19.05.1981
Sameinað þing: 85. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4640 í B-deild Alþingistíðinda. (4809)

Almennar stjórnmálaumræður

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Mikilvægustu mál hverrar þjóðar eru varðveisla efnahagslegs og pólitísks sjálfstæðis og meðferð auðlinda og landgæða. Þessi stórmál þurfa að vera meginviðfangsefni stjórnmálanna á hverjum tíma því að þau eru forsenda þess, hvernig ræðst um önnur mál: baráttu fyrir bættum lífskjörum í víðri merkingu og auknum jöfnuði meðal þegna þjóðfélagsins. Ef við glötum sjálfstæði okkar og stundum hér rányrkju á auðlindum um langan tíma er kippt forsendum undan þróun og tilvist íslensks þjóðfélags. Í ellefu alda sögu þjóðarinnar hafa þessi atriði skipt sköpum og þau eru órjúfanlega samtvinnuð. Efnahagurinn hvílir á arði af auðlindunum og afrakstri þeirra og þar með þjóðartekjurnar eru komnar undir því, að við nýtum landgæðin skynsamlega og högum fjárfestingu og öðrum þáttum efnahagsstarfseminnar þannig að sem mestu skili til lengri tíma. Skjóttekinn gróði má ekki vera leiðarljós í atvinnurekstri eða auðlindastefnu. Slíkt hefnir sín fyrr en varir.

Íslenska þjóðin hefur í þrjá auðlindabrunna að sækja: gróðurmoldina, hafið með fiskimiðunum og orkulindir landsins, fallvötn og jarðhita. Allt geta þetta verið nægtabrunnar og staðið undir traustum lífskjörum í landinu um langa framtíð ef rétt er á haldið. Fáar þjóðir standa raunar jafnvel að vígi með undirstöðu hagsældar í landi sínu og Íslendingar með hin gjöfulu fiskimið og orkulindir sem tengdar eru náttúrulegri hringrás þótt magn þeirra sé eins og annað takmörkunum háð.

Verulegt átak stendur nú yfir í orkumálum, og hefur það einkum beinst að því að taka innlenda orku í gagnið í húshitun í stað innfluttrar olíu. Þessu takmarki er ætlunin að ná að mestu á næstu 3–4 árum. Þá eiga um 80% landsmanna að búa við jarðvarma til upphitunar og nær 20% við beina rafhitun. Fjármunum í þessu skyni er vel varið, og fátt er meiri lífskjarabót. fyrir almenning ef rétt er á haldið. Jafnframt þarf að ná lengra en orðið er í jöfnun orkuverðs til heimilisnota og í atvinnurekstri um land allt.

Samhliða lokaátaki í húshitun með innlendum orkugjöfum hljótum við að hefja nýja sókn inn á orkusviðið með skynsamlega hagnýtingu þessara miklu auðlinda til uppbyggingar og eflingar atvinnulífs um land allt að markmiði.

Að því stefnir frv. ríkisstj. um raforkuver, sem nú liggur fyrir Alþingi og mikið hefur verið um rætt að undanförnu. Þar er leitað víðtækari heimilda til nýrra vatnsaflsvirkjana á næstu 10–15 árum, auk jarðvarmavirkjana og varaaflsstöðva, en áður hefur gerst, og stefnt er að því að meira en tvöfalda raforkuframleiðslu á röskum tíu árum. Tryggja á aukna orkuvinnslu og öryggi vatnsaflsstöðvanna á Suðurlandi, m. a. í ljósi reynslunnar frá s. l. vetri, með því að veita kvíslum, sem falla í Þjórsá, og hluta af efri Þjórsá inn í Þórisvatn og reisa stíflu við Sultartanga sem hluta af væntanlegri virkjun þar. Jafnframt verður ráðist í tvær stórvirkjanir utan Suðurlands, Blönduvirkjun og Fljótsdalsvirkjun, og að því stefnt að þær komist í gagnið innan tíu ára, enda verði tryggður markaður fyrir orkuna í íslenskum fyrirtækjum.

Þetta þýðir að unnið verður að undirbúningi við þessar virkjanir samhliða á næstunni eins og að undanförnu og framkvæmdir við þær munu skarast nokkuð. Skorið verður úr um forgangsröð og gerð framkvæmdaáætlun fyrir þessar virkjanir og aðrar stórframkvæmdir í orkumálum á næstunni og reynt að ganga frá þeim endum sem enn eru lausir varðandi undirbúning. Þar skiptir ekki minnstu að fundin verði viðunandi lausn á hinni viðkvæmu deilu um virkjunartilhögun við Blöndu. Framkvæmdaundirbúningi þarf að haga þannig að hann verði til að efla atvinnulíf og renna stoðum undir iðnað í viðkomandi landshlutum.

