19.05.1981
Sameinað þing: 85. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4635 í B-deild Alþingistíðinda. (4807)

Almennar stjórnmálaumræður

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Eitt af grundvallaratriðum í stefnu Framsfl. er að halda uppi öflugri byggðastefnu sem hefur að markmiði jöfnuð með landsmönnum hvar sem þeir búa og að treysta hverja þá byggð sem lífvænleg er. Framsfl. leggur áherslu á að fólki séu búin skilyrði til þess að lifa og starfa í því umhverfi sem það kýs sér.

Árið 1971 urðu mikil þáttaskil í íslenskum stjórnmálum. Þáverandi formaður Framsfl., Ólafur Jóhannesson, myndaði ríkisstj. sem mótaði nýja stefnu í byggðamálum, grundvallaða á málflutningi og tillögugerð Framsfl. Síðan hefur flokkurinn haft áhrif á stefnu stjórnvalda í byggðamálum og má líkja breytingunum á þessum áratug við byltingu.

Í nýútkominni ársskýrslu Framkvæmdastofnunar ríkisins kemur fram að á þessum áratug hefur fólksflóttinn af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins stöðvast og trúin á gildi þess og möguleika að byggja landið allt vaxið á ný. Sem gott dæmi um þessa byltingu má nefna tvo staði, sinn í hvorum landshluta. Það eru Grindavík með 64% fólksfjölgun og Hvammstangi með 62.9% fólksfjölgun á 10 árum.

Í byggðastefnu felst m. a. það að efla og treysta atvinnulíf um land allt, að bæta skilyrði til menntunar og menningarlífs, auka öryggi fólksins í hinum strjálu byggðum með fullkominni heilbrigðisþjónustu, efla og auka samstarf og samskipti fólks með stórátaki á sviði samgöngumála. Á það jafnt við um Vestfirði sem Austfirði, um Langanes sem Reykjanes. Samkvæmt þessari stefnu hefur Framsfl. unnið í þeirri ríkisstj. sem nú er við völd sem og á undanförnum árum. Það sést best á ýmsum aðgerðum og ráðstöfunum stjórnvalda undanfarnar vikur og mánuði svo og af störfum þess þings sem nú er senn að ljúka.

En það er oft erfitt að stilla saman svo vel fari þau tvö mikilvægu markmið: byggðastefnu með fullri atvinnu og uppbyggingu um land allt annars vegar og hins vegar baráttu við óðaverðbólgu, en það er eitt af meginviðfangsefnum ríkisstj. að ná verðbólgunni á næsta ári niður í svipað stig og í helstu viðskiptalöndum okkar.

Vissulega hefur nokkuð dregið úr spennu á vinnumarkaði, sem fyrst bitnar á ýmsum þjónustugreinum, svo sem byggingariðnaði, og þarf því að fylgjast mjög vel með þróun atvinnumála því atvinnuleysi er sá vágestur sem Framsfl. mun aldrei sætta sig við að hafa sem bandamann í baráttunni við verðbólguna. Þar sem brotalöm hefur orðið í atvinnulífi hefur ríkisstj. brugðið við og aðstoðað í slíkum tilvikum. Má í því sambandi nefna staði eins og Þórshöfn, sem mikið var til umræðu fyrr í vetur, og Djúpavog, en nú er einmitt leitað lausnar á atvinnuvandamálum þess staðar. Þarna koma einnig til aðstoðar Framkvæmdastofnun ríkisins og Byggðasjóður. En það var eitt af verkum ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar árið 1971 að koma á fót þessum stofnunum fyrir atbeina Framsfl., og hafa þær margoft síðan sannað gildi sitt við framkvæmd byggðastefnunnar.

Varðandi nýja þætti í atvinnumálum skal þess getið, að fyrir Alþingi liggja nú lagafrv. um þrjár verksmiðjur, þ. e. sjóefnavinnslu, stálbræðslu og steinullarverksmiðju, sem vonandi eiga allar eftir að styrkja og efla atvinnulíf í landinu. Þá eru og ýmsir aðrir atvinnumöguleikar og nýiðnaðartækifæri í athugun hjá ríkisstj.

Annar þáttur byggðastefnunnar, sem ég nefndi, voru bætt skilyrði til menntunar og menningarlífs. Af hálfu menntmrh. er nú unnið að þessum málum á ýmsum sviðum. Frv. að nýrri löggjöf um framhaldsskóla er nú nánast fullbúið og verður lagt fyrir Alþingi næsta haust og vonandi lögfest á því þingi. Þá er unnið að undirbúningi löggjafar um fullorðinsfræðslu, en með breyttum atvinnuháttum er mjög knýjandi að skapa skilyrði fyrir fræðslu handa fullorðnum og stuðla að auknum rétti og möguleikum fólks til endurmenntunar. Þá hefur menntmrh. mjög látið til sín taka málefni Ríkisútvarpsins. Þó stöðugt séu gerðar kröfur til hins opinbera um strangasta aðhald í fjármálum er jafnframt hert á kröfum um aukna þjónustu. Á þetta ekki síst við um Ríkisútvarpið. Ráðherra hefur þó ákveðið lagt til og markað stefnu um að áfram skuli haldið byggingu útvarpshúss, enda stofnuninni mjög þröngt sniðinn stakkur í húsnæðismálum svo ekki sé meira sagt.

