20.05.1981
Efri deild: 112. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4673 í B-deild Alþingistíðinda. (4835)

313. mál, steinullarverksmiðja

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að koma hér og lýsa ánægju minni með að frv. til l. um steinullarverksmiðju skuli nú vera til umfjöllunar.

Ég hef frá því árið 1975 fylgst með þeim rannsóknum og athugunum sem farið hafa fram til undirbúnings að stofnsetningu steinullarverksmiðju, en árið 1975 var einmitt hafist handa um ýmiss konar upplýsingar og gagnaöflun fyrir slíkt fyrirtæki á Sauðarkróki. Þeir aðilar, sem einkum veittu ráðgjöf í þessum efnum á þessum tíma, voru m. a. Háskólinn, Iðnþróunarstofnun Íslands, Framkvæmdastofnun ríkisins, auk ýmissa athafnamanna og áhugaaðila í iðnaði.

Í framhaldi af þessum athugunum voru teknar upp fjárveitingar úr bæjarsjóði Sauðárkróks vegna þessa máls. Í aprílmánuði árið 1977 var haldinn fundur að frumkvæði bæjarstjórnar Sauðárkróks í Iðnþróunarstofnun Íslands. Á þessum fundi voru lögð fyrstu drög að steinullarverksmiðju á Sauðárkróki. Á þessu ári voru gerðar mjög ítarlegar jarðfræðiathuganir í nágrenni Sauðárkróks sem gáfu mjög góða raun. Það var svo í janúarmánuði árið 1978 sem lögð var fram mjög vel unnin skýrsla af Iðnþróunarstofnun, sem bar heitið „Steinullarframleiðsla á Sauðárkróki. Könnunarskýrsla I.“ Með þessari skýrslu fylgdi frumkostnaðaráætlun um stofnkostnað og rekstur á um 15 þús. tonna verksmiðju. Eftir að Könnunarskýrsla I hafði verið skoðuð mjög nákvæmlega og kynnt fyrir ýmsum er þetta mál varðar, m. a. iðnrn. og þm., var eindregið mælt með að halda áfram og ljúka næsta áfanga þar sem skýrslan lofaði svo góðu um framhaldið.

Að tillögu Iðnþróunarstofnunar og í samráði við Útflutningsmiðstöð iðnaðarins var ákveðið að fara í sérstaka kynnisferð til steinullar- og vélaframleiðenda erlendis. Auk heimaaðila fóru í þessa ferð fulltrúar frá Iðnþróunarstofnun og Útflutningsmiðstöð iðnaðarins. Árangurinn af ferðinni í heild var jákvæður og í henni fengust mjög gagnlegar upplýsingar og gott samband náðist við erlenda framleiðendur véla og tækjabúnaðar.

Þegar hér var komið lá fyrir að fram undan væru ýmsar kostnaðarsamar athuganir, og var þá leitað til iðnrn. um frekari fjárstuðning, en um svipað leyti var gerður samstarfssamningur við Iðntæknistofnun um áframhaldandi athuganir. Þar var m. a. samþykkt að með alla vitneskju um málið skyldi farið sem trúnaðarmál milli aðila. Haustið 1978 samþykkti iðnrn. að standa straum af kostnaði við bræðsluprófanir og markaðsathuganir, en eingöngu gegn því skilyrði að aðrir aðilar, sem áhuga hefðu á framleiðslu steinullar, fengju aðgang að þeim upplýsingum á jafnréttisgrundvelli. Fulltrúum Sauðárkróks þóttu þetta að vísu harðir kostir þar sem svo lengi hafði verið unnið með stofnunum rn. að málinu. Þessi meðferð málsins var þó samþykkt þar sem ekki voru aðrar leiðir til fjármögnunar þessara rannsókna. Með þessu samkomulagi féll og úr gildi samningur Sauðárkróks við Iðntæknistofnun sem mjög vel hafði að þessum málum unnið.

