19.05.1981
Sameinað þing: 85. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4649 í B-deild Alþingistíðinda. (4812)

Almennar stjórnmálaumræður

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundur Bjarnason hrósaði mjög áðan lögum um Byggðasjóð og er ég honum þar sammála. En hvernig skyldi standa á því, að núv. hæstv. ríkisstj. lætur aðeins sem nemur 0.7% fjárlaga renna til Byggðasjóðs í stað 2% eins og lög segja til um að eigi að vera? Þetta takmarkar auðvitað mjög getu sjóðsins til þess að sinna ætlunarverki sínu. Lög eru ekki góð nema þeim sé framfylgt.

Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson sagði að Alþfl. hafi tekið undir söng um nauðsyn almennra kauplækkana við stjórnarmyndunarviðræðurnar veturinn 1979–80. Það er rétt, að stundum hefur Alþfl. talið nauðsynlegt, sérstaklega þegar viðskiptakjör fara mjög versnandi, að lækka kaupmátt hærri launa og jafnvel miðlungslauna. Aftur á móti hefur Alþfl. aldrei lagt til, fallist á eða stutt till. um lækkun kaupmáttar lægstu launa eða bóta almannatrygginga, en því hefur Alþb. ekki flökrað við eins og dæmin sanna.

Í tíð núv. hæstv. ríkisstj. hefur ótrúlega lítið komið fram af nýjum umbótamálum á félagsmálasviðinu. Og það litla sem er hefur náðst fram með samtakamætti launþegahreyfingarinnar. Flest umbótamál á félagsmálasviðinu, sem núv. ríkisstj. hefur borið fram, voru ýmist fullbúin eða svo til fullbúin af fyrri ríkisstj., þ. e. ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar og ríkisstj. Benedikts Gröndals. Sum þeirra hafa verið lögð fram af núv. ríkisstj. meira eða minna breytt og þá síður en svo til bóta. Önnur hafa ekki enn fengið afgreiðslu. Ég nefni örfá dæmi.

Ríkisstj. Benedikts Gröndals lagði fram á Alþingi á fyrstu dögum þess eftir kosningarnar 1979 mjög vandað frv. til l. um Húnnæðismálastofnun ríkisins sem byggt var á stefnumótun í húsnæðismálum sem ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar hafði samþykkt að till. Alþfl. Það kom í hlut núv. stjórnarliða að ganga endanlega frá afgreiðslu málsins á Alþingi. Segja má að meginefni frv., svo sem hinir ýmsu lánaflokkar, hafi verið samþykkt efnislega óbreytt. Að öðru leyti var frv. stórskemmt í meðförum stjórnarliða.

Einn aðaltilgangur frv. var að hækka lánshlutfall Byggingarsjóðs ríkisins í ákveðnum árlegum áföngum í 80% brúttó-byggingarkostnaðar og skyldi sá áfangi, lokaáfanginn, nást eigi síðar en árið 1990. Í frv. voru nákvæmir útreikningar á því, hvað til þyrfti að koma frá ári til árs til að ná þessu marki. Á þetta allt blésu stjórnarliðar og kipptu um leið fjárhagslegum grundvelli undan lögunum. Eru afleiðingar þess óðum að koma í ljós. Mörg góð áform laganna verða lítið annað en nafnið tómt ef fram heldur sem horfir.

Ef frv. Alþfl. hefði verið samþykkt óbreytt væru lán Húsnæðisstofnunar nú að lágmarki 35% brúttó-byggingarkostnaðar, en eru 19.5% af verði staðalíbúða eins og Húsnæðisstofnun reiknar það út. Það munar um minna. Og það sem meira er, ef frv. Alþfl. hefði orðið óbreytt að lögum færu lánin hækkandi frá ári til árs upp í 80% á árinu 1990. Að óbreyttum lögum og með hliðsjón af stefnu ríkisstj. eins og hún kemur fram í fjárlögum þessa árs koma almenn byggingarlán ekki til með að hækka á næstu árum, það má þykja gott ef þau lækka ekki. Það bjargar þó e. t. v. nokkru fyrir Byggingarsjóð ríkisins að verulega hefur dregið úr nýbyggingum húsa og tel ég orsök þess að miklum hluta vera þá, hve lág húsnæðislánin eru.