Þá er og fyrirhugað átak við byggingu dreifikerfis sjónvarps nú í sumar, og er það bæði erfitt og kostnaðarsamt verkefni. Sem betur fer munu sjónvarpsútsendingar nú ná til þorra þjóðarinnar, en enn eru þó eftir þeir sem afskekktastir eru og búa við mesta einangrun og þurfa því frekast á þessari sjálfsögðu þjónustu að halda.

Á sviði félagsmála, heilbrigðis- og tryggingamála, vinnur ríkisstj. að mörgum umbóta- og framfaramálum, enda er góð heilbrigðisþjónusta ein af meginforsendum öflugrar og traustrar byggðastefnu. Af mörgu er að taka, en ég mun aðeins nefna tvö frumvörp sem eru til umfjöllunar í þinginu þessa dagana.

Annað lætur lítið yfir sér, en er þó þýðingarmikið fyrir þá sem í hlut eiga, en það fjallar um úrbætur á opinberum byggingum í þágu fatlaðra og hvernig greiða skuli kostnað við breytingar á byggingum þessum til að gera þær aðgengilegar fyrir fatlað fólk.

Hitt frv. er öllu stærra í sniðum, en ekki síður mikilvægt, en það fjallar um heilbrigðis- og vistunarþjónustu fyrir aldraða. Þrátt fyrir töluverðar úrbætur á undanförnum árum er hér um gífurlegt vandamál að ræða í ýmsum sveitarfélögum, og er ástandið líklega hvað verst hér á höfuðborgarsvæðinu, nálgast að tala megi um neyðarástand. Á þessu sviði verða stjórnvöld að bregða við bæði skjótt og ákveðið, en varast þó eins og unnt er að byggja upp kostnaðarsamt bákn stofnana, nefnda og ráða. Nú þegar þarf þó að stofna byggingarsjóð aldraðra og verða landsmenn allir að taka saman höndum um það verkefni.

Að lokum vil ég nefna þann þátt byggðastefnu sem að samgöngumálunum lýtur. Í dag var rædd hér á Alþingi vegáætlun til næstu fjögurra ára, en með henni er gert ráð fyrir verulegu átaki í vegagerð á áætlunartímabilinu. Sérstök áhersla er lögð á lagningu bundins slitlags sem sparar mikið fé í viðhaldi, bæði á vegakerfinu svo og hjá þeim bifreiðaeigendum sem aka eftir vegum með bundnu slitlagi. Þá fylgir áætluninni einnig fyrirheit samgrh. um sérstaka fjármögnun til að vinna að úrbótum á þeim köflum vegakerfisins þar sem vegfarendur eru tíðum í lífshættu vegna snjóflóða, skriðufalla og grjóthruns, en það er í Óshlíð, Ólafsvíkurenni og Ólafsfjarðarmúla.

Á fjárlögum þessa árs er veruleg hækkun á fjárveitingum til flugmála og er með því lögð aukin áhersla á þann þátt samgangna. Með bættum flugsamgöngum hefur tekist að koma ýmsum áður afskekktum byggðarlögum í nær daglegt samband við aðra landshluta.

Símamál hafa mikið verið til umræðu í vetur. Síminn er mikið öryggistæki og fyrir löngu orðinn ómissandi þáttur í daglegu lífi fólks. Það er því nánast óviðunandi að enn skuli 3200 sveitabýli, og oftast þau sem lengst liggja frá þéttbýliskjörnum, búa við handvirkt samband um innansveitarlínur og ná ekki símasambandi út úr viðkomandi sveit nema um landssímastöð sem í sumum tilfellum er aðeins opin 4–6 tíma á sólarhring. Það var því mikið ánægjuefni er Alþingi samþykkti í gær sem lög frv. samgrh. um lagningu sjálfvirks síma, en lög þessi gera ráð fyrir fimm ára áætlun til að leggja sjálfvirkan síma á þau 3200 sveitabýli sem enn búa við handvirkt símasamband og það öryggisleysi sem því fylgir.

Herra forseti. Ég hef nú varið tíma mínum til að gera nokkra grein fyrir þeim málum sem Framsfl. hefur beitt sér fyrir og stutt að á sviði byggðastefnu, bæði í núverandi stjórnarsamstarfi og á undanförnum árum, en tímans vegna aðeins stiklað á stóru. Margt er enn ógert í þeim efnum sem heyra byggðastefnu til og flokkurinn mun áfram berjast fyrir. Nefni ég þar t. d. jöfnun á raforkuverði og jöfnun flutningskostnaðar.

Ég geri mér vonir um og hef ekki ástæðu til að ætla annað en að núverandi stjórnarsamstarf muni áfram ganga eins vel og það hefur hingað til gert og heyrist í því brestir séu það aðeins traustabrestir. Stjórnarandstaðan hamast og hamast, heimtar aðgerðir, en leggst síðan gegn öllum skynsamlegum og óhjákvæmilegum ráðstöfunum stjórnarinnar. Slík vinnubrögð fá ekki hljómgrunn hjá þjóðinni. Það sýna best skoðanakannanir, þó að sjálfsögðu sé rétt að taka þær með vissum fyrirvara. Stjórnarliðið mun áfram vinna að þeim markmiðum, sem stjórnarsáttmálinn greinir frá, og jafnhliða glímunni við verðbólgudrauginn halda áfram þeirri byggða- og uppbyggingarstefnu sem framsóknarmenn hafa lagt áherslu á: Framfarir landsins alls, framfarir þjóðarinnar allrar. Á þann hátt telur Framsfl. að best verði borgið sjálfstæði og öryggi fólksins, sem í landinu býr, í nútíð og framtíð. Ég þakka þeim sem hlýddu.