Út frá byggingasjónarmiði getur ekki talist meginmál hvort virkjun kemst í gagnið fáum árum fyrr eða seinna í viðkomandi landshluta og rúmur framkvæmdatími getur komið sér betur fyrir atvinnulíf viðkomandi svæða en virkjunarframkvæmdir sem lýkur á fáum árum.

Þessi atriði og önnur ótalin voru höfð í huga við undirbúning þessara mála af hálfu iðnrn. og nauðsyn þess að skapa sem breiðasta samstöðu um tillögugerð. Mér hefur sem iðnrh. verið legið á hálsi af pólitískum andstæðingum fyrir seinlæti í þessum málum. Ég læt mér slíkar ásakanir í léttu rúmi liggja um leið og ég staðhæfi að engar tafir hafa orðið á undirbúningi framkvæmda í virkjunarmálum að undanförnu né munu verða svo fremi sem Alþingi samþykki frv. um raforkuver á þessu vori.

Hér er um stórt og viðamikið mál að ræða sem snertir hagsmuni margra. Hafa menn ekki fengið nóg af árekstrum á borð við Laxárdeiluna og áföllum eins og við Kröfluvirkjun? Og telja menn ekki tímabært að tryggja öryggi í raforkumálum með dreifingu virkjana um landið? Að mínu mati er þar um stóra þjóðarhagsmuni að tefla sem varða ekki síður íbúa Suður og Suðvesturlands en fólk í öðrum landshlutum.

Ég hef að framan rakið hvernig staðið hefur verið að undirbúningi mála varðandi orkuvinnsluáformin. Ekki þarf síður hlutlæga skoðun mála varðandi orkunýtinguna. Stórt átak í hagnýtingu orkulindanna býr að baki framkvæmdaáformum ríkisstj. í virkjunarmálum. Þar er stefnt að frumkvæði íslenskra stjórnvalda um uppbyggingu meiri háttar nýiðnaðar, ekki síst orkufreks iðnaðar á vegum landsmanna sjálfra, eins og það er orðað í sáttmála ríkisstj. Jafnframt er lögð áhersla á að draga úr notkun innfluttrar orku, hinnar dýru olíu í atvinnurekstri, þar sem því verður við komið, svo sem með skynsamlegum orkusparnaði. Þar koma ekki síst fiskimjölsverksmiðjur landsmanna við sögu þar eð þær eiga stærstan hlut í núverandi olíunotkun í iðnaði.

Bæði þessi markmið eru jafngild: gjaldeyrissparnaður með útrýmingu innflutts eldsneytis og gjaldeyrisöflun með útflutningi orkufrekra iðnaðarvara. Ríkisstj. telur það eðlilegt og viðráðanlegt markmið fyrir íslenskan þjóðarbúskap að jafna orkureikninginn gagnvart útlöndum ekki síðar en fyrir lok aldarinnar. Þetta getur gerst með því, að við hefjum framleiðslu á fljótandi eldsneyti hér innanlands er komi í stað innfluttra olíuvara eftir því sem hagkvæmt getur talist og með því að auka útflutning á orkutengdum afurðum frá íslenskum fyrirtækjum. Með þessu yrði brotið blað í orkubúskap þjóðarinnar, og með þetta í huga er unnið að undirbúningi mála á vegum iðnrn. og ríkisstj. Jafnhliða eðlilegri þróun annarra atvinnuvega og almenns iðnaðar er hér um stórbrotið verkefni að ræða sem reyna mun á krafta og hugvit. Þar dugar ekki minna en leiða saman alla þá þekkingu og kunnáttu, sem við höfum yfir að ráða sem þjóð, í því skyni að geta valið úr þeim kostum sem okkur standa til boða í orkufrekum iðnaði. Í þessu sambandi þurfum við að læra af fenginni reynslu og mistökum fortíðarinnar eins og þau birtast okkur í erlendri stóriðju á borð við samninginn um álverið í Straumsvík. Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að óska endurskoðunar á þeim samningi um leið og þau gera kröfu til að ekki sé á okkur brotið í skjóli hans. Deilur um fortíðina mega þó aldrei verða aðalatriðið, heldur hitt, að menn fylki sér að baki íslenskum hagsmunum og einbeiti sér að atvinnuþróun í landinu út frá okkar eigin forsendum með ótvíræð íslensk yfirráð yfir atvinnulífi og auðlindum landsins að leiðarljósi.

