19.05.1981
Sameinað þing: 85. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4655 í B-deild Alþingistíðinda. (4814)

Almennar stjórnmálaumræður

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Flestum munu í fersku minni þeir erfiðleikar sem sóttu að þjóðarbúinu þegar ríkisstj. tók við fyrir rúmum 15 mánuðum. Við blasti 61% verðbólga, hallarekstur útflutningsatvinnuvega, þverrandi sparifjármyndun, en vaxandi ótti við kreppuástand og atvinnuleysi. Einkenni um meinsemdir í efnahagslífinu voru hvarvetna ljós. Auðvitað hefur ekki tekist að vinna bug á öllum þessum meinsemdum á þeim tíma sem síðan er liðinn. Á hinn bóginn hefur ýmist tekist að halda vel í horfinu eða snúa við blaðinu þannig að um verulega breytingu til batnaðar hefur verið að ræða. Atvinnuástand er gott, hjól atvinnulífsins hafa snúist, staða peningamála hefur farið batnandi, jafnvægi hefur verið á ríkisbúskapnum og verðbólgan hefur hægt á sér. Þetta hefur tekist þrátt fyrir það að á síðasta ári varð að mæta versnandi viðskiptakjörum og raunverulegu verðfalli afurða á erlendum markaði með miklu gengissigi sem hefur sjálfkrafa í för með sér aukna verðbólgu hér innanlands.

Efnahagsaðgerðir ríkisstj. á gamlársdag voru tengdar gjaldmiðilsbreytingunni. Þær voru nauðsynlegar til þess að draga úr verðbólgu, treysta stöðu atvinnuveganna og vernda hagsmuni launafólks. Þær höfðu jafnframt það markmið að treysta hinn nýja gjaldmiðil í sessi og auka trú almennings á því, að gjaldmiðilsbreytingin hefði efnahagslega þýðingu.

Óhætt mun að fullyrða að þjóðin hafi tekið þessum efnahagsráðstöfunum vel. Hún veit að í baráttunni við verðbólgu næst ekki árangur án þess að spyrna við fótum og grípa til ráða sem geta þrengt að í bili.

Ég minnist þess ekki, að það hafi í annan tíma gengið með friði að skerða vísitölubætur eins og gert var 1. mars og draga sem því nam úr tekjum launafólks, sjómanna og bænda. Þetta sýndi að fólk er reiðubúið að axla nokkrar byrðar til þess að unnt sé að ná árangri í viðureigninni við verðbólguna. Forustulið stjórnarandstöðunnar var hins vegar á móti þessum aðgerðum í heild, enda þótt viðurkennt væri að þær höfðu í för með sér að verðbólga á árinu yrði 20–30% minni en ella. Meira að segja gagnrýndi stjórnarandstaðan harðlega að gengið skyldi sett fast um áramót, en það hefur þó átt hvað drýgstan þátt í því, að meiri ró hefur hvílt yfir efnahagslífinu á fyrri hluta þessa árs en oftast áður.

Ríkisstj. er staðráðin í því að halda fast við markmið sitt að koma verðbólgunni niður í um 40% á þessu ári og grípa til þeirra efnahagsráðstafana sem nauðsynlegar kunna að reynast til þess að það markmið náist.

Fróðlegt verður að sjá hinn nýja vísitölugrundvöll sem nú er í undirbúningi. Hitt er jafnljóst að núverandi vísitölukerfi er meingallað og stuðlar að óréttlæti láglaunafólki í óhag. Sjálfvirkar hækkanir samkvæmt vísitölu á þriggja mánaða fresti riðla öllu efnahagskerfi og gera allar efnahagsráðstafanir haldminni en ella. Strax væri til bóta að fækka útreikningsdögum niður um í tvo á ári. Það mundi draga úr margfeldisáhrifum vísitölukerfisins og stuðla að meiri stöðugleika. Um breytingar á þessu kerfi þarf að ná samstöðu á pólitískum vettvangi og við hagsmunaaðila. Við þær breytingar þarf að hafa hagsmuni þjóðarheildarinnar að leiðarljósi, en þó gæta þess, að hinir verst settu dragist ekki sífellt aftur úr.

Stjórnmálaumræða er oft því marki brennd, að erfiðleikar eru málaðir sterkum lítum, dregnar eru fram neikvæðar hliðar á flestum málum. Gangi slík umræða linnulítið er hætt við að hún hafi þau áhrif að veikja trú fólks á möguleika til lífsbjargar í okkar landi. Slík umræða getur verið niðurrifsstarf, enda þótt nauðsynlegt sé að segja satt og rétt til um stöðu mála hverju sinni.