Á árinu 1979 ákvað rn. að láta vinna stofn- og rekstrarkostnaðaráætlun fyrir steinullarverksmiðju á Íslandi. Eftir stjórnarskiptin á því ári urðu óvæntar breytingar á stefnu rn. Ákveðið var að taka málið úr höndum Iðntæknistofnunar og afhenda áðurnefnda skýrslu öllum þeim sem kynnu að hafa áhuga á málinu. Iðntæknistofnun afhenti þó ekki nöfn hugsanlegra erlendra kaupenda vegna loforðs stofnunarinnar um trúnað við þessa aðila, þ. e. að þeim yrði ekki blandað í málið fyrr en ákvörðun um staðsetningu verksmiðju lægi fyrir. Skömmu síðar lét þó Iðntæknistofnun þessar upplýsingar af hendi. Í kjölfar þess fór einn áhugaaðili utan til að heimsækja þessa aðila. Síðan hefur málið verið tíðum í fjölmiðlum og því flestum nokkuð kunnugt um framhaldið.

Ég hef hér að framan farið yfir forsögu þessa máls, frá því að farið var að vinna að því á Sauðárkróki árið 1975, og talið það nauðsynlegt. Um frv. sjálft ætla ég ekki að ræða frekar nú, en ég vil þó benda rækilega á þann kafla er fjallar um byggðaáhrif slíkrar verksmiðju og margir virðast ekki hafa gefið þann gaum sem ég hefði kosið. Þar er talið líklegt að staðsetning steinullarverksmiðju á Sauðárkróki stuðli að íbúafjölgun þar um 310 manns, en verði verksmiðjan staðsett í Þorlákshöfn er áætluð íbúafjölgun þar um 190 manns. Svæðisbundin atvinnuáhrif eru því sterkari á Sauðárkróki. M. a. að því leyti eru áhrif verksmiðjunnar á byggðaþróun á landinu sterkari þar en í Þorlákshöfn.

Nú eru vissulega tímamót á næsta leiti. Í þessu máli hefur verið reynt að feta sig áfram skref fyrir skref að ákveðnu marki sem nú er í sjónmáli. Það er öllum þarft og hollt að líta til baka og skoða forsögu þessa máls og þá um leið þann grunn sem byggt skal á. Ýmsir kostir til aukinnar notkunar á steinull eru nú athugaðir og vissulega má ætla að um verulega aukna notkun á steinull verði að ræða hér á landi á næstu árum.

Hæstv. iðnrh. hefur að undanförnu verið að kynna hér á Alþingi og víðar ýmsa nýja atvinnukosti, suma komna að framkvæmdastigi, en aðra sem enn eru á athugunarstigi. Eitt eiga nær allir þessir atvinnukostir sameiginlegt, þ. e. að verða staðsettir á eða við stór-Reykjavíkursvæðið. Það eru vandfundin atvinnufyrirtæki í iðnaði sem er rekstrarlega hagstætt að reisa og reka utan stór-Reykjavíkursvæðisins. Steinullarverksmiðjan er þó eitt slíkt fyrirtæki.

Ég held að menn geti verið sammála um að í þeim skýrslum og athugunum, sem gerðar hafa verið komi fram að skynsamlega sé að þessu máli staðið hér og um gott fyrirtæki sé að ræða. Í frv. þessu er ekki tekin ákvörðun um hvar slík verksmiðja sem hér um ræðir verði reist og verði ríkisstj. að kveða á um það. Ég ætla ekki að ræða þann þátt hér og nú, þótt ég gæti ýmislegt sagt um það, ekki síst vegna þeirra orða er hæstv. iðnrh. lét falla um það atriði í ræðu sinni er hann mælti fyrir þessu frv. Ég verð að treysta á að hillingar villi ekki um fyrir þeim er vald til ákvörðunar verður hér gefið.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. þótt ýmislegt fleira væri hægt að segja um þróun þessa máls. En úr því sem komið er sé ég ekki að það þjóni neinum tilgangi nema þá sérstakt tilefni gefist til. Ég endurtek að ég vænti þess að þetta frv. nái fram fyrir þinglok þannig að úr framkvæmdum geti orðið sem fyrst.