega einfalt og fjallar um bætt kjör sparifjáreigenda, íbúðarbyggjenda og íbúðarkaupenda. Þar er gert ráð fyrir að samfara innlánsreikningum, sem beri fulla verðtryggingu og lágá vexti, verði tekinn upp hjá innlánsstofnunum sérstakur útlánaflokkur: viðbótarlán til íbúðarkaupa og íbúðarbygginga, er beri fulla verðtryggingu og 2–3% ársvexti. Lán þessi verði veitt til 15 ára og nemi helmingi þeirra lána er lánþegi á kost á hjá Húsnæðisstofnun ríkisins.

Þessi hugmynd er ofureinföld og auðveldlega framkvæmanleg. Verðtryggingarstefnan gerir slíka starfsemi einmitt kleifa. En þá er auðvitað grundvallarnauðsyn að ríkisstjórnarflokkar, vegna þess að þeir eru meiri hl. á Alþingi, skilji réttmæti hennar, skilji möguleika hennar og vilji hagnýta þá í þágu húsbyggjenda sem og annarra. Á þetta hefur því miður skort og á því ber hæstv. ríkisstj. mikla ábyrgð.

Auðvitað vantar víða á að þessi stefna sé framkvæmd. Dæmi um það er lánadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins. Þar afhenda stjórnmálamenn niðurgreidd og feikieftirsótt lán í nafni byggðastefnu, peninga sem auðvitað vaxa ekki á trjám, heldur eru sóttir eftir öðrum leiðum í vasa skattborgarans.

Jafnaðarmenn hafa í vaxandi mæli leitt hugann að valddreifingu í þjóðfélaginu, atvinnulýðræði og efnahagslýðræði. Veigamikil stefnumótun í allra næstu framtíð á einmitt að snúast að grundvallarbreytingu í efnahagskerfinu, og að því er varðar þessa þætti hafa þm. úr Alþfl. í vetur flutt frv, til laga um grundvallarbreytingu á verkalýðshreyfingunni, sem gengur út á að vinnustaðir yfir ákveðinni stærð myndi félög sem annist samninga um kaup og kjör, og um aukið lýðræði í samvinnuhreyfingunni, sem miðar að beinni kosningu allra félagsmanna til æðstu stjórnar. Mín sannfæring er sú, að hin fyrrnefnda breyting mundi hafa í för með sér byltingu í þágu láglaunafólks og launajafnaðarstefnunnar. Slíkar hugmyndir eru auðvitað ekki fram settar til þess að boða þvingunarlög ef slíkt er andstætt vilja félagsmanna, heldur til þess að kynna hugmyndir og vinna menn til fylgis við þær. Þessar hugmyndir eru nefndar til dæmis um félagslegar breytingar á þjóðfélagi sem hefur staðið of mikið í stað og of lengi.

Stjórnmál snúast öðrum þræði um ídealisma, hugmyndir sem menn og fylkingar hafa og trúa á að séu samfélaginu til góðs. Um hæstv. ríkisstj. Sjálfstfl., Framsfl. og Alþb. verður ekki sagt að hugsjónir þvælist fyrir henni. Til hennar var stofnað með refskap þar sem kosningaúrslitum var snúið við, og lífsakkeri hennar eru út af fyrir sig ekki eigin verk, ekki áætlun og ekki framtíðarsýn, heldur hitt, að stjórnarandstaðan geti ekki tekið við. Þessi röksemd er auðvitað fáránleg. Í þingræði njóta ríkisstj. meiri hl. á löggjafarsamkomum. Það þýðir að stjórnarandstaðan hefur minni hl. Stjórnarskipti fara því ekki fram nema annað af tvennu gerist: stjórnarmunstrið raskist eða valdahlutföllum er gerbreytt í almennum kosningum.

Um hitt spyrja menn hins vegar og eftir því er ríkisstj. dæmd: Þrátt fyrir hagstætt árferði og ágæt ytri skilyrði er verðbólgan mikil, stöðnun á veigamiklum sviðum atvinnumála og lífskjör sífellt að dragast saman. Þrátt fyrir hagstæð ytri skilyrði ríkir hér félagsleg og pólitísk stöðnun. Fólk er frjálst ferða sinna. Í vaxandi mæli þekkir það lífskjör og lífsstíl nágranna okkar í austri og vestri. Það er skylda stjórnvalda að svo hátti almennri stjórn efnahagsmála, að lífskjör okkar, félagskerfi og menningarumhverfi sé fyllilega sambærilegt við þessa nágranna okkar. Og þetta er hægt. Um þetta hefur ágreiningur stjórnmálamanna m. a. snúist í vetur. Núv. ríkisstj. hefur mistekist í þessum efnum. Þegar til hennar var stofnað var það ferð án fyrirheits. Framkvæmd hefur verið endurtekin lífskjaraskerðing í góðæri. Sú stefna er hvort tveggja: ástæðulaus og hættuleg.

Ég þakka þeim sem hlýddu. Góðar stundir.