Í hinu venjulega stjórnmálaþrasi heyrist miklu sjaldnar rætt um framtíðarmöguleika okkar þjóðar og reynt að vekja á þeim áhuga. Þó er víst að þessir möguleikar eru miklir og þeir af ýmsum toga. Okkar gamalgrónu atvinnuvegir, sjávarútvegur og landbúnaður eru að vísu í þeirri stöðu nú að þar er ekki svigrúm til mikillar aukningar þótt þessir bjargræðisvegir verði áfram meginstoðir búsetu og afkomuskilyrða í landinu. Aukin fiskisæld nú hlýtur þó að auka bjartsýni í sjávarútvegi.

Í landbúnaðinum höfum við gengið í gegnum tímabil þar sem nauðsynlegt var að draga saman mjólkurframleiðslu vegna markaðsaðstæðna. Nú er tímabært að þessu samdráttarskeiði sé lokið því að á síðasta ári var mjólkurframleiðsla litlu meiri en við hæfi innlenda markaðsins. Sauðfjárframleiðsla þarf að haldast í svipuðu horfi og verið hefur, bæði til þess að standa undir tekjumöguleikum fólksins í sveitunum, sem vinnulega hafa beðið nokkurn hnekki við samdrátt í mjólkurframleiðslunni, og eins hins, að sauðfjárframleiðslan leggur iðnaði og þjónustugreinum til mikilvæg viðfangsefni sem halda uppi atvinnustarfsemi í þéttbýli allt í kringum landið.

Til þess að mæta nokkrum útflutningi sauðfjárafurða og e. t. v. mjólkurafurða þarf áfram að vera í gildi sú verðtrygging sem landbúnaðurinn hefur í útflutningsbótum. Um þetta hefur náðst aukinn friður og skilningur á síðustu misserum, og raddir, sem stefna í aðra átt, eru orðnar fátíðar. Jafnhliða þessu er unnið að því að leggja grunninn að auknum tekjumöguleikum fólksins í sveitum landsins með eflingu nýrra búgreina, einkum refaræktar og fiskiræktar, ásamt auknum afrakstri hlunninda, garðyrkju og ylræktar. Allt þetta tekur sinn tíma og sumpart þarf að fara að með gát. En samanlagt eiga þessar aðgerðir að leiða til aukinna tekjumöguleika fyrir bændur og annað sveitafólk og jafnframt að treysta byggðina.

Á síðasta ári var varið 500 millj. gkr. til nýjunga í landbúnaði, nýrra búgreina og ýmissa hagræðingarverkefna sem höfðu þennan tilgang. Á þessu ári verður nokkru meira fé varið í þessum tilgangi, væntanlega 700–800 millj. gkr. Víst er miklum erfiðleikum bundið að halda jafnvægi milli framleiðslu og markaðar, t. d. í mjólkurframleiðslunni. Að því þurfa bændur þó að keppa.

Ég hef látið í ljós að nú beri að forðast stórar sveiflur í framleiðslumálum, beina framfarahug bændastéttarinnar í þann farveg um sinn að auka hagkvæmni og framleiðni með tiltækum ráðum.

Þótt auðlindir fiskimiðanna í kringum landið og afrakstur gróðurmoldarinnar beri í sér mikla framtíð, þá er þó víst að við eigum nú meiri vaxtarmöguleika í orkulindum okkar, vatnsföllum og jarðvarma. Þessar orkulindir ber okkur að nýta þjóðinni til hagsældar: í fyrsta tagi til þess að nýta innlenda orkugjafa sem mest í stað innfluttra, helst þannig að við höfum útrýmt innfluttri orku fyrir lok þessarar aldar, en jafnframt til þess að efla arðgæfan atvinnurekstur í smærri og stærri stíl til þess að taka við aukningu vinnuafls á komandi árum.

Í þessum umræðum hefur mikið verið rætt um orkumál og þau eru brennandi á Alþingi þessa dagana. Í frv. ríkisstj. er rætt um víðtækar heimildir til framkvæmda í orkumálum með virkjun fjögurra nýrra vatnsaflsvirkjana, auk annarra aðgerða. Ríkisstj. vill koma þessum verkum af á 10–15 árum, þó helst eigi lengri tíma en tólf árum. Tillögur ríkisstj. í virkjunarmálum boða verulega aukningu á orkufrekum iðnaði sem geti tekið við meira en helmingi þeirrar orku sem þessi nýju orkuver framleiða. Þetta virtist hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson ekki hafa komið auga á þegar hann flutti ræðu sína áðan. En að undirbúningi þessara fyrirtækja þarf að vinna af dugnaði og fyrirhyggju og nýta til þess þá þekkingu og reynslu sem við höfum yfir að ráða.