Þetta jafngildir ekki að við höfnum samvinnu við útlendinga. Íslendingar eru eins og aðrar þjóðir háðir efnahagsþróun viðskiptalanda og grannríkja og við hljótum að kosta kapps um að eiga við þau góð samskipti. Alþb. hefur ekki útilokað samvinnu við erlenda aðila um einstaka þætti í stórrekstri, svo sem markaðssamstarf, rannsókna- og tæknisamvinnu og minnihlutaeignaraðild í fyrirtækjum ef æskileg er talin að vel athuguðu máli. Slíkt á hins vegar fremur að vera undantekning en regla, og við eigum að kappkosta að hafa ótvírætt forræði yfir öllum þáttum atvinnustarfsemi í landinu.

Með þetta í huga er nú unnið að athugunum á uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Er við það miðað að fara fordómalaust yfir sviðið og kanna til hlítar þá kosti sem hagkvæmir og viðráðanlegir eru fyrir okkur Íslendinga. Til þess að vinna að þessu hefur iðnrn. leitað til innlendra sérfræðistofnana og einstaklinga og ekki hikað við að afla vitneskju erlendis frá og kanna markaðsmöguleika. Þetta er hins vegar andstæða þeirrar stefnu sem stjórnarandstöðulið Sjálfstfl. boðar með núverandi formann, hv. þm. Geir Hallgrímsson, sem forsöngvara og við undirleik hv. 4. þm. Austurl., Sverris Hermannssonar. Formaður Sjálfstfl. orðaði áhyggjur sínar og hugmyndir um þessi efni á eftirfarandi hátt á fundi í Breiðholti um daginn samkvæmt frásögn Morgunblaðsins 12. maí s. l., þar sagði Geir Hallgrímsson m. a.:

„Við skulum ekki vera svo einföld að álíta að menn bíði í biðröðum eftir því að reisa hér fyrirtæki og kaupa af okkur orkuna. Sannleikurinn er sá, að það krefst útsjónarsemi og ákveðinnar sölumennsku ef við ætlum að vekja áhuga manna fyrir því að reisa slík fyrirtæki hér á landi og selja þeim þá orku sem við getum framleitt úr orkulindum okkar. En það er fyrst og fremst forsenda þess að við getum bætt lífskjör okkar, byggt hér upp heilbrigt þjóðfélag og aukið þjóðarframleiðsluna og þjóðartekjur.“

Þetta er grunntónninn í atvinnustefnu stjórnarandstöðu Sjálfstfl.: að virkja til að selja útlendingum orkuna. Og Alþfl. eltir leiftursóknarliðið dyggilega í þessu máli sem flestum öðrum, eins og glöggt mátti heyra í máli formanns Alþfl., Kjartans Jóhannssonar, áðan.

Herra forseti. Góðir hlustendur. Orkumálin eru stórmál fyrir okkur Íslendinga sem og aðrar þjóðir. Fyrir hverja þjóð skiptir það miklu að tryggja sem best öryggi sitt í orkumálum og hagnýta þá margþættu kosti sem felast í auðlindum hennar. Ríkisstj. hefur markað stefnu um dreifingu virkjana og uppbyggingu þeirra í þremur landshlutum á næstu árum og að efla iðnþróun víðs vegar um landið í kjölfar orkuframleiðslunnar og í krafti hennar. Að slíkum undirbúningi er nú unnið undir merkjum íslenskrar atvinnustefnu og verða mál lögð fyrir til ákvörðunar eftir því sem aðstæður bjóða. Þessa dagana fjallar Alþingi um heimildir varðandi þrjár verksmiðjur sem hagnýta eiga innlend hráefni og orku. Þetta eru sjóefnavinnsla á Reykjanesi, steinullarverksmiðja og stálbræðsla. Önnur og stærri verkefni eru á könnunarstigi eins og fram hefur komið.

Þjóð okkar þarf á því að halda að geta tekið samhent á í stórmálum og hefja sig yfir hreppasjónarmið og þrönga sérhagsmuni. Það tókst í landhelgismálinu seint um síðir, og það þarf einnig að takast um varðveislu og nýtingu orkulindanna. Undirstaða batnandi lífskjara verður að felast í hagkvæmri fjárfestingu, fjölbreyttri atvinnuþróun um land allt og auðlindastefnu er miðist við langtímahagsmuni íslensku þjóðarinnar. Sú er stefna Alþb.

Ég þakka áheyrnina. Góða nótt.