Talsmenn Alþb. í húsnæðismálum segja að það geri ekkert til þótt lánshlutfall Byggingarsjóðs ríkisins hækki ekki, allt tal Alþfl.-manna um nauðsyn þess séu út í hött vegna þess að svo til allir, sem eru að byggja eða kaupa á hinum almenna markaði, séu að gera það í annað, ef ekki þriðja eða fjórða sinn, þeir þurfi því ekki á miklum lánum að halda. Hvílík rök! Þarna eins og á mörgum öðrum sviðum hafa stjórnarliðar hausavíxl á orsökum og afleiðingum. Ungt fólk og aðrir, sem vilja byggja eða kaupa í fyrsta sinn, getur það einfaldlega ekki vegna þess, hve fyrirgreiðsla Húsnæðisstofnunar er hörmulega lítil. Þetta fólk er horfið af markaðnum, eins og fasteignasalar segja. Það getur enginn venjulegur maður, sem er að byggja eða kaupa í fyrsta sinn, staðið undir þeim skammtímalánum sem markaðurinn býður ef þau á annað borð fást.

Alþb.-menn benda á verkamannabústaðina og telja þá allra meina bót. Rétt er að ákvæðin um félagslegar íbúðir í frv. Alþfl. eru svo til óbreytt í lögunum eins og frá þeim var gengið. Tekju- og eignaminnsta fólkið getur eignast íbúðir í verkamannabústaðakerfinu eins og til var ætlast í upphaflega frv. Er það auðvitað mjög gott svo langt sem það nær. En mikill meiri hluti fólks, minnst 70% húsbyggjenda og kaupenda, hefur ekki rétt til að eignast íbúðir innan þess kerfis. Þar getur smávægilegur mismunur tekna síðustu árin skipt sköpum um rétt eða ekki rétt. Það er bráðnauðsynlegt að taka aftur upp þráðinn þar sem frá var horfið af ríkisstj. Benedikts Gröndals og koma þessum málum á tiltölulega skömmum tíma í mannsæmandi horf, svipað og gerist á hinum Norðurlöndunum þar sem jafnaðarmenn hafa lengst af ráðið gangi mála.

Annað dæmi — og það snýr fyrst og fremst að fullorðnu fólki — eru lífeyrissjóðsmálin. Þar hefur ekkert markvert gerst síðan núv. ríkisstj. tók við nema það að auka enn á misréttið með síðustu samningum hæstv. fjmrh. við opinbera starfsmenn. Var það þó ærið fyrir.

Ríkisstj. Benedikts Gröndals fékk samþykkt lög í árslok 1979 um eftirlaun til aldraðra þar sem þeir, sem engin eða lítil réttindi eiga í lífeyrissjóðum, fá ákveðin lágmarksréttindi, gjarnan helming af fullum réttindum. Þetta átti að vera fyrra skrefið af tveimur til að koma á samræmdu lífeyrisréttindakerfi fyrir alla landsmenn. Seinna skrefið átti að taka ári síðar eða svo. Í höndum núv. ríkisstj. hefur framkvæmd laganna um eftirlaun til aldraðra tekist svo óhöndulega að einungis 10–15% þeirra, sem réttindi eiga, hafa notið þeirra. Og langt virðist vera í land með síðara skrefið: að koma á samræmdu lífeyrisréttindakerfi fyrir alla landsmenn. Áhugi hæstv, núv. ríkisstj. á þessu máli virðist ótrúlega lítill. Bæði Alþfl.-menn og sjálfstæðismenn hafa á yfirstandandi þingi lagt fram vel útfærðar og framkvæmanlegar till. í þessu máli. En þær fást ekki afgreiddar á Alþingi, stjórnarliðið sér um það. Núverandi mismunun fólks hvað þetta áhrærir er með öllu óþolandi. Hver sú ríkisstj., sem kemur þessum málum ekki í viðunandi lag á skikkanlegum tíma, á skilyrðislaust að segja af sér.