Deilt er um það, hvort nauðsynlegt sé að taka ákvörðun um næstu vatnsaflsvirkjun nú fyrir þinglok eða ekki. Ég tel æskilegt að ákvörðun sé tekin hið allra fyrsta. En með tilliti til þess, sem ákveðið hefur verið að vinna að undirbúningi þessara mála nú í sumar, tel ég mögulegt að það dragist til haustsins án þess að tafir verði á framkvæmdum. Þær framkvæmdir, sem ákveðnar hafa verið á þessu ári, eru í fyrsta lagi að hefjast handa um að auka orkuvinnslugetu raforkukerfisins með vatnaveitum til Þórisvatns og að auka miðlunarrými þess, hefja framkvæmdir við Sultartangastíflu og einnig að heimiluð verði þriðja vélasamstæðan við Hrauneyjafossvirkjun. Þessar aðgerðir eiga samanlagt að tryggja að nægilegt orkuframboð verði í raforkukerfinu fram á síðari hluta þessa áratugar eða a. m. k. til 1986 eða 1987. Jafnframt þessum aðgerðum verði á þessu sumri unnið að eftirfarandi verkefnum.:

Hraðað verði verkhönnun við Blönduvirkjun. Lokið verði rannsóknum vegna Fljótsdalsvirkjunar og verkhönnun hafin.

Hafnar verði tilraunir með uppgræðslu og gróðurbætur á virkjunarsvæði Blöndu í samráði við sérfræðinga og heimamenn og ráðist í vegagerð á virkjunarsvæðinu.

Samhliða þessu verði leitast við að ná sem fyrst samningum við hagsmunaaðila vegna Blönduvirkjunar.

Á þennan hátt verði tryggt að ekki verði tafir á undirbúningi næstu vatnsaflsvirkjunar þótt ákvörðun um hana verði tekin síðari hluta ársins og leitað staðfestingar Alþingis á haustþingi, svo sem gert er ráð fyrir í frv. ríkisstj. um raforkuver.

Það er sameiginleg skoðun ríkisstj. og flestra annarra að við ákvörðun um næstu virkjun beri að taka mið af þjóðhagslegri hagkvæmni og öryggi í raforkukerfi landsins. M. a. hefur ríkisstj. samþykkt í þessu sambandi að verja til undirbúnings Blönduvirkjunar allt að 12 millj. kr. á þessu ári, þar af til vegagerðar 3–4 millj. kr. Stefnt verði að því að haga undirbúningi þannig að gerð úfboðsgagna geti hafist fyrir árslok. Það er afar mikilvægt að samningar geti tekist milli hagsmunaaðila að því er varðar landsréttindi vegna Blönduvirkjunar. Slíkt mál þarf að leysa með sanngjörnum bótum án þess að málinu sé teflt í tvísýnu með stífni. Blönduvirkjun er nú talin hafa yfirburði hvað hagkvæmni snertir umfram aðra virkjunarkosti og staðsetning hennar er heppileg með tilliti til raforkukerfisins. Hér er því um að ræða ákaflega stórt mál fyrir þjóðarheildina.

Herra forseti. Í þeim mikilvægu málaflokkum, sem ég hef nefnt hér að framan, liggur efnahagsleg framtíð okkar þjóðar. Ef við berum gæfu til að nýta af hyggindum og áræði þessar auðlindir okkar mun þjóðin eiga blómlega framtíð í landinu. Víxlspor mega ekki verða til þess að spilla þeirri framtíðarsýn. Slík víxlspor geta orðið ef pólitískir flokkadrættir og harðar deilur eru metin meira en tilraunir til að ná efnislegri samstöðu um hin mikilvægustu mál. Sömu sögu er að segja um baráttu okkar í efnahagsmálum. Flokkspólitísk afstaða verður að sjálfsögðu ekki lögð til hliðar. En það er sannfæring mín að þeir muni vaxa að virðingu og trausti meðal þjóðarinnar sem taka efnislega afstöðu til mála, en láta ekki stjórnast af því að vera móti í þeim tilgangi einum að það komi pólitískum andstæðingum illa. Stjórnmálastarf verður að byggjast á því að taka tillit til ólíkra sjónarmiða, ólíkra hagsmuna. Niðurstaða, sem þannig er fengin, er líklegri til að lægja öldur og hún getur skapað það hugarfar sem kann að vera forsenda fyrir því, að fullnægjandi árangur náist í þeim ásetningi ríkisstj. að koma efnahagsmálum þjóðarinnar á eðlilegan grundvöll.

Ég þakka þeim sem hlýtt hafa. Góða nótt.