20.05.1981
Efri deild: 112. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4674 í B-deild Alþingistíðinda. (4836)

313. mál, steinullarverksmiðja

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Eins og hv. deild hefur væntanlega veitt athygli hefur iðnn. leitast við á mjög skömmum tíma að afgreiða þau frv. sem fyrir hana hafa verið lögð, kannske með meiri hraða en verður að teljast eðlilegt, en alla vega hefur þetta þó þýtt að tíminn til að skoða þessi mál hefur verið hörmulega naumur. Ég held að það sé þess vegna alveg óhætt að ítreka að þegar af þeirri ástæðu hafi ekki verið tækifæri til að meta þau mál, sem hér um ræðir, eins ítarlega og nm. hefðu gjarnan kosið og æskilegt megi telja. Þegar af þeirri ástæðu, og kemur þó fleira til, kemur sú grundvallarskoðun n. fram í afstöðu hennar og þeim brtt., sem hún flytur, að ekki séu tök til þess að ríkið hafi frumkvæði í þeim málum sem hér um ræðir. Allar brtt. n. lúta að því að þeir aðilar, sem vilja ráðast í verksmiðju af þessu tagi, sýni fram á það fyrst að þeir séu reiðubúnir að hætta fé sínu í fyrirtæki af þessu tagi og hlutafjárframlag ríkisins komi ekki til framkvæmda nema áður hafi verið safnað því hlutafé sem ætlast er til að aðrir aðilar safni. Það hefur líka verið tekin sú afstaða að tryggja að heildarhlutafé í fyrirtækinu væri það sem teljast mætti eðlilegt og nauðsynlegt í sambandi við fyrirtæki af þessu tagi.

Nefndin hefur á engan hátt tekið afstöðu til þess, hvar verksmiðja af þessu tagi ætti að risa, en hún hefur lagt hér almennar leikreglur um hvernig með skuli farið. Grunninntakið í því er það, að þeir aðilar, sem áhuga hafa á málinu, sýni áhuga sinn og trú sína á verkefninu og gangi það vel í gegnum þau atriði sem um er að ræða að það liggi algerlega ljóst fyrir að þeir hafi trú á því og muni hætta fé sínu í þetta verkefni. Þó að það sé ekki sérstaklega tekið fram að því er varðar ríkisábyrgðir held ég að óhætt sé að segja að hugsun n. hafi verið sú, að það sama gilti að því er ríkisábyrgðirnar varðaði, þ. e. umfram það hlutafé, sem hefði safnast, væri sýnt fram á að annað lánsfé fengist. Ég vil að þetta sjónarmið komi hér líka fram vegna þess, hvernig þetta mál er að öllu leyti í pottinn búið, að til þess að ríkisábyrgðir verði veittar hafi verið sýnt fram á að annað lánsfé fáist án þess að til ríkisábyrgða komi.

Ég vil að lokum aðeins benda á að hér er náttúrlega um nokkuð öðruvísi mál að ræða en það mál sem var hér nýlega til umfjöllunar, um sjóefnavinnslu á Reykjanesi. Þar tók n. þá afstöðu að minnka stærð verksmiðjunnar í raun og sannleika niður í 8 þús. tonn, segja fyrir um það, hvernig menn skyldu standa að málum að þeim áfanga byggðum og hvaða skilyrði þyrftu að vera uppfyllt til þess að haldið væri áfram. Þar var hins vegar um rannsóknarverkefni að ræða að dómi n. og þess vegna eðlilegt að ríkið hefði frumkvæði. Sjóefnavinnslan er rannsóknar og þróunarverkefni upp að vissu marki sem ríkið hefur þess vegna frumkvæði að. Hér er ekki um slíkt að ræða. Hér er um að ræða iðnaðarframleiðslu og hlutafélag sem ætla verður að áhugaaðilar sýni trú sína á með þeim hætti sem n. hefur gert ráð fyrir. Séu skilyrði uppfyllt með þeim hætti, sem ég hef hér rakið, á að vera fengin trygging sem við getum haft besta fyrir því, að ekki verði flanað að neinu. Ef haldið verður á málunum með þessum hætti á það að verða besta tryggingin fyrir því, að hér verði einungis ráðist í það sem telja verður eðlilegt og sjálfsagt og getur verið liður í æskilegri iðnþróun á Íslandi.