Enn eitt dæmi vil ég nefna, en það er heilbrigðis- og félagsleg þjónusta fyrir aldraða. Allir vita að þessi mál eru í mjög miklum ólestri. Hv. þm. Guðmundur Bjarnason talaði áðan um neyðarástand og er það ekki langt frá lagi. Þetta þarfnast skjótrar úrlausnar.

Á árinu 1979 var unnið að samningu frv. um aukningu og samræmingu á allri félagslegri og heilbrigðislegri þjónustu fyrir aldraða. Sú nefnd, sem að þessu vann af miklum áhuga og mikilli alúð, skilaði frv.-drögum 1. febr. 1980 og voru drögin í frekari skoðun í heilbr.- og trmrn. þegar stjórnarskiptin urðu. Síðan hefur núv. hæstv. ráðh. marglofað því að leggja þetta frv. fyrir Alþingi. Fyrst nú, 15 mánuðum síðar, var meingallað frv. um þessi mál lagt fyrir Alþingi. Félagslegum þætti vandans, sem oft er enn sárari en sá heilbrigðislegi, var nú alveg sleppt og frv. að öðru leyti svo gallað að enginn umsagnaraðili mælir með samþykkt þess.

Í þessu máli eins og mörgum öðrum er ríkisstj. að reyna að fela það, að undirbúningur umbótamála er frá öðrum kominn. Stjórnin reynir að breyta fyrirliggjandi frumvörpum breytingarinnar einnar vegna, og það tekst stundum svo óhöndulega að enginn mælir skapnaðinum bót.

Ég hef hér nefnt þrjú dæmi um lítinn áhuga hæstv. núv. ríkisstj. á umbótum í félagsmálum, en af mörgu er að taka. Til að koma aftur þungu skriði á nauðsynleg félagsleg umbótamál þarf að draga úr áhrifum Alþb. á þessi mál, en auka að sama skapi áhrif Alþfl. Ég veit að Alþb.-menn munu — og það mun hæstv. félmrh. örugglega gera hér á eftir — svara þessu þannig að Alþfl. vilji ávallt eigna sér öll mál á sviði félagslegra umbóta og viðurkenni ekki það sem aðrir hafa gert. Sannleikurinn er samt sá, að Alþfl. og verkalýðshreyfingin hafa haft frumkvæði um öll meiri háttar félagsleg umbótamál hér á landi frá byrjun og hafa enn. En Alþb. og forverar þess í íslenskum stjórnmálum hafa aldrei sýnt þessum málum verulegan áhuga og aldrei haft frumkvæði um nein þeirra, a. m. k. ekki um nein þeirra sem miklu máli skipta. Þetta hljómar andkannalega, en er staðreynd eigi að síður.

Herra forseti. Það, sem mér finnst vera mest áberandi í íslenskum stjórnmálum í dag, er sú staðreynd, að Alþb. ræður ferðinni í flestum meiri háttar málum þótt vitað sé að í mörgum þeirra er mikill meiri hluti þjóðarinnar á allt annarri skoðun en Alþb. Þetta á ekki aðeins við um utanríkis-, öryggis- og varnarmál, heldur og þýðingarmestu svið atvinnulífs okkar og er af mörgu að taka. Ég tel t. d. að mikill meiri hluti þjóðarinnar skilji nauðsyn þess að hraða uppbyggingu orkufrekra iðnfyrirtækja af mismunandi stærðum og gerðum víðs vegar um landið og um leið að flýta uppbyggingu stórra raforkuvera ef takast á að bæta lífskjör almennings fljótt og vel. Það er staðreynd, að lífskjör hér á landi hafa farið rýrnandi undanfarin ár og gera enn. Á meðan svo er höfum við ekki efni á því að sitja með hendur í skauti og láta lítt notaða þá einu af meiri háttar auðlindum okkar sem ekki er nú þegar full- eða ofnýtt, og á ég þá við orkuna í fallvötnum og jarðvarma. Hana verðum við að nýta í stórauknum mæli landi og lýð til blessunar. Þessa þróun hefur dauð afturhaldshönd Alþb. stöðvað undanfarin ár og gerir enn. Spurningin er: Hversu lengi ætlar meiri hluti þjóðarinnar og meiri hluti alþm. að líða það?

Ég þakka þeim sem hlýddu. Góðar stundir.