11.11.1980
Sameinað þing: 17. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í B-deild Alþingistíðinda. (481)

15. mál, landhelgisgæsla

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Oft kemur góður þá getið er, því að fjmrh. gengur í salinn.

Þessi till. er flutt til að vara við sterkum tilhneigingum sem hafa komið fram hjá yfirvöldum til að skera landhelgisgæslu niður frá því sem hún var á þorskastríðsárunum.

Við höfum náð á vald okkar landhelgi sem er 7 sinnum stærri en landið sjálft og það hvílir sú skylda á herðum okkar að halda uppi fullnægjandi eftirliti, rannsóknum og eðlilegri hagnýtingu á öllu þessu svæði. Ég óttast að þar eð þetta er dýrt sé freistingin of sterk að reyna að spara þarna, en að sá sparnaður sé hættulegur fyrir stöðu okkar og sjálfstæði.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa langt mál um þessa tillögu en legg til að henni verði vísað til utanrmn.